Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Kveðið er á um heimild til gjaldtöku af nýtingu auðlinda í ábataskyni og um rétt almennings til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið í tveimur frumvörpum sem voru í gær birt í samráðsgátt stjórnvalda um breytingar á stjórnarskránni. Annars vegar með ákvæði um auðlindir í náttúru Íslands og hins vegar ákvæði um umhverfisvernd.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að í gær hafi verið ákveðið á fundi formanna stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi að afgreiða þessi tvö frumvörp til samráðs við almenning og að fara muni fram skoðana- og rökræðukannanir meðal almennings síðar á þessu ári.

Tekið er fram í kynningu málanna á samráðsgáttinni að birting í samráðsgátt á þessu stigi feli ekki í sér skuldbindingu af hálfu formanna flokkanna til að standa að framlagningu frumvarpanna í þessari mynd á Alþingi.

Auðlindaákvæðið í frumvarpsdrögunum er svohljóðandi:

Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun.

Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar.

Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni .“

Afrakstur af umræðum

Frumvarpið er afrakstur af umræðum í hópi formanna flokkanna á þingi og er í greinargerð sagt vera byggt á frumvarpi sem stjórnarskrárnefnd skilaði forsætisráðherra í júlí 2016. Fram kemur að orðalagi hefur verið breytt um gjaldtöku vegna nýtingarheimilda þannig að gjaldtaka miðist fyrst og fremst við nýtingu í ábataskyni. Í ítarlegri greinargerð segir m.a. að auðlindaákvæðið í heild geri ráð fyrir að auðlindir náttúru Íslands geti ýmist verið í eigu einkaaðila, ríkisins eða sveitarfélaga eða verið þjóðareign.

Í ákvæðinu um umhverfisvernd segir m.a. að ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvíli sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. „ Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður. Allir skulu njóta heilnæms umhverfis. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa.