Esjuskálinn Fríða Birna Þráinsdóttir tekur á móti gestum á Kjalarnesi með bros á vör.
Esjuskálinn Fríða Birna Þráinsdóttir tekur á móti gestum á Kjalarnesi með bros á vör. — Morgunblaðið/RAX
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Hjónin Fríða Birna Þráinsdóttir og Guðmundur Á.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hjónin Fríða Birna Þráinsdóttir og Guðmundur Á. Guðlaugsson tóku við rekstri Esjuskálans í Grundarhverfi á Kjalarnesi fyrir skömmu með það að leiðarljósi að þjónusta Kjalnesinga, Kjósverja og aðra vegfarendur sem best. „Við byrjuðum til dæmis að bjóða upp á heita kjötsúpu allan daginn og nú þegar erum við með fasta viðskiptavini sem koma í súpu í hádeginu og fá sér svo smurt brauð hjá okkur síðdegis,“ segir Fríða.

Heimafólk fyrir íbúana

Olís hóf rekstur eldsneytisstöðvarinnar og söluskálans 2006. Vegna kaupa Haga á Olís á liðnu ári var félaginu gert að selja nokkrar sjálfsafgreiðslustöðvar fyrir eldsneyti. Atlantsolía keypti stöðina og söluskálann á Kjalarnesi og í byrjun apríl síðastliðins gerðu hjónin samning til fimm ára um að reka skálann. Þau stofnuðu og eiga fyrirtækið Esjugrund og opnuðu verslun í verslunarmiðstöðinni Hólagarði í Breiðholti fyrir um ári.

„Við tókum allt í gegn áður en við opnuðum verslunina í Hólagarði og höfðum sama hátt á hér,“ segir Fríða. Hún segir að þjónustulundin hafi haft mest að segja um að fara út í reksturinn í Grundarhverfi, þar sem þau hafa búið í 25 ár. „Við hlustum á það sem íbúarnir vilja og framkvæmum óskirnar jafnt og þétt með auknu vöruúrvali,“ segir hún.

Fyrir tíma Olís á staðnum var þar söluturn og veitingastaðurinn Staupasteinn í sumarbústað við hliðina. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fara út í svipaðan rekstur en Fríða segir að þau hafi áhuga á því að bjóða upp á grillaðan mat. „Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum og reynum að bregðast við þeim eins vel og við getum. Áður en grillið verður að veruleika þarf ýmis leyfi ásamt töluverðum breytingum og því getur það tekið tíma.“

Skálinn er opinn frá klukkan átta á morgnana til átta á kvöldin, en til kl. tíu á föstudags- og laugardagskvöldum. Á laugardögum og sunnudögum hefjast viðskiptin klukkan níu. „Við erum sveigjanleg í þessu sem öðru og ef við finnum fyrir áhuga og þörf á því að hafa opið lengur gerum við það.“

Esjuskálinn er eina verslunin í hverfinu og þar má fá sitt lítið af hverju. Brauð og bakkelsi forbakað hjá Myllunni er bakað alla morgna, boðið er upp á mjólkurvörur og nýlenduvörur, heitar pylsur og gosdrykki, þurrkublöð, olíur og fleira fyrir bíla, leikföng og blómvendi.

Hjónin eru með sex starfsmenn og þar á meðal eru dætur þeirra, Regína 13 ára og Rósmarý 19 ára, en hún lýkur stúdentsprófi í vor og verður verslunarstjóri í sumar áður en hún byrjar í kennaranámi. „Það er svo gaman að láta krakkana vera með því þeir gera öðruvísi hluti og hafa aðrar hugmyndir en þeir sem eldri eru,“ segir Fríða.