— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Nauðsynlegt er að fara rækilega yfir það, hvort nokkur maður hafi sagt við umræður um EES-samninginn, að vildu Íslendingar einhverju sinni nota rétt sinn til að hafna innleiðingu tilskipana sem þeim hentaði ekki, þá myndi sá samningur riða til falls. Hér skal fullyrt að þessar hótanir og hræðsluáróður eru ósannindi.

Nauðsynlegt er að fara rækilega yfir það, hvort nokkur maður hafi sagt við umræður um EES-samninginn, að vildu Íslendingar einhverju sinni nota rétt sinn til að hafna innleiðingu tilskipana sem þeim hentaði ekki, þá myndi sá samningur riða til falls. Hér skal fullyrt að þessar hótanir og hræðsluáróður eru ósannindi.

Það er ónotalegt að sjá hvernig sumir þeir, sem maður síst vildi, hafa hagað sinni umræðu um hinn svokallaða orkupakka. Og það bætir ekki úr að erfitt er að sjá af málflutningi þeirra hver sé ástæðan.

Þeir fullyrða að málið sé smátt í sniðum, það hafi nánast enga þýðingu og snúist í rauninni ekki um neitt. Og að því leyti sem það snúist um eitthvað þá sé í rauninni fyrir löngu búið að afgreiða þau atriði!

Hvað gengur mönnum til

En samt berjast þeir á hæl og hnakka og veitast jafnvel að gömlum vinum sínum við að koma þessum „orkupakka“ í gegn, og vísa ekki í aðra skýringu en sinn eigin ótta.

Og þeim þykir ekkert að því að gefa tilefnislaust til kynna að einmitt þeir sem báru mesta pólitíska ábyrgð á að EES-samningur var samþykktur á sinni tíð séu í rauninni ekkert á móti þessu tiltekna máli. Það vaki það eitt fyrir þeim að eyðileggja EES-samninginn! Og því er bætt við að þeir geti varla haft áhyggjur af stjórnarskrárbrotum, því í fyrsta lagi sé alls ekki víst að verið sé að brjóta hana og þó svo væri, þá hafi verið búið að brjóta stjórnarskrána í smááföngum með afgreiðslu fyrri pakkanna og með því hafi sennilega skapast „lagaleg stjórnskipunarvenja“. Með því þykjast þeir í alvöru að vera að halda því fram að með vísun til slíkra kenninga megi framvegis gera hvaða breytingar sem menn vilji, með tilskipunum í nafni EES, sem lúsiðin vélmenni í Brussel unga út, hvað sem okkar eigin stjórnarskrá segi.

Þeir hika varla við að gera sig að kjánum með því að skilgreina ESB sem „alþjóðastofnun“ í þessari ólánlegu leikfimi sinni. Seinast keypti utanríkisráðherrann sér erlendan ráðgjafa, ýmsum kostum búinn, sem leyfði sér þó að halda því fram, í boði ráðherrans, að fyrst embættismenn héðan hefðu samþykkt meint afsal fullveldis með leynd á nefndarfundi í Brussel árið 2017, þá hefði þjóðin í heild misst af þeim strætisvagni sem taka verður ætli menn að verja fullveldi lands síns.

Þyngra en tárum taki

Kannanir sýna nú að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður undir 20 prósenta fylgi þótt hið ytra pólitíska umhverfi ætti að vera hagstætt. Þótt hálfur áratugur sé liðinn frá óvæntri og óútskýrðri kúvendingu í Icesave, sem feykti burt fylginu, hefur það ekki skilað sér aftur. Hefur flokkurinn þó verið í ýmsum samsteypustjórnum síðan. Því er hampað að pakkamálið sé of flókið fyrir almenning og þess vegna sé áhuginn á því minni en látið sé í veðri vaka.

Ekki vantaði að Icesave væri uppfullt af flóknum orðum og kynningin og offors yfirvalda var ámóta ógeðfellt og núna. Jóhanna lagði samninginn fyrir ríkisstjórn og þingflokka til samþykktar án þess að þýða hann. Það var ekki fyrir nema þaulvana að átta sig á um hvað var að ræða.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kyngdi þessu ólánsmáli nú í krafti fyrirvara sem nú er ljóst að eru ekki til sem slíkir.

Ekki vantaði þá að beitt væri ósvífnum fullyrðingum við Icesave-svikin þótt enginn hefði verið svo frumlegur þá að fagna þeim sem „lofsverðum blekkingum“. En almenningur reyndist ekki jafn vitlaus og stjórnmálamennirnir stóluðu á og virðast stóla á nú, eins og nýleg ummæli um að þeir sem (að eigin sögn í könnunum) hafi kynnt sér pakkamálið best séu jákvæðastir fyrir því! Þetta þótti fagnaðarefni þótt í þessum hópi vitringanna hafi meirihlutinn einnig verið á móti málinu eins og í hópi hinna sem minna vissu (deplorable kenningin).

