Spennan mun nálgast suðumark þegar líður á daginn hjá stuðningsmönnum Hauka og ÍBV. Liðin mætast í oddaleik um hvort þeirra spilar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik. Vonandi verður leikurinn góð auglýsing fyrir íþróttina.
Spennan mun nálgast suðumark þegar líður á daginn hjá stuðningsmönnum Hauka og ÍBV. Liðin mætast í oddaleik um hvort þeirra spilar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik. Vonandi verður leikurinn góð auglýsing fyrir íþróttina.

Eins og úrslitakeppnin er iðulega mikil skemmtun þá dregur að mér finnst aðeins of oft fyrir sólu þegar hasarinn er hvað mestur. Hasarinn er síst minni utan vallar þegar upp koma deilumál eða atvik í leikjum. Þessi stórskemmtilega íþrótt er örugglega farin að líða aðeins fyrir þetta hérlendis. Það hlýtur að vera erfiðara að laða fólk að íþróttinni þegar allt verður brjálað nánast á hverju ári.

Ég ræddi við fyrrverandi íþróttablaðamann um daginn og við vorum sammála um að visst agaleysi birtist manni stundum í leikjum í handboltanum hér heima. Stundum eru þjálfararnir verstir. Mennirnir sem krefjast iðulega aga af sínum leikmönnum en láta sjálfir öllum illum látum á hliðarlínunni. Hver er til dæmis tilgangurinn með því að eyða heilu og hálfu leikjunum í að tala við fólk á ritaraborðinu? Er ekki dýrmætum tíma launaðs þjálfara betur varið í eitthvað annað í miðjum leik?

Eftir höfðinu dansa limirnir og leikmenn eru farnir að taka upp á því að liggja á vellinum í tíma og ótíma eins og suðurevrópskir knattspyrnumenn. Það þykir mér ekki sjarmerandi hjá handboltamönnum. Ætli Alfreð Gíslason hafi einhvern tíma verið lengur en 2 sekúndur í gólfinu í einu?

Hjá Haukum og ÍBV eru margir virkilega góðir leikmenn. Síðasti leikur var mjög skemmtilegur og laus við leiðinlegar uppákomur. Vonandi verður það raunin í dag.