Jens Meinhard Berg var frá Funningsbotni á Austurey í Færeyjum, f. 1. október 1925. Hann lést í Brákarhlíð 30. apríl 2019.

Móðir: Marin Kristianna Berg, f. Gaard, frá Oyndarfirði á Austurey, f. 1898, d. 1986. Faðir: Johannis Berg, útvegsbóndi frá Elduvík á Austurey, f. 1899, d. 1990. Meinhard var næstelstur barna þeirra en hin eru: Helga Kristina, f. 1923, búsett á Englandi; Johanna Sofie, f. 1928, búsett í Þórshöfn; Ragnhild, f. 1930, búsett í Þórshöfn; Edit Sedia, f. 1932, búsett í Þórshöfn og Danmörku; Martin, dó eins árs.

Eiginkona Meinhards var Sigríður Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, f. 1923, d. 2015. Foreldrar: Þorsteinn Einarsson frá Skáney í Reykholtsdal, f. 1892, d. 1984, og Jónína Agata Árnadóttir frá Flóðatanga í Stafholtstungum, f. 1891, d. 1934. Börn Sigríðar og Meinhards: 1)Þorsteinn Jens Berg, f. 16.2. 1960, d. 15.3. 1963. 2) Jónína Kristín Berg, f. 3.9. 1962, búsett í Borgarnesi. Börn: a) Jón Bjarnason, f. 1982, eiginkona Pálína Fanney Guðmundsdóttir, f. 1986, búsett í Neskaupstað. Börn: Kristjana Salný, f. 2013, Helgi Fannberg, f. 2015, Bjarni Freyr, f. 2018. b) Sigurbjörg Ösp Rúnarsdóttir Berg, f. 1996, búsett í Svíþjóð. Dóttir: Freyja Ahsoka Robinsdóttir, f. 2013. 3) Jóhannes Berg, f. 5.11. 1964, eiginkona Sólveig Jónasdóttir, f. 21.3. 1962, búsett í Mosfellsbæ. Dóttir: Svanhildur Helga Berg, f. 2000, unnusti Gunnar Már Vilhjálmsson, f. 2000, búsett á Húsavík. Dóttir: Camilla Von Gunnarsdóttir Berg, f. 2016.

Meinhard ólst upp við sjósókn og búskap. Hann gekk í barnaskóla í Elduvík en fór ungur á vertíðir og var þá kokkur og háseti í róðrum á Íslandsmiðum. Til Íslands kom Meinhard 1944, þá fyrst til starfa í Laugabæ í Bæjarsveit og svo víðar þar í sveit. Hann var við nám í Bændaskólanum á Hvanneyri og útskrifaðist sem búfræðingur 1954. Árið 1957 giftust þau Meinhard og Sigríður, hófu búskap í Giljahlíð í Flókadal þar sem þau bjuggu í tvö ár en fluttust þá til Færeyja í eitt ár og bjuggu í Funningsfirði og síðan í Havnadali í nágrenni Þórshafnar. Frá Færeyjum fluttust þau til Íslands, að Giljahlíð í Borgarfirði, þar sem Sigríður gerðist bústýra hjá Jóni bróður sínum. Meinhard stundaði vinnu annars staðar við ýmis störf, þó aðallega við landbúnað og byggingarvinnu í héraðinu. Meinhard var einn af stofnfélögum Björgunarsveitarinnar Oks en eftir að þau hjónin settust að í Borgarnesi 1996 gafst meiri tími til félagsstarfa í félögum eldri borgara í Borgarfirði og Borgarnesi og í Kiwanis. Einnig vannst meiri tími til ferðalaga, handverks, og síðast en ekki síst íþrótta en hann var einkar leikinn í boccia og pútti og síðustu gullmedalíunnar vann hann til orðinn níræður. Meinhard var fjölfróður, minnugur á ættir, fólk og sögu í Færeyjum og á Íslandi.

Síðustu þrjú árin dvaldi Meinhard á dvalarheimilinu Brákarhlíð.

Útförin fer fram frá Reykholtskirkju í dag, 11. maí 2019, klukkan 14.

Meinhard Berg var nágranni okkar á Hæli í Flókadal í mörg ár, allt til haustsins 1991, þegar veru okkar þar lauk. Hann var ekki aðeins nágranni heldur líka hjálparhella, tók við fjósverkum föður okkar, þegar hann þurfti að sinna störfum utan heimilis eða dvelja á sjúkrastofnun.

Eftir lát föður okkar var Meinhard fastur vetrarmaður á Hæli frá hausti 1985 til vors 1991 og gerði þannig móður okkar og móðurbróður fært að halda áfram búskap.

Fyrst og fremst sinnti hann kúahirðingu og mjöltum en greip í önnur verk, þegar þurfti, yfirleitt óumbeðinn.

Á síðustu árunum var fátt í heimili á Hæli og lítið um gestakomur. Því skipti móður okkar miklu máli félagsskapur við Meinhard. Það var mikilvægt fyrir hana að geta spjallað við hann, lundgóðan og umtalsfróman, sem brá sér oft af bæ milli mála og kom aftur með fréttir af því, sem gerðist í sveitinni. Það braut upp einhæft líf bóndakonu, sem ekki fór oft af bæ.

Samfundum við Meinhard fækkaði með árunum, en alltaf fagnaði hann móður okkar og okkur systkinunum með sömu ljúfmennskunni og áður.

Að leiðarlokum þökkum við Meinhard sérstakan hlýhug í garð móður okkar og við sjálf fyrir afburðagóð kynni og erum þess viss að hann hefur átt góða heimvon.

Björk, Ásgeir, Ingunn

og Helga Ingimundarbörn frá Hæli.