Grandatorg Hugmynd arkitekta að Alliance-húsinu og nýjum byggingum á reitnum. Þar verða íbúðir og þjónusta.
Grandatorg Hugmynd arkitekta að Alliance-húsinu og nýjum byggingum á reitnum. Þar verða íbúðir og þjónusta. — Mynd/THG arkitektar og Argos arkitektar
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt að gefa Alliance þróunarfélagi frest til september n.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt að gefa Alliance þróunarfélagi frest til september n.k til þess að ganga frá leigusamningi við hótelrekstraraðila og fjármögnun verkefnis við Grandagarð 2, á Alliance-reitnum, og að gengið verði frá kaupsamningi í þeim mánuði.

Í október 2018 samþykkti borgarráð að heimila skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að ganga til viðræðna við Alliance þróunarfélag um sölu á fasteigninni Grandagarði 2 og tengdum byggingarrétti á grundvelli innsendrar tillögu í sölusamkeppni sem borgin hélst síðastliðið sumar. Kaupverðið var 900 milljónir króna.

Brynjólfur J. Baldursson, fyrir hönd Eldborg Capital, og Örn Kjartansson, fyrir hönd M3 Capital, sendu borginni minnisblað í byrjun apríl s.l. Samkvæmt því var gert ráð fyrir því að ljúka söluferlinu í apríl.

„Í millitíðinni fór flugfélagið WOW air í gjaldþrot og hafa fjárfestingar til ferðaþjónustuverkefna dregist verulega saman vegna óvissu. Hæstbjóðendur í húseignina Grandagarður 2 hyggjast byggja þar upp hótel og hafði þetta því veruleg áhrif á ferlið. Alliance þróunarfélag hefur lagt fram viljayfirlýsingu alþjóðlegrar hótelkeðju sem er ekki í dag með starfsemi á Íslandi sem er nú að skoða aðkomu sína að verkefninu sem eykur líkur á því að af verkefninu verði,“ segir í minnisblaðinu.

Nafn hótelkeðjunnar er ekki nefnt í minnisblaðinu. Hins vegar kemur fram að um sé að ræða þýska hótelkeðju sem rekur 30 hótel í 8 löndum. Keðjan hafi hug á því að gera langtímaleigusamning við Alliance þróunarfélag. Starfsmenn hennar hyggist eyða næstu 6 –8 vikum í nákvæma greiningu á rekstri hótels á reitnum. Verði niðurstaðan jákvæð sé ætlunin að undirrita leigusamning. „Eftir að við fáum staðfestingu leigusamnings verður síðan unnið með lánastofnunum um heildarlánsfjármögnun á verkefnið,“ segir í minnisblaðinu.

Í fyrrahaust var tilkynnt að viljayfirlýsing lægi fyrir við dönsku hótelkeðjuna Guldsmeden um að reka hótel á reitnum.

Á Alliance-reitnum er einnig gert ráð fyrir íbúðum, veitingastöðum og verslunum.