„Ég hef mjög mikla sigurtilfinningu fyrir sænska laginu sem heitir Too late for love og er mjög fallegt gospel-lag. En með öllum fyrirvara um að Ísland sé að fara að vinna Eurovision; það gæti gerst. Þeim er spáð sjötta sætinu en ég veit ekki hvaða öldu þeir ætla að sigla,“ segir Laufey Helga Guðmundsdóttir, Eurovision-grúppía.
„Ég hef mjög mikla sigurtilfinningu fyrir sænska laginu sem heitir Too late for love og er mjög fallegt gospel-lag. En með öllum fyrirvara um að Ísland sé að fara að vinna Eurovision; það gæti gerst. Þeim er spáð sjötta sætinu en ég veit ekki hvaða öldu þeir ætla að sigla,“ segir Laufey Helga Guðmundsdóttir, Eurovision-grúppía. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eurovision er lífsstíll allt árið í kring þótt þunglyndi leggist yfir aðdáendur rétt yfir sumarmánuðina að sögn Laufeyjar Helgu Guðmundsdóttur. Hún er Eurovision-grúppía númer eitt og sefur varla í maí fyrir spenningi.

Eurovision er lífsstíll allt árið í kring þótt þunglyndi leggist yfir aðdáendur rétt yfir sumarmánuðina að sögn Laufeyjar Helgu Guðmundsdóttur. Hún er Eurovision-grúppía númer eitt og sefur varla í maí fyrir spenningi. Laufey er nú í Ísrael á sinni níundu keppni og segist fullviss um að Hatari komist á úrslitakvöldið. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Eurovision-áhuginn kom með móðurmjólkinni að sögn Laufeyjar Helgu Guðmundsdóttur sem má með sanni kalla einn dyggasta aðdáanda Eurovision hér á landi. Með útsýni yfir Austurvöll hjá meistarakokkinum Jamie Oliver setjumst við Laufey niður til þess að spjalla um ástríðuna og lífsstílinn sem fylgir Eurovision-aðdáanda. Laufey, sem er lögfræðingur hjá Alþingi, er fædd árið 1983. Það er því ekki úr vegi að byrja á að spyrja hana hvaða lag hafi unnið það árið.

„Ég hef ekki hugmynd um það, man það ekki þessa stundina. Það er mikill misskilningur að allir Eurovision-aðdáendur séu miklir sérfræðingar og miklir nördar sem geta þulið upp staðreyndir. Ég segi oft að ég sé Eurovision-grúppía frekar en Eurovision-nörd. En það er fullt af fólki í FÁSES, Félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, sem er með alls konar sérhæfingu á mismunandi sviðum,“ segir Laufey sem er ritari félagsins.

„Félagið var stofnað árið 2011 og er hluti af alþjóðlegu neti Eurovision-klúbba sem heitir OGAE og er staðsett í Frakklandi. Ég sit í stjórn þessara regnhlífarsamtaka 44 Eurovision-klúbba um allan heim, með um það bil þrettán þúsund meðlimi,“ segir hún.

Ertu búin að haga því þannig að þú fáir alltaf frí í vinnu í maí?

„Já, ég ræð mig ekki í vinnu nema ég fái frí í maí til að fara á Eurovision,“ segir hún og bætir við þegar blaðamaður hlær: „Þetta er dauðans alvara.“

Sekk dýpra og dýpra

„Ég á afmæli í maí og kannski í minningunni er afmælið mitt alltaf í kringum Eurovision,“ segir Laufey, spurð um upphafið að áhuganum.

„Hér á Íslandi horfa allir á Eurovision sem tíðkast ekki annars staðar í Evrópu. Við erum með mesta áhorf alla landa sem senda út Eurovision, um 95%. Í byrjun datt maður í þennan Eurovision-partífíling með tilheyrandi leikjum og búningum. Svo var það orðið þannig að ég var ein eftir í partíinu sem horfði á Eurovision, og þá var betra að vera bara heima með stigatöfluna og excel-skjalið fyrir framan sig,“ segir Laufey og segir þetta hafa undið upp á sig með árunum.

„Svo dettur maður í það að horfa á gamlar keppnir og lesa um söguna og þá uppgötvaði ég að það væri til heilt Eurovision-samfélag. Þá var hægt að deila áhugamálinu með fleirum og loks fór ég að mæta á aðalkeppnina. Þetta er ferli sem má yfirfæra á mjög marga,“ segir hún.

