Reykjanesbær Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs á síðasta ári var jákvæð um 2,6 milljarða króna. Íbúum Reykjanesbæjar fjölgaði um tæp 7% í fyrra.
Reykjanesbær Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs á síðasta ári var jákvæð um 2,6 milljarða króna. Íbúum Reykjanesbæjar fjölgaði um tæp 7% í fyrra. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs Reykjanesbæjar fyrir árið 2018 er sú besta í 25 ár. Skuldaviðmið er komið vel undir lögboðið 150% viðmið og er nú 137%.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs Reykjanesbæjar fyrir árið 2018 er sú besta í 25 ár. Skuldaviðmið er komið vel undir lögboðið 150% viðmið og er nú 137%. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er jákvæð um 2.677 milljónir króna.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að mikil fjölgun íbúa í bæjarfélaginu á undanförnum árum væri stærsta skýringin á bættum fjárhag bæjarins.

„Hjá okkur hefur orðið gríðarleg tekjuaukning vegna mikillar fólksfjölgunar, sem undanfarin fjögur ár hefur verið fordæmalaus, á milli 6 og 8% á ári,“ sagði Kjartan Már.

Íbúafjöldi Reykjanesbæjar í lok árs 2018 var 18.930 og fjölgaði um 6,38% frá fyrra ári.

Kjartan segir að vitanlega hafi þessi mikla fólksfjölgun í bæjarfélaginu haft í för með sér fullt af áskorunum fyrir bæjarfélagið.

„Gjaldamegin var það þannig að við höfðum talsvert svigrúm. Við rekum sex grunnskóla og tíu leikskóla og það var pláss í mörgum af þessum stofnunum – það var viss slaki í kerfinu, þannig að við gátum tekið við nýjum íbúum, ekki síst börnum, án þess að þurfa að leggja út í miklar fjárfestingar í upphafi,“ sagði Kjartan Már.

Hann segir að vissulega sé bæjarfélagið enn í skuldaklafa og undir eftirlitsnefnd fjármála sveitarfélaga, þannig að bæjarfélagið hafi þurft að fylgja mjög stífum ferlum hvað varðar ráðstöfun fjármagns og geri enn. „Við bara tókum í handbremsuna og höfum áfram haldið í hana. Þess vegna höfum við náð að nýta þennan tekjuauka án þess að ráðstafa honum öllum jafnóðum.“

Spurður um horfurnar, ekki síst með tilliti til hruns Wow air, sagði Kjartan:

„Ég held að horfurnar séu áfram mjög góðar. Auðvitað eru einhverjar blikur á lofti til skamms tíma í tengslum við gjaldþrot Wow og samdrátt í flugi til landsins, vegna þess að flugvöllurinn er okkar langmikilvægasti vinnustaður. En ef við horfum til lengri framtíðar, þá er ekkert sem bendir til annars en að flugumferð muni áfram aukast og farþegum til og frá og um Keflavíkurflugvöll muni fjölga. Allar spár gera ráð fyrir því. Við erum því bjartsýn og byggjum okkar sýn á áframhaldandi vexti í þjónustu okkar við alþjóðlega flugvöllinn, þó vissulega viljum við alltaf leita leiða til þess að dreifa eggjunum í fleiri körfur hvað atvinnuuppbyggingu varðar.“