Auðun Freyr Ingvarsson
Auðun Freyr Ingvarsson
Eftir Auðun Frey Ingvarsson: "Með ákvörðun minni vildi ég stuðla að sátt um þetta mikilvæga félag og gefa nýrri stjórn svigrúm til að takast á við þær áskoranir sem blöstu við."

Í kjölfar einhliða skrifa sem Morgunblaðið birti mánudag 4. mars sl. finn ég mig knúinn til að rita nokkur orð. Þar virðist vitnað í fyrrverandi starfsmann Félagsbústaða sem í skjóli nafnleyndar setur fram alvarlegar athugasemdir um mig og mín störf sem framkvæmdastjóra Félagsbústaða.

Hvert er tilefni birtingar skrifa af þessu tagi og hver er fréttin?

Á rótgrónum vinnustað, þar sem hlutirnir hafa verið framkvæmdir með svipuðu sniði í áratugi, getur eðlilega skapast óöryggi meðal starfsfólks þegar breytingar standa fyrir dyrum. Slíkar aðstæður sköpuðust á árunum 2016-2018 hjá Félagsbústöðum þegar tekist var á um skipulag framkvæmdadeildar félagsins.

Komið höfðu upp atvik sem bentu til þess að skilgreina þyrfti betur ábyrgð og verklag í verkefnum deildarinnar og beita þyrfti á markvissari hátt verkefnastjórnun við úrlausn þeirra. Einnig þyrfti að bjóða út með skipulögðum hætti og gera rammasamninga um verkefni deildarinnar, þó það kynni að reynast flókið í útfærslu og framkvæmd. Það var í skýrum samhljómi við stefnu stjórnar fyrirtækisins. Um þetta ríkti engu að síður ágreiningur og andstaða meðal starfsmanna deildarinnar sem smitaði út frá sér og hafði áhrif á starfsanda í fyrirtækinu í heild.

Þegar ekki næst með samtölum og samvinnu að vinna úr ágreiningi er varðar atriði þar sem stefna er skýr kann nauðlendingin að vera sú að leiðir skilji. Það varð raunin í þessu tilviki því á fyrri hluta ársins 2018 hættu eða var sagt upp stórum hluta starfsfólks framkvæmdadeildar Félagsbústaða. Það var, úr því sem komið var, talið eina færa leiðin til að ná fram nauðsynlegum breytingum á verklagi og vinnustaðamenningu sem þar ríkti. Eðli málsins samkvæmt gengu ekki allir sáttir frá borði. Var í samráði við starfsfólk leitað til ráðgjafa til þess að vinna að góðum starfsanda innan fyrirtækisins og frekari þróun á skipulagi.

Síðastliðið haust ákvað ég að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Félagsbústaða. Sú ákvörðun tengdist ekki ofangreindum starfsmannamálum enda voru þær aðgerðir sem gripið var til á fyrri hluta ársins 2018 farnar að skila tilætluðum árangri. Með ákvörðun minni vildi ég hins vegar stuðla að sátt um þetta mikilvæga félag og gefa nýrri stjórn svigrúm til að takast á við þær áskoranir sem blöstu við.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri Félagsbústaða.