„Ég átti heima í Finnlandi þegar keppnin var haldin þar 2007 og þá kom ekkert annað til greina en að mæta á Eurovision. Það var mikil Lordi-stemning í Finnlandi; Lordi-kóla, Lordi-sokkar og hitt og þetta. Mikið fjör og mikið stuð. Svo fór ég aftur á Eurovision árið 2010 og hef svo farið á hverju ári síðan 2013. Maður sekkur bara dýpra og dýpra,“ segir hún.

Laufey er eins og fyrr segir í stjórn OGAE International og sinnir hún því hlutverki að semja við Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) um fjölda miða eða forkaupsrétta fyrir meðlimi í Eurovision-klúbbum um allan heim en auk þess semja þau um aðstæður aðdáenda í því landi sem keppnin er haldin hverju sinni. „Við skipuleggjum partí og pössum upp á að allt gangi vel. Og að gestgjafinn, sem er ríkissjónvarpið í Ísrael í ár, sé meðvitað um hvernig best sé að haga málum,“ segir hún.

„Að fara á Eurovision er það skemmtilegasta sem ég veit, ég sef ekki vegna spennu. Ég er bara svo spennt og sef varla allan maí mánuð.“

Þykist vera blaðamaður

Laufey segir misjafnt hversu margir íslenskir aðdáendur mæti á hverja keppni og fer það eftir ýmsu. „Í Stokkhólmi voru mættir um 140 manns og í Vín 2015 voru um 60 manns. Það eru fleiri Íslendingar sem mæta þegar keppnin er haldin á Norðurlöndunum,“ segir Laufey og bætir við að það fari oft eftir skipulagningu keppninnar hversu margir alþjóðlegir aðdáendur mæti.

„Núna er miðaverð í Ísrael mjög hátt og það fælir aðdáendur frá og svo er gistingin mjög dýr. Einnig eru margir sem sniðganga keppnina í ár. Við erum um tíu manns sem fara núna frá Íslandi,“ segir hún.

„Við erum með sérstaka vefsíðu, fases.is, þar sem við flytjum fréttir af Eurovision,“ segir Laufey sem hélt til Ísraels í síðustu viku, tveimur vikum fyrir keppni.

„Við fáum að fylgjast með öllum æfingum. Fyrst fáum við að fylgjast með fyrstu æfingum á skjá og svo eru blaðamannafundir eftir hverja æfingu. Þá förum við inn á blaðamannafundinn til að finna skúbb eða skemmtilegar fréttir. Þetta tekur fjóra daga og svo hefjast aðrar æfingar og þá fáum við að fara inn í höll og horfum á atriði þar á sviði. Við höfum sama aðgang og blaðamenn. Ég er að þykjast vera blaðamaður,“ segir Laufey og skellir upp úr.

„Við erum að skrifa á vefsíðuna okkar og reynum að ná viðtölum við keppendur. Svo erum við á Instagram og Facebook og sýnum oft beint. Við leyfum fólki að skyggnast bak við tjöldin og upplifa hvernig það er að vera á Eurovision.“

Þetta er bara full vinna!

„Þetta er miklu meira en full vinna. Tveimur vikum áður en æfingar hefjast sef ég svona þrjá tíma á nóttu. Ég þarf að sinna minni venjulegu vinnu og undirbúa það sem þarf fyrir Eurovision. Síðan tók ég upp á því í bríaríi að halda fyrirlestra eða kynningar um Eurovision á vinnustöðum. Fólk hefur svo mikinn áhuga á Eurovision og einhvern veginn enduðu hádegishléin þar sem ég var að vinna í velferðarráðuneytinu inni í fundarherbergi þar sem ég sýndi fólki hvað væri að gerast. Fólki fannst þetta svo skemmtilegt þannig að þegar ég hætti þar fór ég að fara á milli vinnustaða með Eurovision-kynningar, eða það sem ég kalla Júrógigg. Ég tala um hvernig okkur muni ganga, hver er hugsanlega að fara að vinna, hvaða lög lönd hafa valið í sínum undankeppnum og svo segi ég frá hvernig síðasta Eurovision var,“ segir Laufey sem hefur nóg að gera að flakka á milli stofnana og breiða út boðskapinn.

