[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Umhverfismál og loftslagsmál sérstaklega eru á allra vörum um þessar mundir. Breska þingið steig það óvenjulega skref á dögunum að lýsa yfir neyðarástandi á þessu sviði og írska þingið fylgdi í kjölfarið.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Umhverfismál og loftslagsmál sérstaklega eru á allra vörum um þessar mundir. Breska þingið steig það óvenjulega skref á dögunum að lýsa yfir neyðarástandi á þessu sviði og írska þingið fylgdi í kjölfarið. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, útilokar ekki að Íslendingar geri þetta einnig. En hvað felst í slíkri yfirlýsingu? Leggur hún nýjar skyldur á herðar stjórnvalda eða almennings?

Hugmyndin að því að lýsa yfir neyðarástandi í umhverfis- og loftslagsmálum kom fyrst fram í mótmælaaðgerðum grasrótarsamtakanna Extinction Rebellion í London og víðar fyrir nokkrum vikum. Málið var tekið upp í þinginu af Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, sem fékk yfirlýsingu um neyðarástand samþykkta án atkvæðagreiðslu. Ályktunin bindur þó á engan hátt hendur stjórnvalda og leiðir ekki sjálfkrafa til stefnubreytingar eða nýrra aðgerða. Umhverfisráðherra Breta, Michael Gove, kvaðst sammála um að um neyðarástand væri að ræða en tók þó ekki undir með Corbyn að ástæða væri til sérstakrar yfirlýsingar vegna þess.

Ekki er samstaða um það hvaða athafnir eigi að fylgja yfirlýsingu um neyðarástand í umhverfis- og loftslagsmálum. Fjöldi sveitarstjórna í Bretlandi hefur samþykkt sams konar yfirlýsingu og þingið og vilja margar þeirra að landið verði kolefnishlutlaust árið 2030. Það myndi kalla á mjög róttækar aðgerðir sem hefðu áhrif um allt atvinnulífið og þjóðlífið. Opinber stefna breskra stjórnvalda er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 80% (frá því sem var árið 1990) árið 2050. Skotar hafa markað sjálfstæða stefnu um að ná sama markmiði árið 2045.

Erum að sjá neyðaratburði

Þegar mbl.is spurði umhverfis- og auðlindaráðherra að því í vikunni sem leið hvort hann teldi að íslensk stjórnvöld ættu að lýsa yfir neyðarástandi sagði hann fyrstu spurninguna verða að vera hvort neyð ríkti. „Ég myndi svara því þannig að við hefðum séð og værum að horfa upp á neyðaratburði sem rekja mætti til loftslagsbreytinga, hvort sem það væru þurrkar, flóð, hækkun yfirborðs sjávar eða útrýming tegunda. Það er því hægt að svara þessu játandi,“ sagði hann. „Því næst spyr maður sig hvað maður geri þegar um neyðarástand er að ræða og það að grípa til aðgerða er aðalmálið í mínum huga,“ bætti hann við.

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að ná kolefnishlutleysi árið 2040. „Við erum með aðgerðaáætlun í gangi sem við settum af stað í fyrrahaust og við erum að vinna eftir. Við erum auk þess að endurskoða hana og vonumst til þess að koma með frekari aðgerðir í haust,“ sagði ráðherrann og kvaðst fagna umræðunni og ekki vilja útiloka neitt.

Ekki bara stjórnvöld

Í viðtalinu segist Guðmundur Ingi Guðbrandsson fagna öllum þrýstingi á stjórnvöld, en bendir á að loftslagsmálin snúist þó um svo miklu meira en stjórnvöld. „Þetta snýst um að allt þjóðfélagið og samfélagið sé á þeim stað að samsama sig því að þarna er alveg risavaxið viðfangsefni.“ Eigi að takast að koma í veg fyrir að þeir neyðaratburðir sem rekja megi til loftslagsbreytinga verði algengari í framtíðinni verði jarðarbúar að takast á við það verkefni.

Vilja ganga mun lengra

Landvernd vill ganga lengra en stjórnvöld hafa ákveðið. „Við viljum að þetta sé tekið alvarlega. Aðgerðaáætlunin sem nú er dugar engan veginn. Hún er ótímasett, ómagnbundin og tekur ekki á öllum geirum sem nota mikið af gróðurhúsalofttegundum,“ var haft eftir Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna. Landvernd tekur dæmi í tíu liðum um aðgerðir sem sagðar eru vel gerlegar og skili skjótum samdrætti í losun. Meðal þeirra er tillaga um að skattur verði tekinn af fargjaldi hvers farþega sem kemur hingað, sala á nýjum dísil- og bensínbílum verði bönnuð frá 2023 og að dregið verði úr framleiðslu dýraafurða um 40% til 2030 samhliða breyttu styrkjakerfi í landbúnaði.