[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um daginn fór ég með þjóðfræðinema á fund um menningararf í Evrópu á dögum fjölmenningarinnar.

Um daginn fór ég með þjóðfræðinema á fund um menningararf í Evrópu á dögum fjölmenningarinnar. Fundurinn var haldinn í Santiago de Compostela í Galisíu á Spáni og þar komu saman fulltrúar ferðamannastaða sem byggja á menningararfi, auk fræðinga og stúdenta í skyldum fræðum frá fimm löndum. Allt fór vel fram og engin nefndu þriðja orkupakkann. Einn af hápunktum fundarins var heimsókn í borgina Pontevedra sem er orðin heimsfræg fyrir að banna alla óþarfa bílaumferð í miðbænum, íbúum og ferðamönnum til gleði.

Stúdentarnir frá Hollandi voru áberandi frambærilegir fyrir það hvað þeim veittist létt að taka þátt í umræðum og skýra hugmyndir sínar á enska málinu. Aðspurð sögðu þau að sitt menningartengda háskólanám færi allt fram á ensku: fyrirlestrar, próf og ritgerðir. Hollenskukunnáttu þeirra hefði því hrakað og þau gætu ekki talað um fræði sín á því máli; bara skrafað um slúður og hversdagslegt grín við félaga og fjölskyldu. Áhugi á hollensku færi almennt þverrandi og til marks um það hefði hollenskudeildinni í háskólanum þeirra, Vrije Universiteit Amsterdam (sem er einn af hundrað bestu háskólum heims og á í ýmsu samstarfi við HÍ), verið lokað nú í vetur. Aðeins fimm stúdentar hefðu skráð sig til náms, aðsókn hefði minnkað jafnt og þétt og skólayfirvöld bentu nú þeim sem hefðu áhuga á þessu fagi – sem væri ennþá kennt í grunn- og framhaldsskólum og því þyrfti kennara til starfa á þeim skólastigum – að þau gætu farið í aðra háskóla í Hollandi.

Eins og vænta mátti gaus upp umræða í Hollandi, þverpólitískir kjörnir fulltrúar og álitsgjafar töldu þetta óheillaþróun og kölluðu eftir aðgerðum; sum kenndu um reiknilíkaninu við fjármögnun háskóla og önnur sögðu enga ástæðu til að örvænta. Utanfrá blasir við að áhugaleysi stúdenta er erfitt viðfangs. Fólk verður ekki þvingað til að læra það sem það hefur engan áhuga á. En stjórnvöld, fjölmiðlar og álitsgjafar stýra fjármunum og umræðunni og hafa þannig áhrif á launastefnu, áhugasvið ungmenna, gildismat – og málnotkun.

Hér á landi heyrast nú raddir um að kjörin yfirvöld eigi í samráði við „atvinnulífið“ að ákveða hvers konar menntun samfélagið þurfi á að halda – og síðan eigi að beina stúdentum á þær ákveðnu brautir en þrengja að og loka hinum (lesist: greinum sem þjálfa sjálfstætt hugsandi og gagnrýna borgara). Með slíkri stefnu gæti „þörfin“ fyrir íslenskunám miðast við kennarastörf í skólakerfinu; líkt og þegar ég var að hefja nám í háskóla og þau sem töldu sig þekkja best til þarfa atvinnulífsins á þeim löngu liðnu tímum ráðlögðu öllum frá því að fara í líffræði, enda væru nú ungir kennarar í öllum líffræðikennarastöðum í landinu og því ekki þörf á fleiri líffræðingum í bráð. Það dæmi ætti að nægja til að beina ráðamönnum frá þeirri óheillahugmynd að beita ríkisvaldinu við að þrengja námsleiðir ungs fólks.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is