Ástríður K. Kristjánsdóttir, eða Ásta eins og hún vildi láta kalla sig, fæddist á Akureyri 17. júní 1965. Hún lést 29. apríl 2019, á Sjúkrahúsi Akureyrar.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Buhl, f. 13. júní 1930, d. 7. október 2007, og Margrét Viktoría Magnúsdóttir, f. 20. desember 1929, d. 27. janúar 2015.

Ásta var næstyngst fimm systkina. Systkini Ástu eru 1. Lovísa Signý Kristjánsdóttir, f. 1960. Maður hennar er Björn Einarsson, f. 1958. Þau eiga þrjú börn: Margréti Ósk Buhl, Einar Berg og Kristján Breka. 2. Magnús Kristjánsson, f. 1961. 3. Hans Pétur Kristjánsson, f. 1962. 4. Hólmfríður B. Kristjánsdóttir, f. 1970. Maður hennar er Eggert Rúnar Birgisson. Þau eiga einn son, Kristján Birgi.

Einkadóttir Ástu er Sunneva Dögg Ragnarsdóttir, f. 1990. Hennar maður er Bragi Austfjörð, f. 1978.

Ásta ólst upp á Ytri-Reistará í Arnarneshreppi. Eftir grunnskóla flutti hún til Akureyrar, þar sem hún starfaði meðal annars í kjörbúð, í Súkkulaðiverksmiðjunni Lindu, sem línumaður hjá Rarik og í byggingarvinnu. Haustið 1987 flutti Ásta til Reykjavíkur og vann hjá Plastos til ársins 1992. Þá flutti hún til Akureyrar og fór að vinna sem leiðbeinandi á Leikskólanum Iðavöllum og vann þar til ársins 2014, en þurfti þá að hætta vegna veikinda.

Útför Ástu fer fram frá Möðruvallakirkju í Hörgárdal í dag, 11. maí 2019, og hefst athöfnin klukkan 14.

Mig langar að minnast Ástríðar (Ástu) Kristjánsdóttur, eða Systu eins og hún var kölluð af fjölskyldunni, í nokkrum orðum. Ég var svo lánsöm að kynnast henni og Ytri-Reistarár-fjölskyldunni allri í gegnum litla bróður minn og mágkonu.

Við Systa hittumst iðulega í Móasíðunni í afmælisboðum og við önnur tækifæri þar sem stórfjölskyldan kom saman. Í boðunum hjá Lovísu og litla bróður var mikið borðað og margt skrafað.

Þegar ég kynntist Systu var Sunneva komin í heiminn. Þær mæðgur tengdust sterkum böndum í sinni litlu fjölskyldu, rétt eins og við mamma í minni bernsku. Ég fann því til samkenndar með þeim mæðgum Sunnevu og Systu.

Systa hafði notalega nærveru og var hógvær í framkomu. Eiginleikar sem koma sér vel í starfi með börnum, en hún starfaði á leikskóla um árabil og á meðan starfsþrek hennar leyfði. Þessar línur úr ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi gætu verið lýsandi fyrir framgöngu hennar:

Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna

og varst þér sjálfri hlífðarlaus og hörð.Þú vaktir yfir velferð barna þinna,

þú vildir rækta þeirra ættarjörð.

Frá æsku varstu gædd þeim góða anda,

sem gefur þjóðum ást til sinna landa,

og eykur þeirra afl og trú,

en það er eðli mjúkra móðurhanda

að miðla gjöfum – eins og þú.

Elsku Sunneva, Bragi, Lovísa, litli bróðir, Margrét, Einar, Kristján Breki, Maggi, Hansi, Lilla, Eggert, Kristján Birgir og aðrir nákomnir. Hugur minn er hjá ykkur. Það er erfitt að sætta sig við að Systa sé horfin úr þessum heimi svo allt, allt of fljótt, en minningar um elskulega konu lifa með okkur.

Hulda Steingrímsdóttir.

Nú hefur vinkona mín kvatt þetta líf. Um huga minn þjóta minningabrot frá ýmsum æviskeiðum, eins og perlur á lífsfestinni.

