Hlýðið nú Björk siðar hópinn sinn til við matargjöf dagsins.
Hlýðið nú Björk siðar hópinn sinn til við matargjöf dagsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að rækta er lífið, segir Björk Bjarnadóttir sem býr í Brennholti ásamt Tómasi manni sínum en þar stunda þau lífræna ræktun. Björk vill helst vera úti allan daginn.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við viljum vera fólki hvatning svo fleiri fari að rækta sitt eigið grænmeti. Þetta er ekkert mál, fólk getur ræktað heilmargt fyrir sjálft sig þó það hafi ekki garða, á svölum er til dæmis hægt að rækta kartöflur, kál, salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira. Ég mæli með að fólk rækti frekar grænmeti en gras þar sem eru litlar lóðir við íbúðarhús. Fólk þarf ekki að fara á námskeið til að rækta matjurtir, það á bara að vaða í verkið. Þetta eru ekki geimvísindi og maður lærir mest á því að gera sjálfur. Auk þess er auðvelt að sækja sér upplýsingar á netinu. Aðalmálið er að vera ekki hræddur, jurtir vaxa ef passað er upp á birtu, vökvun og næringu moldar,“ segir Björk Bjarnadóttir sem býr ásamt manni sínum Tómasi Atla Ponzi í Brennholti í Mosfellsdal, en þar rækta þau lífrænt ræktað grænmeti og tómata fyrir almenning, veitingahús og eigið heimili.

„Kokkarnir eru brjálaðir í þetta, við önnum ekki eftirspurn. En við ræktum líka fyrir okkur sjálf og eigum grænmeti allt árið. Við kaupum kjöt fyrir heimilið beint frá bónda og fáum fisk frá bróður mínum sem er sjómaður. Við fáum kindaskít frá nágranna okkar sem við notum sem áburð í jurtaræktuninni, en við notum engan tilbúinn áburð og ekkert skordýra- eða illgresiseitur. Það sem skaðar umhverfið skaðar okkur líka. Það sem fer í jarðveginn hverfur ekki heldur fer í vistkerfið og hefur áhrif á okkur öll og berst út í grunnvatnið.“

Betra bragð ef ræktað hægt

Þau Björk og Tómas hafa búið undanfarin átta ár í Brennholti en þau fluttu þangað þremur árum eftir að faðir Tómasar féll frá.

„Foreldrar Tómasar, Guðrún Tómasdóttir og Frank Ponzi, kynntust í Bandaríkjunum þegar hún var þar að læra söng. Þau fluttu hingað um 1970 og byggðu upp Brennholt þar sem þau hófu sjálfsþurftarbúskap og voru sjálfstætt starfandi. Eftir að við Tómas fluttum hingað fórum við strax að spá í tómataræktun, við vildum arfhrein fræ og lífrænt ræktuð og hófum að rækta mjög sérstaka tómata, annars vegar svokölluð ættardjásn sem eru í upphitaða gróðurhúsinu okkar, og hinsvegar síberíska kuldaþolna tómata sem eru í köldu gróðurhúsunum. Við viljum bjóða upp á hágæða bragðgóðar vörur og ræktun okkar snýst því ekki um magn heldur gæði. Allt sem er ræktað í rólegheitum og leyft að vaxa á sínum hraða og hefur lífræna ræktun á bakvið sig, það er miklu bragðbetra. Salatið okkar vex úti í vindi og sól og fyrir vikið verða blöðin sterk og stökk og bragðið gott.“

Gróðurhús með dverganöfn

Björk segir að Tómas búi vel að þeirri reynslu að hafa alist upp við ylrækt foreldra sinna.

„Sjálf ólst ég upp á Blönduósi í nánum tengslum við náttúruna og ég kann rosalega vel við mig hér í sveitasælunni í Brennholti. Ég vil helst vera úti allan daginn, og ef ég þarf að fara í bæinn í útréttingar milli stofnana þá finnst mér dagurinn ónýtur,“ segir Björk og bætir við að sjálfbærnibúskapurinn sé bæði hugsjón og ánægja hjá þeim Tómasi.

„Okkur finnst báðum rosalega gaman að rækta. Að rækta er lífið sjálft. Nú er törn í vorverkunum, við þurfum að koma tómatplöntunum í jörðina, en við ræktum líka gulrætur, aspas, hvítlauk, rauðlauk, rófur, rauðrófur, brokkólí, blómkál, grænkál og oregano. Köldu gróðurhúsin okkar heita eftir tveimur af fjórum dvergum úr norrænni goðafræði sem halda uppi himinhvelfingunni sjálfri, Norðri og Suðri, sem einnig standa fyrir höfuðáttirnar fjórar.

Ný afbrigði sem Tómas hefur búið til með krossfrjóvgun virkuðu best í köldu húsunum í fyrra. Á þessu sumri fáum við okkur humlur til að hjálpa til með frjóvgun þeirra,“ segir Björk sem er þjóðfræðingur og notar þjóðfræðina mikið þegar hún hefur verið að kenna í afleysingum.

„Ég segi fornar sögur úr náttúrunni, segi frá nytjum jurta og sögur af plöntum. En krakkar vilja helst heyra draugasögur,“ segir hún og hlær.

Afslappandi að kveikja upp

Björk og Tómas eru með sex landnámshænur í Brennholti sem sjá þeim fyrir eggjum og einn hani er meðal þeirra, til skrauts.

„Ég kalla þær púdds og þetta eru miklar dekurhænur. Þær hlaupa frjálsar hér um allt þegar ég hleypi þeim út yfir daginn. Þær hafa allar nafn og búa yfir ólíkum persónuleika. Haninn heitir Rauður og sér um að halda hópnum saman og reynir að grípa inn í erjur milli hænsnanna. Hænurnar heita Brussa, Rósa, Dama, Gýpa, Pönký sem er gæfust og klárust og svo Brúska sem er aðalfrekjan,“ segir Björk sem eldar hafragraut á hlóðum fyrir sínar dekurhænur einu sinni í viku.

„Þær eru sérlega sólgnar í hann og vilja hafa hann heitan. En ég gef þeim líka korn og þær fá matarafganga okkar Tómasar sem og grænmetisafganga frá veitingastað. Súkkulaðikökur og rjómi er það besta sem þær fá.“

Björk býður blaðamanni í garði sínum upp á unaðslega jurtaveig sem hún lætur malla yfir opnum eldi.

„Ég klippi greinar af birki eða greni og læt út í vatn og leyfi því að sjóða í svolitla stund. Birkið er að blómstra núna svo það er kraftmikið á þessum árstíma. Svona jurtaveig er mögnuð, af því hún hitnar á sínum tíma yfir lifandi eldi en ekki við rafmagn á skotstund,“ segir Björk og bætir við að hún mæli með að fólk búi til sín eigin grill, rétt eins og hún hefur gert.

„Það er sáraeinfalt, hlaða steinum og setja grind yfir. Mér finnst rosalega gaman að kveikja eld, en ég bjó í Kanada í fimm ár og vann þar með frumbyggjum þar sem ég var að læra um þjóðhætti og þjóðlíf þeirra. Á meðal margs sem ég lærði af þeim var að höggva í eldinn og kveikja eld án þess að nota bensín, nota heldur uppkveikiefni eins og smáar greinar. Mér finnst afslappandi og gefandi að kveikja upp. Íslendingar eru allt of hræddir við eld, þeir þurfa að láta af þeim ótta.“

Myndskeið frá Brennholti er að finna á mbl.is