Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast Hans G. Andersen þjóðréttarfræðings og sendiherra á aldarafmæli hans. Hann fæddist í Winnipeg 12. maí 1919 og lést 23. apríl 1994.

Hans G. Andersen hóf störf sem þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu árið 1946 að loknu laganámi við Háskóla Íslands og framhaldsnámi í þjóðarétti í Toronto og New York. Hann samdi þegar árið 1948 frumvarp til landgrunnslaganna svonefndu sem kváðu á um vísindalega verndun fiskimiðanna á landgrunninu og mynduðu síðar grundvöll fyrir öllum útfærslum íslensku fiskveiðilögsögunnar. Hans gegndi sem kunnugt er lykilhlutverki við útfærslu lögsögunnar í áföngum allt þar til 200 sjómílna markinu var náð. Ljóst er að landhelgismálið skipti sköpum fyrir efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Þá miklu velmegun þjóðarinnar sem fylgdi í kjölfar útfærslu lögsögunnar má ekki síst þakka störfum hans á þessu sviði. Jafnframt lagði Hans drög að afmörkun landgrunns Íslands utan 200 sjómílna í suðri en því verkefni er ekki lokið.

Hans G. Andersen hafði sem einn fremsti sérfræðingur heims á sviði hafréttar veruleg áhrif á þróun réttarreglna á þessu sviði, ekki síst á mótun hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Hafréttarsamningurinn var samþykktur í lok þriðju hafréttarráðstefnunnar árið 1982 en Hans var formaður sendinefndar Íslands á ráðstefnunni. Um er að ræða eina heildstæða alþjóðasamninginn sem gerður hefur verið á sviði hafréttar og er hann talinn meðal helstu afreka Sameinuðu þjóðanna.

Starfssvið Hans takmarkaðist ekki við hafréttarmál. Á fyrstu starfsárum hans í utanríkisráðuneytinu var lagður sá grunnur að öryggismálum þjóðarinnar sem við njótum enn í dag. Hann átti drjúgan þátt í gerð varnarsamningsins við Bandaríkin árið 1951 og tók þátt í undirbúningi aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Þessi mál áttu síðar eftir að tengjast landhelgismálinu með afgerandi hætti. Það var fyrst og fremst aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og hið farsæla varnarsamstarf okkar við Bandaríkin á tímum kalda stríðsins sem gerði Íslendingum kleift að sigrast á andstæðingum sínum í landhelgismálinu.

Samhliða starfi sínu að hafréttarmálum gegndi Hans G. Andersen ýmsum sendiherrastörfum erlendis. Var hann fyrst fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og síðar sendiherra í París, Stokkhólmi og Ósló. Síðustu þrettán ár starfsferilsins gegndi hann sendiherrastarfi í Bandaríkjunum, fyrst í Washington og síðan embætti fastafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, uns hann fékk lausn frá embætti fyrir aldurs sakir árið 1989. Fór vel á því að hann skyldi ljúka 43 ára ferli sínum í utanríkisþjónustunni á þeim stað þar sem hann vann stórvirki fyrir íslensku þjóðina í hafréttarmálum.

Á fullveldisdaginn árið 2001 efndi Hafréttarstofnun Íslands til athafnar í Hátíðarsal Háskóla Íslands til að heiðra minningu Hans G. Andersen. Við það tækifæri færði fjölskylda Hans Hafréttarstofnun lagabókasafn hans að gjöf til varðveislu í Lögbergi. Jafnframt var afhjúpuð brjóstmynd af Hans sem velunnarar hans áttu veg og vanda af og færðu stofnuninni til varðveislu en henni var einnig komið fyrir í Lögbergi.

Á skjöldinn undir brjóstmyndinni eru skráð eftirfarandi orð:

„Hans G. Andersen var einn fremsti og færasti sérfræðingur heims á sviði hafréttarmála. Hann lagði lagalegan grundvöll að útfærslu íslenskrar lögsögu úr þremur í 4 sjómílur 1952, 12 sjómílur 1958, 50 sjómílur 1972 og loks 200 sjómílur 1975 – svo og landgrunnsréttinda út fyrir þau mörk. Hann var aðalráðgjafi allra ríkisstjórna Íslands sem höfðu forystu um útfærslu lögsögunnar og öflun viðurkenningar á henni. Virðing og traust sem hann naut leiddi til verulegra áhrifa hans á þróun hafréttar, þar á meðal mótun hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna – og vann hann þjóð sinni einstakt gagn.“

Enginn Íslendingur getur óskað sér betri eftirmæla og enginn efast um að hann á þau fyllilega skilið. Það er því vel við hæfi að við heiðrum minningu Hans G. Andersen þjóðréttarfræðings og sendiherra á aldarafmæli hans.

Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri.