Þrír efstu á Íslandsmótinu í skólaskák, yngri flokki. F.v. Gunnar Erik Guðmundsson sem varð í 2. sæti, sigurvegarinn Benedikt Briem og Benedikt Þórisson sem varð í 3. sæti.
Þrír efstu á Íslandsmótinu í skólaskák, yngri flokki. F.v. Gunnar Erik Guðmundsson sem varð í 2. sæti, sigurvegarinn Benedikt Briem og Benedikt Þórisson sem varð í 3. sæti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á 2. hæð Þekkingarseturs Vestmannaeyja, þar sem áður var vinnslusalur Fiskiðjunnar, hefst í dag minningarmót um Bergvin Oddsson, skipstjóra og útgerðarmann á Glófaxa VE.

Á 2. hæð Þekkingarseturs Vestmannaeyja, þar sem áður var vinnslusalur Fiskiðjunnar, hefst í dag minningarmót um Bergvin Oddsson, skipstjóra og útgerðarmann á Glófaxa VE. Það er Taflfélag Vestmannaeyja sem heldur mótið í samvinnu við fjölskyldu Bergvins, en hann var einn af sterkustu skákmönnum Eyjanna. Þegar hafa meira en 50 skákmenn skráð sig til leiks, þar af margir gamlir félagar Bergvins úr skákinni. Má þar nefna Arnar Sigurmundsson, Andra Hrólfsson, Einar B. Guðlaugsson, Sigurjón Þorkelsson, Karl Gauta Hjaltason, Þórarin Inga Ólafsson, Pál Árnason og Stefán Gíslason. Einnig teflir sonur Bergvins, Lúðvík, fyrrverandi alþingismaður.

Nokkrir stórmeistarar verða með auk greinarhöfundar; Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson og Hjörvar Steinn Grétarsson. Tefldar verða átta umferðir með tímamörkunum 15 5.

Ný tímamörk í heimsmeistaraeinvígi

Tímamörkin á mótinu í Eyjum eru í góðum takti við þá þróun sem er að eiga sér stað í skákinni á alþjóðavettvangi. Þó hefur FIDE nýlega skrúfað klukkuna aðeins til baka með tilliti til næsta heimsmeistaraeinvígis árið 2020, en þá verða 60 fyrstu leikirnir án aukatíma en síðan bætist við kortér og 30 sekúndur eftir hvern leik.

Mótaröðin, Grand Chess Tour 2019 hófst í borginni Abidjan á Fílabeinsströndinni í Afríku á miðvikudaginn. Þar fer fremstur heimsmeistarinn Magnús Carlsen. Tefldar eru níu atskákir og 18 hraðskákir.

Eftir fyrstu tvo keppnisdagana hafa verið tefldar sex umferðir atskáka og þar stefnir allt í sömu átt; Magnús Carlsen er að rúlla mönnum upp hægri vinstri, hefur unnið fjórar skákir og gert tvö jafntefli og hefur 10 stig. Nakamura kemur næstur með 8 stig og þar á eftir kemur Wei Yi frá Kína. Gefin eru tvö stig fyrir hvern sigur í atskákinni og eitt stig fyrir sigur í hraðskák.

Hægt er að fylgjast með keppninni í dag í beinni útsendingu sem hefst klukkan 14 í dag og á morgun á Chessbomb.com eða Chess24.com.

Missti þráðinn í fimmta leik

Lokaorðið í þessum pistli á Þröstur Þórhallsson, en í skák hans í lokaumferð HM öldungasveita 50 ára og eldri í keppni Íslands og Ísrael lagði hann að velli skákmann sem er þekktur fyrir mikla þekkingu á byrjunum. Sá missti þráðinn eiginlega strax eftir óvæntan fimmta leik Þrastar, en þá kom upp staða sem hann hafði alls ekki reiknað með að tefla. Með sigrinum tryggði Þröstur sér silfurverðlaun 5. borðsmanna:

HM öldungasveita, Ródos 2019; 7. umferð:

Þröstur Þórhallsson – Yehuda Gruenfeld

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. f3 e5 6. Rb3 Be6 7. c4 a5 8. Be3 a4 9. R3d2 Da5 10. Ra3

Heldur niðri peðaframrás á miðborði og drottningarvæng.

10.... Rbd7 11. Be2 Be7 12. 0-0 0-0 13. Rdb1!

Skemmtileg endurskipulagning.

13.... Hfc8 14. Dd2 Bd8 15. Rc3 Bb6 16. Hfd1 Bc5 17. Rab5 Re8 18. Bxc5 dxc5 19. f4 exf4 20. Dxf4 Dd8 21. e5!

Eftir þennan leik er svarta staðan nánast óteflandi. Riddari er á leið til e4 og biskup á f3.

21.... De7 22. Bf3 Rb6 23. Rd5!

Eftir þennan leik fær svartur ekkert við ráðið.

23.... Rxd5 24. cxd5 Bd7 25. Rc3 b5 26. d6 Df8 27. Bxa8 Hxa8 28. Rd5 h6 29. Re7+

– og Gruenfeld gafst upp, 29.... Kh8 er svarað með 30. Rg6+! og 29.... Kh7 með 30. De4+ og hrókurinn fellur.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is