Endurkoma HK-ingar féllust í faðma í Víkinni í gær eftir að hafa tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni, þrátt fyrir að lenda 2:0 undir í einvígi sínu við Víkinga.
Endurkoma HK-ingar féllust í faðma í Víkinni í gær eftir að hafa tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni, þrátt fyrir að lenda 2:0 undir í einvígi sínu við Víkinga. — Morgunblaðið/Kristinn Magnúss
Eftir fjögur tímabil í 1. deild mun karlalið HK leika í úrvalsdeildinni í handbolta á nýjan leik á næstu leiktíð. Þetta varð ljóst eftir fimm marka sigur HK-inga á Víkingum, 32:27, í oddaleik liðanna í umspilinu í 1. deild.

Eftir fjögur tímabil í 1. deild mun karlalið HK leika í úrvalsdeildinni í handbolta á nýjan leik á næstu leiktíð. Þetta varð ljóst eftir fimm marka sigur HK-inga á Víkingum, 32:27, í oddaleik liðanna í umspilinu í 1. deild. Víkingur vann fyrstu tvo leikina í umspilinu en HK tókst svo að vinna þrjá leiki í röð og þar með einvígið 3:2. HK hafði áður slegið út Þrótt í umspilinu, eftir að hafa endað naumlega fyrir neðan Víking og Þrótt í 1. deildinni í vetur.

HK-ingar fylgja Fjölnismönnum upp en liðin koma í stað Gróttu og Akureyrar, eða Þórs eins og síðastnefnda liðið heitir núna.

Í oddaleiknum í Víkinni í gær var HK með fjögurra marka forystu eftir fyrri hálfleik, 15:11. Bjarki Finnbogason var langmarkahæstur en hann skoraði 12 mörk. Bjarki var einmitt markahæstur HK-inga í deildinni í vetur. Blær Hinriksson, sem einnig hefur verið atkvæðamikill í vetur og ekki síst í úrslitakeppninni, var næstmarkahæstur með 5 mörk, og þeir Pálmi Fannar Sigurðsson og Jón Heiðar Gunnarsson, sem tók fram skóna fyrir umspilið, skoruðu 4 mörk hvor.

Hjá Víkingum var Arnar Gauti Grettisson markahæstur með 7 mörk og Hjalti Már Hjaltason kom næstur með 6. Víkingar féllu úr úrvalsdeildinni í fyrra. sindris@mbl.is