Hannah Murra, sem fer með hlutverk Leslie Van Houten, lék Gilly í Game of Thrones. Gagnrýnendur lofa frammistöðu hennar í hástert.
Hannah Murra, sem fer með hlutverk Leslie Van Houten, lék Gilly í Game of Thrones. Gagnrýnendur lofa frammistöðu hennar í hástert.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjöldamorð Manson-fjölskyldunnar svokölluðu, undir stjórn Charles Manson árið 1969, hafa verið umfjöllunarefni í ótal kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og skáldsögum.

Fjöldamorð Manson-fjölskyldunnar svokölluðu, undir stjórn Charles Manson árið 1969, hafa verið umfjöllunarefni í ótal kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og skáldsögum. Hvað getur þá verið nýtt í kvikmynd sem fer í almennar sýningar vestanhafs um helgina, Charlie Says. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og ótrúlegt en satt þá skoðar kanadíski leikstjórinn, Mary Harron, þar þátt sem lítt hefur verið fjallað um; líf þeirra kvenna sem Manson heilaþvoði og frömdu kaldrifjuð morð undir hans skipan, það er að segja eftir morðin.

Harron leikstýrði og skrifaði handrit American Psycho ásamt Guinevere Turner og vinna þær einnig saman að Charlie Says. Þær stöllur hafa djúpan skilning á efninu að sögn gagnrýnenda New York Times en Turner ólst upp í sértrúarsöfnuði. Móðir hennar flúði ung að heiman, ófrísk og endaði í söfnuði þar sem leiðtoginn heilaþvoði ungar konur og stýrði þeim, þótt ekki hafi morð verið framin.

Gagnrýnandi NYT segir myndina sýna hvernig Manson-stúlkurnar voru á vissan hátt fórnarlömb sjálfar, eignir Manson og undirsátur, þar sem Manson braut þær markvisst undir sitt vald. Handrit Turner byggist svo á afar merkilegri og sannsögulegri bók sem kom út árið 2001 og er eftir kanadíska rithöfundinn, femínistann og mannréttindafrömuðinn Karlene Faith; The Long Prison Journey of Leslie Van Houten: Life Beyond the Cult.

Faith var kennari að mennt og kenndi í fangelsinu sem Manson-stúlkurnar dvöldu í og hitti þær þar. Þegar hún hitti þær fyrst voru þær enn andlega undir valdi Manson en í gegnum samtöl við Faith fór sjálfstæð hugsun að láta á sér kræla, hún náði að brjóta niður varnir þeirra og lét þær spyrja sig spurninga sem þær höfðu ekki gert í áraraðir; Hvað finnst ykkur sjálfum? Í myndinni er fylgst með hvernig einstaklingsvitund kvennanna og samviska þeirra verður smám saman sterkari en máttur Manson yfir þeim og mennska þeirra kemur í ljós.

Í myndinni er fókuserað á þrjár kvennanna og er saga Leslie, eða Lulu, þar í forgrunni. Karakterinn er byggður á Leslie Van Houten, sem var 19 ára þegar hún ásamt Charles Manson myrti bandarísk hjón. Auk hennar eru Susan Atkins, eða Sadie og Patricia Krenwinkel, eða Katie fyrirmyndir aðalpersónanna. Myndin sýnir hvernig það er auðveldara að stimpla einhvern sem fætt skrímsli en að meðtaka að venjulegar manneskjur geti orðið að skrímslum.