Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Nauðsynlegt er að skapa hvata til fjölgunar nemendum í sjúkraliðanámi, meðal annars með vitundarvakningu um mikilvægi starfa sem sjúkraliðar. Undirmönnun á vinnustöðum veldur álagi og þreytu sem leiðir af sér veikindi fólks til lengri tíma, en við því er brugðist með yfirvinnu og aukavöktum sem þeir sem fyrir eru þurfa að sinna.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nauðsynlegt er að skapa hvata til fjölgunar nemendum í sjúkraliðanámi, meðal annars með vitundarvakningu um mikilvægi starfa sem sjúkraliðar. Undirmönnun á vinnustöðum veldur álagi og þreytu sem leiðir af sér veikindi fólks til lengri tíma, en við því er brugðist með yfirvinnu og aukavöktum sem þeir sem fyrir eru þurfa að sinna.

Þetta segir í ályktun Sjúkraliðafélags Íslands sem hélt fulltrúaþing sitt í vikunni. Einnig eru ítrekaðar kröfur um styttingu vinnuvikunnar, sem sjúkraliðar vilja að verði í dagvinnu 35 klukkustundir á viku og 28 klukkustundir í vaktavinnu. Allar tilraunir varðandi styttingu vinnuvikunnar hafi virkað vel.

Í ályktun sjúkraliða er vikið að því að fjölga eigi hjúkrunarrýmum um 790 hjúkrunarrýma til ársins 2023. Með því sé þó aðeins hálf sagan sögð, því ekki fáist fagmenntað starfsfólk til að sinna þjónustunni. Í áraraðir hafa hjúkrunarheimili verið undirmönnuð af fagfólki og allt að 70 – 80% þeirra sem þar starfa eru ófaglærðir. Íbúar eigi hins vegar rétt á faglegri hjúkrun og umönnun, og að njóta bestu mögulegrar heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma. Til að unnt sé að veita viðeigandi, faglega þjónustu á hjúkrunarheimilum þarf löggilt heilbrigðisstarfsfólk og að þar eins og í heimahjúkrun séu sjúkraliðar í aðalhlutverki. Minnt er á að stefna stjórnvalda sé að fólk búi heima eins lengi og mögulegt er og njóti góðrar, þverfaglegrar heimahjúkrunar. Þetta sé hagkvæm lausn sem geti frestað heimahjúkrun eða komið í veg fyrir að grípa þurfi til dýrra úrræða, eins og sjúkrahúsinnlagna eða varanlegrar vistunar á stofnun.