„Ég er að breiða út fagnaðarerindið og kynna Eurovision-samfélagið. Eitt árið sat einn þriðji hluti ríkisstjórnarinnar á kynningu hjá mér en ég lít svo á að ég sé að undirbúa Ísland fyrir það að vinna. Þá er gott að einhver í ríkisstjórninni viti að þetta kostar tvo milljarða og að þau séu með einhverja hugmynd um hvernig þetta gangi fyrir sig,“ segir hún og brosir.

Þetta er lífsstíll

Blaðamanni verður á orði að augljóst sé að allur maí og jafnvel hálfur apríl sé undirlagður undir Eurovision. Sú staðhæfing reyndist mjög fjarri sannleikanum.

„Það er hægt að upplifa Eurovision allt árið, þetta er lífsstíll,“ segir Laufey sem segist eiga vini sem undrast að hún sé að tala um Eurovision snemma í janúar. „Þá eru öll löndin að undirbúa lögin sín! Árið skiptist í nokkra hluta; í desember og fram í mars erum við að fylgjast með öllum undankeppnum og erum með öfluga umfjöllun á fases.is. Allt um skandala og ekki skandala. Um 10. eða 11. mars eru öll lögin tilbúin og þá hefst það sem kallast „Pre party season“ og þá eru Eurovision-hátíðir víðs vegar um heiminn þar sem keppendum er boðið að koma og syngja „live“. Þá komumst við að því hvernig keppendur standa sig í lifandi flutningi. Það eru t.d. stórar hátíðir í London, Amsterdam, Moskvu og Riga. Hatari fór til Amsterdam og Madríd. Nú er þetta búið og Eurovision-æfingar hafnar. Nú er hollenska keppandanum spáð sigri og eru því Eurovision-aðdáendur farnir að skoða hótel þar en við erum búin að finna út að keppnin yrði þá líklega haldin í Rotterdam. Hinn 19. maí, eða daginn eftir úrslit Eurovision, pöntum við því mögulega hótelherbergi í Rotterdam,“ segir Laufey.

Sumarið fer í þunglyndi

Á meðan við hin fögnum sumri tekur við að loknu Eurovision afar dapurlegt tímabil að sögn Laufeyjar. „Þá byrjar „post Eurovision depression“-tímabil, sem við köllum alltaf PED, eða peddið. Eða á íslensku: eftirsöngvakeppnisbringsmalaskottan, eða ESB. Bringsmalaskotta er gamalt orð yfir þunglyndi. Við leggjum sérstakan metnað í að íslenska öll svona Eurovision-heiti,“ segir hún.

„Peddið nær yfir svona þrjá, fjóra mánuði og þá er gott að eiga góða vini sem hugga mann. Svo skellir maður sér jafnvel á aðdáendaviðburði. Í ágúst er t.d. stór viðburður hjá finnska Eurovision-klúbbnum en þeir eru með siglingu þar sem siglt er frá Helsinki til Tallinn og aftur til baka. Á skipinu koma fram gamlar Eurovision-stjörnur og er þetta sannkölluð partíhelgi. Ég fór 2017,“ segir hún. „Svo kjósum við í keppni allra Eurovision-klúbba hvaða lag sem komst ekki í Eurovision var best. Við höldum okkur uppteknum í þessu blessaða peddi og svo keyrum við vertíðina í gang með haustinu. Þá er aðalfundur, Eurovision-barsvar (pubquiz), Eurovision-bingó og svo hittumst við á Happy hour og horfum á gamlar keppnir. Síðan byrjar undirbúningurinn aftur í desember. Fjölskyldan er farin að kalla þetta Eurovision-kirkjuna mína,“ segir hún.

Peningar innan um vændiskonur

Laufey hefur farið alls átta sinnum á Eurovision og er nú í Ísrael á níundu keppninni. Hún segir einna eftirminnilegast hafi verið í Malmö.

„Þeir eru algjörir fagmenn að halda Eurovision í Svíþjóð. Þetta var agalega skemmtileg keppni fyrir aðdáendur. Úkraína 2017 stendur líka upp úr. Það voru alls kyns skrítnir hlutir sem komu upp, en þá var ég komin í stjórn OGAE International og sá þetta innan frá. Þar var þarna Euro-klúbbur og þeir voru ekki búnir að fatta að maður spilar auðvitað bara Eurovision-tónlist. Okkar fólk fór í setuverkfall á dansgólfinu og við ræddum við vertinn sem gerði ekkert annað en að sjúga spítt í nösina á meðan við ræddum við hann,“ segir hún.