En kannski fólst það helst í því að sá hópur sem gaf sjálfum sér þá einkunn að vera vel upplýstur hafði „keypt“ hinar „lofsverðu blekkingar“.

Innntómar hótanir

Nauðsynlegt er að fara rækilega yfir það, hvort nokkur maður hafi sagt við umræður um EES-samninginn, að vildu Íslendingar einhverju sinni nota rétt sinn til að hafna innleiðingu tilskipana sem þeim hentaði ekki, þá myndi sá samningur riða til falls. Hér skal fullyrt að þessar hótanir og hræðsluáróður eru ósannindi. Og þó er þessi hótun eina afsökun ríkisstjórnarinnar fyrir því að keyra þetta varasama mál í gegn. Undirbúningur þess er í skötulíki og engum til sóma sem að því kom.

Í heilt ár hafa staðið mjög afgerandi yfirlýsingar formanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi um málið. Fyrir tveimur vikum eða svo kom önnur yfirlýsing eins og skrattinn úr sauðarleggnum án þess að útskýrt væri hvað hefði breyst.

Við svo búið getur ekki staðið. Varla hafa hinar „lofsverðu blekkingar“ sveiflað flokknum í heilan hring.

Sætir tíðindum

Í laugardagsblaðinu er birt grein eftir Sturlu Böðvarsson, fyrrum ráðherra og einn af helstu forystumönnum flokksins í lands- og sveitarstjórnarmálum. Sú grein er prúðmannleg, en þunginn leynir sér ekki. Sturla segir í grein sinni: „Umræða á Alþingi og um allt samfélagið síðustu vikur um svokallaðan þriðja orkupakka hefur verið mögnuð. Þessi þriðji orkupakki leggur tilteknar skyldur á okkar herðar og færir okkur vonandi einhver réttindi í samstarfi þjóðanna. En þessi umfjöllun hefur magnað upp óánægja sem ekki sér fyrir endann á. Það hefur ekki auðveldað jákvæða afstöðu til málsins af minni hálfu að verða þess var að forsvarsmenn Samfylkingar og Viðreisnar leggja ofuráherslu á að samþykkja þriðja orkupakkann án nokkurs fyrirvara. Þeir flokkar stefna bæði leynt og ljóst að inngöngu í Evrópusambandið gefist færi til þess. Það er því rík ástæða til þess að fara að öllu með gát og tryggja hagsmuni okkar svo sem var gert svo vel árið 1993 og þá ekki síst hvað varðar fiskveiðar og sjávarauðlindina sem við eigum og ráðum yfir.

Nýting orkulinda okkar hefur gefist vel og er okkur mikilvæg. Orkupakkanum er ætlað að setja okkur reglur hvað varðar vinnslu og dreifingu raforku og þá væntanlega í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni neytenda á grundvelli hins frjálsa markaðar.

Ef okkur tekst að halda áfram að byggja upp orkufyrirtækin og þá einkum hjá Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða með virkjun vatnsafls, virkjun jarðvarma, virkjun vindorku og virkjun sjávarfalla munu líkurnar aukast á því að það verði okkur hagfellt að selja raforkuna um sæstreng til nálægra landa. Því er það mikilvægast fyrir okkur að tryggja hagsmuni okkar þegar sæstrengur hefur verið lagður. Það er óforsvaranlegt að samþykkja þriðja orkupakkann án þess að það liggi fyrir hvað gerist á orkumarkaði á Íslandi þegar sæstrengur hefur verið lagður og orkusalan hefst. Það hefur eitt og sér engan tilgang að við ráðum því hvort sæstrengur verði lagður ef orkumarkaðsmálin verða um leið tekin úr okkar höndum þegar sala hefst um sæstreng. Þessari spurningu verða ráðherrar að svara áður en lengra verður haldið enda virðist Landsvirkjun gera ráð fyrir lagningu sæstrengs svo sem sjá má á heimasíðu félagsins.“

Seinni afmælisgjöfin

Á sama tíma og flokkurinn engist út af ónýtum málatilbúnaði um orkupakka hefur hann óvænt stillt sér upp undir kjörorðinu „fram nú allir í röð“ fyrir aftan Svandísi Svavarsdóttur til að samþykkja að nú megi af nokkurri léttúð fremja fóstureyðingar þótt barn sé orðið 22 vikna gamalt í móðurkviði, sem er hið næsta því að geta lifað og þroskast eftir að hafa öðlast líf, án þess að styðjast við undur naflastrengsins lengur.

