Hjalti Ragnar Ásmundsson fæddist 26. apríl 1939 í Hólakoti í Hrunamannahreppi. Hann lést 3. maí 2019.

Hann var sonur hjónanna Ásmundar Brynjólfssonar og Pálínu Margrétar Guðjónsdóttur. Systkini hans eru: Unnur, f. 31. maí 1933 ,hún er gift Einari Valdimarssyni, Guðjón, f. 4. október 1934, hann er kvæntur Ínu Sigurborgu Stefánsdóttur, Halldóra, f. 25. október 1940, hún er gift Einari Jónssyni, og Elínborg, f. 7. júlí 1944, hún var gift Hjálmtý Ragnari Júlíussyni, hann er látinn.

Eftirlifandi eiginkona Hjalta er Jónína Gísladóttir, f. 13. desember 1950, þau gengu í hjónaband 1. desember 1978. Foreldrar hennar voru Gísli Jóhannsson og Gyða Antoníusardóttir. Börn þeirra eru: Gísli, f. 13. október 1972, unnusta hans er Anne Merethe Vennesland, börn hans eru: Jóhann Hjalti og Emilía Ósk Sælid. Ásmundur Páll, f. 27. desember 1975, eiginkona hans er Guðrún Egilsdóttir, börn þeirra eru: Rúnar Már, unnusta hans er Dagbjört Nótt, og dóttir þeirra er Guðrún Hulda, Gabríel Ágúst og Sunna Dalrós, unnusti hennar er Arnar Breiðfjörð, þau eiga einn dreng. Hlynur, f. 17. júní 1979, unnusta hans er Anna Kristín Valdimarsdóttir, dætur þeirra eru: Sara María og Elísabet Helga.

Hann og Jónína voru með búskapinn í Hólakoti 1971-1978 þá fluttu þau á Seljaveg 9 á Selfossi. Hjalti var til sjós í Vestmannaeyjum, Ólafsvík og Þorlákshöfn. Hann vann sem verkamaður, lengst af í Höfn, hjá Sláturfélaginu og Grísabæ. Áttu þau hjónin land og hús í Hólakoti.

Útför hans fór fram frá Selfosskirkju 10. maí 2019.

„Hann Hjalti getur áreiðanlega gert við þetta.“ Þessi setning hljómaði ansi oft þegar ég var að alast upp í Hólakoti. Annars vegar vegna þess að það var ótal margt sem bilaði eða brotnaði og að öðrum þræði vegna þess að þetta reyndist oftar en ekki rétt. Hjalti gat í langflestum tilfellum gert við þessa hluti. Hvort heldur það var að bindivélin bilaði, það hafði sprungið dekk á traktornum eða vatnshrúturinn dældi ekki heim vatni. Hann hafði einstakt lag á hlutunum og mikla þolinmæði við að gera við þá. Hann var sjálflærður í þessum fræðum og hlutirnir léku í höndunum á honum.

Hjalti frændi var bróðir mömmu, hann var miðbróðirinn í fimm systkina hópi, hún ári yngri en hann. Hann hafði á undan henni verið bóndi í Hólakoti og var þar öllum hnútum kunnugur. Mamma og Hjalti voru einstaklega góðir vinir og mikill samhljómur á milli þeirra. Hann var alltaf fús að koma í sveitina og hjálpa til við hvað sem var. Gjarnan með strákana sína þrjá sem honum fannst afar gaman að hafa í kringum sig.

Hjalti var mikið náttúrubarn. Honum fannst gaman að rækta garðinn sinn á Seljaveginum og síðar í kringum sumarbústaðinn sinn í Hólakoti. Setti niður kartöflur, ræktaði rófur, gulrætur og annað grænmeti, að ógleymdum jarðarberjunum sem uxu vel í garðinum hans Hjalta. Það var alltaf gaman að koma til Hjalta og Jónínu og smakka jarðarberin þegar líða fór á sumarið. Fleiri kíló af gómsætum jarðarberjum.

Ef ég myndi loka augunum gæti ég vel séð hann frænda minn fyrir mér á þessum árstíma gangandi um eyrarnar í Hólakoti. Hann búinn að finna nokkur hreiður og slatti af börnum á eftir honum í náttúruskoðun. Hér áður fyrr strákarnir hans og við frændsystkinin, í seinni tíð barnabörnin. Hann hafði alltaf tíma fyrir alla. Að kenna krökkunum að „fleyta kerlingar“ á pollunum, veiða hornsíli og skoða eggin. Alltaf var gengið um með fullri virðingu fyrir náttúrunni og skilið við allt eins og komið var að því.

Takk, Hjalti frændi, fyrir samfylgdina í lífinu.

Ég sendi Jónínu, Gísla, Ása, Hlyni og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ása Margrét Einarsdóttir.