Ég sé fyrir mér tvær feimnar litlar stelpuskottur með langar fléttur, um margt ólíkar. Þarna í litla herberginu á Reistará með rósóttu gardínunum og blómstrandi pottaplöntunum í glugganum var upphafið að ævilangri vináttu. Við tókum hvor annarri með kostum og göllum. Við vorum vinkonur.

Þú varst árinu eldri og þar með varstu aðeins á undan mér í lífinu. Þú fórst á undan mér í Hjalteyrarskóla, ég beið heima eftir að verða sjö ára svo ég gæti farið með vinkonu minni með Júllarútu í skólann.

Þú fórst líka á undan mér á heimavistarskólann á Þelamörk þegar við vorum unglingar. Ég kom á eftir og að sjálfsögðu vorum við herbergisfélagar, það kom ekkert annað til greina. Þú fluttir líka á undan mér í kaupstaðinn en ég kom á hæla þér og að sjálfsögðu leigðum við saman. Það kom ekkert annað til greina.

Svo kom að því að hleypa heimdraganum og flytja til höfuðborgarinnar. Það kom ekkert annað til greina en flytja saman suður á Aragötuna. Eftir nám og störf í borginni fluttum við báðar norður aftur. Það kom ekkert annað til greina. Við vorum vinkonur.

Þú varst líka á undan mér að verða mamma. Eignaðist augasteininn þinn hana Sunnevu og ég var viðstödd enda kom ekkert annað til greina. Við vorum vinkonur.

Við eignuðumst fjölskyldur. Árin liðu og við þroskuðumst og það sama má segja um vináttu okkar. Hún varð dýpri, traustari og umburðarlyndari með árunum. Við vorum vinkonur.

Við lékum saman, við sungum saman, við glöddumst saman, við syrgðum saman, við reiddumst saman, við fyrirgáfum saman, við gengum saman, við ferðuðumst saman, við elduðum saman, við borðuðum saman, við dönsuðum saman, við hlógum saman, við grétum saman, við töluðum saman, við þögðum saman, en umfram allt stóðum við saman, alltaf, alla tíð.

Núna sit ég eftir með tár á hvarmi og djúpa sorg í hjarta en um leið fyllist ég þakklæti að hafa upplifað sanna fölskvalausa vináttu með þér. Þú varst mikil mannkostamanneskja, trygglynd, traust, hjartahlý og hreinlynd. Ég þakka þér samfylgdina í lífinu. Það voru forréttindi að vera vinkona þín.

Fyrir margt löngu gáfum við hvor annarri loforð – að passa upp á hvor aðra þar til yfir lyki. En yfir lyki átti bara ekki að koma svona fljótt. Eins og stundum áður í lífinu ferðu á undan mér, í þetta skiptið yfir á annað tilverustig. Þegar minn tími kemur fylgi ég í kjölfarið. Það kemur ekkert annað til greina. Við erum vinkonur.

Sjáumst aftur, Ásta mín.

Vinkona mín

sem brosir

stór og falleg

hjá sólinni í apríl

Þú ert sú sem horfir

í fegurðarátt

meðan hlýjan læðist

í augu þín og hár

Vinkona mín á himninum

á morgun springur sólin í maí út

og gægist um endalaust hnappagatið á blússunni þinni.

Vinkona mín

(Steinunn Sigurðardóttir)

Sunnevu, systkinum Ástu og fjölskyldum þeirra sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Hanna Rósa.

Í dag kveðjum við kæran vinnufélaga til margra ára. Ásta hóf störf í leikskólanum Iðavelli árið 1992 og starfaði með okkur til ársins 2017 þegar veikindi hennar ágerðust. Við erum því mörg sem nutum þeirrar gæfu að kynnast

Ástu sem samstarfsfélaga og börnin sem hún sinnti á starfsævi sinni eru enn fleiri. Starfsmannahópurinn á Iðavelli og gamlir vinnufélagar minnast Ástu með hlýju og votta dóttur hennar og öðrum aðstandendum samúð.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Anna Lilja Sævarsdóttir,

leikskólastjóri Iðavallar.