Katrín Bjarney Jónsdóttir fæddist á Ísafirði 23. apríl 1941. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsi Ísafjarðar 30. apríl 2019.

Foreldrar hennar voru Jón Ásbjörn Jóhannsson skattstjóri, f. 1906, d. 1992, og Oktavía Margrét Gísladóttir hjúkrunarkona, f. 1904, d. 1987. Systur Katrínar eru Jóhanna, f. 1944, gift Guðjóni Jónssyni, f. 1946, og Margrét, f. 1945, d. 1996, gift Cyril Edward Walter Hoblyn, f. 1940, d. 2017. Oktavía og Jón Ásbjörn bjuggu á Ísafirði, lengst af í Fjarðastræti 15.

Katrín giftist 31. desember 1960 Grétari Þórðarsyni, skipstjóra og forstöðumanni Hlífar. Foreldrar hans voru Þórður Bogason skrifstofumaður, f. 1915, d. 1990, og Kristjana Hjartardóttir húsfreyja, f. 1918, d. 2013). Synir Katrínar og Grétars eru 1) Hjörtur rekstrarhagfræðingur, f. 1961, kvæntur Helgu Jóhannesdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 1961; þau eiga Jóhannes, f. 1988, Hildi, f. 1991, Grétar Örn, f. 1993, og Katrínu Viktoríu, f. 1999; 2) Jón Ásbjörn netagerðarmeistari, f. 1965, d. 2014, hann átti Aron Gunnar, f. 1994, barnsmóðir Inga Vigdís Einarsdóttir, f. 1966, og Rebekku Lind, f. 2003, barnsmóðir Svandís Guðmundsdóttir, f. 1969.

Katrín lauk landsprófi frá Núpi í Dýrafirði 1958 og stundaði píanónám hjá Ragnari H. Ragnars á Ísafirði. Hún kenndi ungum nemendum á píanó framan af starfsævinni.

Katrín vann sem skrifstofumaður, fyrst hjá Landssímanum og á Skattstofu Vestfjarða en lengst af hjá Ríkisskipum, Skipaafgreiðslu Gunnars Jónssonar og Skólaskrifstofu Vestfjarða. Einnig starfaði hún við afgreiðslu og þjónustustörf hjá Gullauga, Sjóminjasafni Ísafjarðar og síðast á Hlíf.

Hún var virk í félagsstarfi, um tíma í Sunnukórnum, í Tónlistarfélagi Ísafjarðar og var formaður Slysavarnadeildar kvenna á Ísafirði.

Útför hennar fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 11. maí 2019, klukkan 14.

Það var búið að liggja í loftinu að þú værir að fara kveðja okkur, en allt í einu varstu bara farin.

Hávaxin og grönn, oftast í millisíðri kápu þessi seinni ár, alltaf með varalit og neglurnar til fyrirmyndar, filterslaus Camel-sígaretta á milli fingranna. Þannig mun ég sennilega alltaf muna þig þó að minningarnar séu æði margar. Allt fram á unglingsár var Urðarvegurinn mitt annað heimili, alla páska og öll sumur fékk ég að vera hjá ykkur Grétari mér til mikillar gleði, borgarstelpan að sleppa út í náttúruna eins og er mér svo kært enn þann dag í dag. Alla páska var skíðað út í eitt. Svo farið heim og ostabrauð hitað í örbylgjuofninum, sem þá var nýjung sem ekki var á öllum heimilum og drukkið heitt kakó með, sem þú varst búin að búa til úr páskaeggjum. Þú kenndir mér líka að búa til sjóarasamloku sem er alltaf klassísk.

Ein af mínum fyrstu minningum er þegar við fórum hringinn um landið á bláa bílnum þegar ég var kannski fjögurra ára. Ég var hrikalega bílveik, sennilega út af þessum filterslausu Camel, en þú bættir það upp með því að gefa mér reglulega bílabrjóstsykur, sem var sérstakur brjóstsykur í járndós sem aðeins mátti borða í bílnum en ekki taka með inn í hús.

Síðar var farið í Flatey um hverja helgi þegar þið Grétar voruð að gera upp Bogabúð og enn er jafn gaman að koma þangað í heimsókn á sumrin. Þá er mér kært að hafa byrjað í unglingavinnunni á Ísafirði þó að ég hefði ekki stoppað lengi heldur fengið að fara í staðinn til Hollands til Hjartar og Helgu að passa Jóa og Hildi.

Mér fannst ótrúlegt hvað þú gast spilað fallega á píanóið en aldrei mátti ég horfa á þig spila heldur þurfti ég að láta mér það nægja að sitja frammi í eldhúsi og hlusta á óminn úr herberginu. Þetta var nokkuð sem þú vildir bara hafa fyrir þig en ekki hafa mig hangandi yfir þér, talandi út í eitt. Innblásin langaði mig líka að geta spilað svona meistaralega en því miður hafði ég ekki mikla þolinmæði í æfingarnar.

Nú hefur þú kvatt okkur og fengið hvíldina. Ég finn strax fyrir söknuðinum, að geta ekki hringt í þig og sagt þér helsta slúðrið úr Reykjavík og fengið heyra allt það nýjasta frá þér, þú sagðir alltaf svo skemmtilega frá. Takk fyrir samfylgdina og vináttuna, líf mitt er auðugra vegna þín. Blessuð sé minning þín, nafna mín.

Þín,

Katrín Bjarney.

Það er mér bæði ljúft og skylt að minnast móðursystur minnar, hennar Ísó-Kötu eins og hún var alltaf kölluð innan fjölskyldunnar. Það er sorglegt til þess að hugsa að hún sé nú farin inn í eilífðina, þessi fallega kona sem hafði svo mikil áhrif á líf mitt þegar ég var að alast upp.

