Í fréttum Ríkisútvarpsins sl. fimmtudagskvöld var rætt við Carl Baudenbacer fyrrverandi forseta EFTA dómstólsins sem nú starfar sem sjálfstæður ráðgjafi. Utanríkisráðuneytið hafði greitt Carl fyrir að skrifa álit vegna sk. Þriðja orkupakka.

Í fréttum Ríkisútvarpsins sl. fimmtudagskvöld var rætt við Carl Baudenbacer fyrrverandi forseta EFTA dómstólsins sem nú starfar sem sjálfstæður ráðgjafi. Utanríkisráðuneytið hafði greitt Carl fyrir að skrifa álit vegna sk. Þriðja orkupakka. Greinilegt er að ráðuneytinu hefur þótt fengur í því að greiða fyrir flug, hótel og bíl fyrir Carl sem mættur er til landsins. Í viðtalinu kom fram að íslensk stjórnvöld hefðu ekkert gert á fyrri stigum til að hafa áhrif á þennan orkupakka og fréttamaður Ríkisútvarpsins tekur sérstaklega fram að sá sem þetta ritar hafi verið utanríkisráðherra. Við erum reyndar fjögur sem höfum verið ráðherrar á þessum tíma. Hvort það var fréttamaður Ríkisútvarpsins, gestgjafar Carls eða áróðursmeistarar ríkisstjórnarinnar sem sögðu blessuðum manninum að ekkert hefði verið gert, veit ég ekki. Sannleikurinn er vitanlega annar.

Viðræður við Evrópusambandið um undanþágur frá Orkupakka 3 fóru fram um amk. tveggja ára skeið og ljóst að þreifingar stóðu mun lengur enda málið allt um 10 ára gamalt. Viðræðurnar voru erfiðar m.a. vegna þess að Ísland hafði þegar innleitt fyrri orkutilskipanir vandalaust. Þegar viðræðum er lokið og orðið ljóst hvaða undanþágur eru í boði og hverjar ekki þarf að taka afstöðu til þess og um það fjallaði alþingi eins og vera ber. Alþingi komst að niðurstöðu í september 2016 og sendi þáverandi utanríkisráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, erindi þar að lútandi en hún sendi það síðan til sameiginlegu EES nefndarinnar vorið 2017 þar sem tækifæri var á að ræða breytingar.

Staðan er einfaldlega sú að í dag þarf að taka ákvörðun um hvort við erum sátt við þær undanþágur sem við fengum eða hvort það eigi að vísa því á ný til sameiginlegu EES nefndarinnar. Carl segir það reyndar í sínu áliti að það sé enginn vafi á því að það sé réttur Íslendinga. Hann segir líka að ESB gæti farið í fýlu. Þegar það kom í minn hlut að slíta viðræðum Íslands um aðild landsins að Evrópusambandinu hafði ég vissulega nokkrar áhyggjur af viðbrögðum ESB en það reyndist óþarfi og aldrei nokkurn tíma í þessum viðræðum kom fram hótun, aldrei var því hótað að reka okkur úr EES eða beita okkur öðrum refsingum. Eingöngu var óskað eftir því að þetta yrði gert með sómasamlegum hætti, engum látum.

Þeir sem beita hræðsluáróðri um að ef málið fari aftur til sameiginlegu EES nefndarinnar sé EES samningurinn í hættu eru að grafa undan honum. Sumt í þessum söng minnir á heimsendaspárnar sem fylgdu Icesave málinu enda er þetta að miklu leyti sama fólkið. Fólk sem ekki vill styggja alþjóðasamfélagið, sér okkar hreinu orku sem hverja aðra vöru og/eða fólk sem þráir ekkert heitar en að gerast aðilar að Evrópusambandinu.

Hvað er svo í Orkupökkum 4 og 5?

Höfundur er alþingismaður Suðvesturkjördæmis og varaformaður Miðflokksins. gunnarbragi@althingi.is

Höf.: Gunnar Bragi Sveinsson