— Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þó kominn sé 11. maí er vetur enn ekki úti. Í gær snjóaði víða á Norður- og Austurlandi. Því olli hæð yfir Grænlandi sem dregur kalt heimskautaloft úr norðri fyrirstöðulítið að Íslandsströndum.

Þó kominn sé 11. maí er vetur enn ekki úti. Í gær snjóaði víða á Norður- og Austurlandi. Því olli hæð yfir Grænlandi sem dregur kalt heimskautaloft úr norðri fyrirstöðulítið að Íslandsströndum. Yfir helgina má búast við að eitthvað snjói nyrðra yfir nóttina, það er upp til fjalla og í einhverjum mæli niðri á láglendi. Segja má að náttúran ruglist aðeins í ríminu í svona vorhreti, því víða hafa mótfuglar verpt og hætta er á að þeir leggi á flótta verði veður vont um lengri tíma.

Tjaldur sem sást á vappi á Siglufirði sat þó sem fastast á eggjum sínum og lét sér ekki bregða í glímunni við kuldabola. Ástand þetta varir þó ekki lengi því strax á mánudag verða suðlægar áttir ríkjandi á landinu og verður hlýtt loft, að sögn veðurfræðings, fljótt að berast norður yfir landið. Hitinn þar verður þá um tíu gráður og enn meiri þegar líða fer á næstu viku, gangi spár eftir. – Á sunnanverðu landinu verður sól og blíða í dag, laugardag, en rigning á sunnudag og mánudag. sbs@mbl.is