„Svo erum við í regnhlífarsamtökunum í sambandi við Eurovision-plötusnúða og kom í ljós að þarna í Kænugarði höfðu þeir ekkert fengið borgað fyrir sína vinnu. Klukkan þrjú um nóttina eftir úrslitin, þegar Salvador Sobral frá Portúgal var búinn að vinna, var ég dregin baksviðs að lesa yfir samning um greiðslu fyrir þessa þjónustu. Samningurinn var á úkraínsku þannig að ég fékk stelpu til að þýða fyrir mig; hún var ekki meira en sextán ára. Okkur var rétt mjög þykkt seðlabúnt sem við þurftum að telja á staðnum sem var frekar mikil vinna, enda tveggja vikna laun allra Eurovision-plötusnúðanna. Þarna var fullt af vændiskonum og fylgdarkonum en ég var búin að segja þeim þarna að það þýddi lítið að bjóða upp á þessa þjónustu þar sem 97% þeirra sem sæktu Eurovision væru samkynhneigðir karlmenn. Það var mjög skrítið að telja alla þessa peninga um miðja nótt í kringum allar þessar vændiskonur; mjög einkennileg upplifun!“

Fíla Hatara í botn

Hvað er besta Eurovision-lag allra tíma að þínu mati?

„Þetta er spurning sem þú spyrð aldrei alvöru Eurovision-aðdáanda. Það er ómögulegt að nefna eitthvert eitt lag. Ég á uppáhalds rússneskt, íslenskt, frá þessari eða hinni keppninni. En lengi vel var mitt uppáhalds Eurovision-lag Neka Mi Ne Svane, króatíska Eurovision-lagið 1998 sem lenti í fimmta sæti. Það er frægt Eurovision-lag,“ segir hún.

„Eitt lag enn með Siggu og Grétari situr mjög fast í minningunni, maður ólst upp við það. Ég var send á dansnámskeið í safnaðarheimilið þar sem ég bjó, í Ólafsvík, til þess að læra Eitt lag enn-dansinn. Svo fíla ég Hatara alveg í botn! Ætli það verði ekki bara uppáhalds Eurovision-lagið mitt? Ef fólk hefur ekki séð Hatara á sviði mæli ég með að fólk mæti á tónleika því sjón er sögu ríkari.“

Önnur klassísk spurning, spáir þú Hatara góðu gengi?

„Ég held að við munum komast upp úr blessaðri undankeppninni í fyrsta sinn síðan 2014 og ég hlakka til þess. Við erum í verri undankeppninni og þarna eru ekki mjög sigurstrangleg lög þannig að við eigum meiri möguleika. Svo dró Úkraína sig út úr keppni og þeir voru í okkar riðli. Þannig að við keppum við einum færri.“

Heldurðu að Hollendingar vinni?

„Nei, ég er ekki komin á þennan hollenska vagn en samkvæmt veðbönkum eru þeir sigurstranglegastir. Ég hef mjög mikla sigurtilfinningu fyrir sænska laginu sem heitir Too late for love og er mjög fallegt gospel-lag. En með öllum fyrirvara um að Ísland sé að fara að vinna Eurovision; það gæti gerst. Þeim er spáð sjötta sætinu en ég veit ekki hvaða öldu þeir ætla að sigla. Þeir eru búnir að vera mjög áberandi í aðdáendasamfélaginu og í aðdraganda Eurovision. Þeir eru agalega vinsælir. Annaðhvort elskar fólk þá eða hatar. En í öllu falli er þetta mjög flott sviðsetning, vel flutt lag og góð lagasmíð. Þetta dregur fólk að skjánum,“ segir Laufey og upplýsir blaðamann um að Hatari muni syngja á íslensku.

Þegar þú sérð Eurovision-stjörnur, verður þú stjörnuslegin?

„Já, ég hef sérhæft mig í Eurovision-sjálfum með stjörnunum.“

Heldur þú að Ísland vinni einhvern tímann?

„Það væri hámarkið á þessum Eurovision-tryllingi. Við erum öll að bíða eftir því og það mun gerast.“