Engin umræða, sem nær máli, hefur farið fram í flokknum um svo viðkvæmt mál. Það er ekki líklegt að flokksmenn taki almennt og því síður allir sem einn undir „fram nú allir í röð“ undir þessari leiðsögn.

Það eru til rök með og á móti flestum málum og einnig þessum, sem eru þó á meðal þeirra sem snerta tilfinningarnar mjög. Sumir sækja þá skýringu sem dugar þeim í heilaga ritningu. Fráleitt er að gera lítið úr því. En horfast verður í augu við það að fyrir alllöngu ákvað löggjafinn með mjög afgerandi meirihluta að „mannalög“ ættu ein að gilda um þessi atriði og hefur sú orðið raunin og er áþekkt því sem gerist í flestum löndum sem við eigum helst samleið með. Því er trúarlega prinsippið að þessu leyti ekki til umræðu nú, þótt það hafi ríkulegt gildi fyrir mjög marga.

Stór spurning

En spurningin um það hversu langt skal ganga er hins vegar svo sannarlega til umræðu. Í svo stóru máli er meginkrafan og um leið lágmarkskrafan sú að flausturslega gangi menn ekki til slíkrar ákvörðunar. Meðal flestra sjálfstæðismanna liggur sú krafa í lofti að umræðulaust megi ekki stíga slík skref. Ekkert var um þau rætt í sáttmála stjórnarinnar og gerir það flokkslega umræðu enn þýðingarmeiri. Ella er verið að fara á bak við flokkinn af ásettu ráði.

Hluti af þeirri umræðu hlýtur að felast í því að fara rækilega yfir grundvallarmálið um fóstureyðingar sem enn er í gildi. Hvernig var um þær tillögur búið og hvað var sagt í greinargerðum og þingræðum um alla þá fyrirvara sem þá var fullyrt að yrðu til staðar. Og þá hvað varð síðan um þá fyrirvara. Almenningur mun fyrr en síðar fá hreint ógeð á fyrirvaraslætti stjórnmálamanna sem enga þýðingu hafa svo. Kjötmálið, orkupakkamálið og svo mörg önnur kalla á slík viðbrögð. Fóstureyðingarlögin sem nú gilda lúta um margt sömu lögmálum. Öll þessi spor hræða. „Fyrirvarar sem koma málum í gegn“ eru að verða tákngervingar fyrir stjórnmálamenn sem ekki megi vænta mikils af. Almenningur mun hafa vara á þeim. Og þá verða þeim smám saman fáar götur færar.

Ógeðfellt orðafikt

Mjög eftirtektarvert er að siðfræðingar hafa bent á í umsögn, með öðru orðalagi þó, að ekki sé til fyrirmyndar að fikta við hugtök við framhaldsmeðferð slíks máls.

Þetta er laukrétt. Og hver maður sér að það er beinlínis gert til að auðvelda framgang þess. Þetta eru fyrst og síðast blekkingar og ekki í „lofsverða“ kantinum. En kannski sýnir þessi orðaleikfimi einnig að þeir sem halda um eru ekki lausir við að skammast sín fyrir hversu langt er gengið gagnvart þeim sem eru varnarlausastir allra.

Það eru sem betur fer oftast mikil gleðitíðindi þegar tilkynnt er að kona sé með barni. Og konan gleðst þá ekki ein heldur allir þeir sem nærri henni standa. Málið er jú þeim flestum skylt í öllum skilningi.

Í núgildandi lögum er talað um fóstureyðingu. Það er augljóst að þeir sem að frumvarpsgerð standa nú eru ekki jafn öruggir í sinni vegferð og áður.

Þeir nota því skrípiorðið „þungunarrof“ til að forðast tilfinningaleg tengsl við lífið sem er verið að eyða. Núorðið viðurkenna flestir að slík gjörð geti verið nauðsynleg og jafnvel óhjákvæmileg. En það sýnir siðferðisbrest að reyna að færa þann mikla gjörning í þýðingarminni búning. Skrípiorðið „þungunarrof“ er bersýnilega ætlað til þess að undirstrika að fóstureyðingin sé eiginlega ekki annað en hluti af þeim getnaðarvörnum sem völ sé á hverju sinni. Það fer einkar illa á þeirri framsetningu.

Forysta Samfylkingarinnar gengur enn lengra. Hún vill ekki að talað sé fóstur og því síður barn. Formaður flokksins segir ekki hægt að tala um slíkt því að þarna sé aðeins „frumuklasi“ á ferð.

Það er ekki á þessa fylkingu logið.

Það er ekki hægt.

Þó tala þannig fullorðnir frumuklasar og læsir og skrifandi.

Hringja þeir hver í annan þegar fréttist að frænkan í fjölskyldunni sé með barni og segja: Til hamingju með frumuklasann?

Gera þeir það?

Það skyldi þó ekki vera.