En það er varla hægt að minnast hennar án þess að nefna Grétar manninn hennar líka, því að ef ekki var talað um Ísó-Kötu heima þá var talað um Kötu og Grétar. Þau voru órjúfanleg heild og komu mér barninu fyrir sjónir sem miklir heimsborgarar. Ef Grétar var ekki úti á sjó þá voru þau Kata á ferð og flugi um heiminn, eða bara að keyra milli Reykjavíkur og Ísafjarðar með viðkomu í Flatey.

Við systur vorum ósjaldan sendar með flugi til Ísafjarðar á sumrin að heimsækja Oktavíu ömmu og Jón afa. Síðar breyttust sumarferðalög til afa og ömmu í skíðaferðir um páskana og var alltaf gist hjá Kötu og Grétari á Urðarveginum. Í mörg ár var þessi vika fyrir páska okkur systrum mikið tilhlökkunarefni. Það voru jú Kata og Grétar sem kenndu okkur á skíði uppi á Dal og stundum var húsið fullt af skyldmennum og vinum – alltaf höfðu þau pláss fyrir alla. Urðarvegurinn var svolítið spennandi með öllum sínum skúmaskotum og herbergjum. Þar var hefð fyrir kvöldkaffi – prinspóló, mjólk og spjall við Kötu og Grétar um menn og málefni.

Og svo var það Flatey, eyjan góða sem ég heimsótti svo oft með þeim á þessum árum. Siglingar út í sker og eyjar, lundaveiðar og sveitaböll voru bara hluti af ævintýrunum sem ég hefði ekki upplifað án Kötu og Grétars.

Ég man langar bílferðir þar sem við systur sátum í aftursætinu hjá Kötu og Grétari. Við fengum bílabrjóstsykur eins og Kata kallaði hann – keyptur í fríhöfninni og geymdur í hanskahólfinu. Svo átti Ísó-Kata alltaf tyggjó, annaðhvort appelsínugulan PK eða grænan Wrigley's.

Og af því að ég minntist á heimsborgarana Kötu og Grétar er ógleymanlegt þegar þau komu heim frá útlöndum með risastóra vatnsmelónu í handfarangri löngu áður en byrjað var að flytja inn slíkt góss til landsins. Það var ekki síður eftirminnilegt þegar þau sögðu frá því að þau hefðu séð sjálfan Clint Eastwood settan í embætti bæjarstjóra í Carmel í Kaliforníu.

Á unglingsárum mínum dvaldi ég eitt ár í Suður-Þýskalandi. Kata og Grétar skruppu til Austurríkis og gerðu þau sér sérstaka ferð til að sækja mig og bjóða mér með sér á skíði í nokkra daga.

Enn og aftur að bjóða mér í ævintýri sem ég hafði ekki upplifað áður. Ég er afar þakklát fyrir að mín börn hafi kynnst Kötu og Grétari og notið góðvildar þeirra og gestrisni og eigum við dýrmætar minningar með þeim úti í Flatey þar sem við vorum alltaf velkomin til þeirra í Bogabúð.

En nú er Ísó-Kata farin í annan heim og vonandi hefur hún nú hitt elsku Möggu systur sína sem dó svo allt of ung og við söknum mikið. Ég sé þær fyrir mér saman sitjandi með kaffibollann eða jafnvel hvítvínsglas að tala hátt og hlæja dátt. Lífið virðist einhvern veginn fátækara án þeirra. En þetta eru góðar minningar sem ég geymi áfram með þakklæti í huga.

Sigríður Oddný

Guðjónsdóttir (Sirra).

Það vorar á Breiðafirði, sjófuglarnir eru sestir upp og farfuglarnir flykkjast að. Í huga okkar ófiðruðu farfuglanna vakna myndir af spegilsléttum sjónum, angan af þangi og sjávarseltu og linnulausum fuglasöng sem endist jafnlengi og birtan, þá undursamlegu sumardaga og nætur sem fram undan eru.

Þetta sumarið verðum við einum færri. Katrín, mágkona og svilkona, er gengin á vit feðra sinna. Katrín var húsfreyja í Bogabúð, sumardvalarstað stórfjölskyldunnar, allt frá upphafi, þegar hún og Grétar lögðust á eitt með Þórði og Lóu heitnum, ásamt Boga og Ollý að endurbyggja gömlu búðina hans afa Boga. Bogabúð hefur verið okkur öllum hamingjuauki öll þessi ár. Á hverju sumri hittumst við þar, sóttum sjóinn, ræktuðum garðinn og nutum lífsins.

Bogabúð verður ekki söm án Kötu, Kötu stóru eins og hún var stundum kölluð, til aðgreiningar frá frænku sinni, Kötu í miðið, og Kötu litlu, Katrínu Ólöfu, dóttur okkar Bryndísar. Kata hélt sig gjarnan heima við í Bogabúð, ræktaði garðinn okkar í Beykishúsgarðinum og stýrði því bráðabirgðaheimili okkar allra sem sett var upp í Bogabúð á hverju sumri.

Við þökkum Kötu fyrir móttökur á Ísafirði á páskum og um annan tíma, þar sem við nutum Ísafjarðar með börnum okkar við leik og skíðakennslu sem Grétar veitti af færni og þolinmæði.

Við munum sakna Kötu stóru, eins og við höfum saknað Jóns Ásbjörns, en munum halda minningu þeirra á lofti, í Flatey sem annars staðar. Blessuð sé minning Katrínar Bjarneyjar Jónsdóttur.

Einar og Bryndís, Bogi og Ollý, Katrín Ólöf, Stefán, Arnar og Anna Bryndís, Einar Þór og Þórður Birgir.