Svana Helen Björnsdóttir
Svana Helen Björnsdóttir
Persónuupplýsingar sem við skiljum eftir í gömlum tækjum verða þar áfram nema þeim sé eytt með tryggum hætti.

Með örum tæknibreytingum síðustu ára hefur fjöldi nýrra raftækja á markaði margfaldast. Snjalltæki, fartölvur, spjaldtölvur og nettengd heimilistæki hafa síðastliðin ár fyllt jólapakkana. Nú virðist þó sem markaðir séu víða að mettast. Árið 2018 er fyrsta árið sem sala á snjallsímum var minni en árið á undan. Fram að því hafði aukningin verið í tveggja stafa tölu í nokkur ár.

Pistlahöfundur hefur, eins og aðrir, endurnýjað tölvu sína og síma þegar við á. En hvað með allar upplýsingarnar í gömlu tækjunum? Þær hverfa ekki – og það sem verra er, nú er gamla tækið hætt að fá uppfærslur frá framleiðanda, annaðhvort vegna aldurs eða vegna notkunarleysis. Því er auðveldara að ná upplýsingum úr þeim tækjum en ella hefði verið. Það eru þó ekki aðeins tölvur heldur einnig USB-minniskubbar og utanáliggjandi harðir diskar sem geymt geta viðkvæm gögn – og við leggjum til hliðar án þess að hugleiða hvaða gögn þar eru geymd.

Sumir taka sér tíma til að eyða gögnum af gömlum tækjum. Ekki átta sig þó allir á að trygg eyðing fæst einungis með því að yfirskrifa gögnin, helst oftar en einu sinni. Best er að gera það með sérstökum þar til gerðum hugbúnaði. Þeir eru sennilega fleiri sem láta tækin frá sér án þess að huga að eyðingu gagnanna, e.t.v. í vortiltekt nokkrum árum síðar þegar gögnin eru gleymd.

Hvað leynist í notuðum tækjum?

Bandaríski öryggisráðgjafinn Josh Frantz ákvað á síðasta ári að athuga hversu mikið af gögnum leyndist í gömlum tækjum sem voru til sölu. Fyrir 600 dollara, eða um 74 þ.kr., keypti hann 41 fartölvu, 27 minniskort og USB-minniskubba, 11 harða diska og sex snjallsíma. Hann hófst síðan handa við að leita á tölvunum og tækjunum, m.a. með heimagerðu forriti. Af þeim 85 tækjum sem Frantz keypti voru aðeins tvö sem innihéldu engar upplýsingar frá fyrri eiganda. Aðeins þrjú tæki geymdu dulkóðuð gögn, hin tækin voru öll án dulkóðunar.

Með eigin forriti fór Frantz í gegnum gögnin sem tækin höfðu að geyma. Þannig fann hann persónuupplýsingar af ýmsu tagi sem nánar má lesa um í heimildum sem fylgja þessari grein.

Hvernig á maður að losa sig við gömul tæki?

Flestir snjallsímar bjóða upp á eyðingu gagna. Þann valmöguleika má auðveldlega finna í stillingum símans.

Þegar kemur að tölvum má auðveldlega finna leiðarvísa á netinu. Hið sama á við um geymslumiðla eins og harða diska og USB-minniskubba. Best er að þú, sem notandi tækis, sjáir sjálfur um að eyða gögnum af gömlu tæki áður en þú lætur það frá þér, fremur en að treysta á að sá næsti sem fær tækið í hendur sé samviskusamur og geri það fyrir þig. Einnig má nýta sér þjónustu fyrirtækja, t.d. Gagnaeyðingar, sem sérhæfa sig í öruggri gagnaeyðingu ef ekki er ætlunin að selja tækin eða gefa.

Persónuupplýsingar sem við skiljum eftir í gömlum tækjum verða þar áfram nema þeim sé eytt með tryggum hætti.

Heimildir

https://blog.rapid7.com/2019/03/19/buy-one-device-get-data-free-private-information-remains-on-donated-devices/

https://www.strategyanalytics.com/strategy-analytics/blogs/devices/smartphones/smart-phones/2019/01/31/global-smartphone-shipments-declined-on-a-full-year-basis-for-first-time-ever-in-2018

https://www.counterpointresearch.com/global-smartphone-market-declines-first-time-cy-2018/

Höfundur er verkfræðingur og framkvæmdastjóri Stika ehf. svana@stiki.eu