Ketill Berg Magnússon
Ketill Berg Magnússon
Eftir Ketil Berg Magnússon: "Lögleiðing frumvarps ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um félög til almannaheilla er mikilvægt skref til að efla traust á starfsemi almannaheillsamtaka í landinu."

Dæmi um slík félög sem sinna nauðsynlegum verkefnum á fjölmörgum sviðum í okkar samfélagi eru Krabbameinsfélagið, Öryrkjabandalagið, Landsbjörg, UMFÍ, Blindrafélagið, Barnaheill og Heimili og skóli. Þar sinna einstaklingar gjarnan sjálfboðastörfum og leggja jafnvel starfinu til fé. Mörg þessara félaga leysa af hendi verkefni sem annars myndu lenda á hinu opinbera. Augljóst er að félögin þurfa að starfa af fagmennsku svo þau séu traustsins verð. Til þess þurfa þau skýra lagaumgjörð.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um félög til almannaheilla. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur átt samráð um frumvarpið við Almannaheill – samtök þriðja geirans – sem hafa innan sinna vébanda mörg af stærstu almannaheillasamtökum landsins með tugþúsundir félagsmanna.

Efnislega fjallar frumvarpið um skilyrði þess að félag geti valið að skrá sig sérstaklega sem félag til almannaheilla og fá þá endinguna .fta í fyrirtækjaskrá. Sú skráning hentar vel félögum sem eru með umtalsverða starfsemi og/eða þiggja fjármagn til starfsemi sinnar. Í frumvarpinu felast hagnýtar leiðbeiningar um stofnun og rekstur almannaheillafélaga þar sem vandaðir stjórnarhættir og fjármál eru höfð að leiðarljósi. Fyrir lítil félagasamtök, sem ekki höndla með fjármuni, er skráningin valkvæð og fyrir þau mun þessi lagasetning ekki hafa önnur áhrif en að verða fyrirmynd um góða stjórnarhætti og vandaða meðferð fjármuna.

Heildarlög um félagsamtök til almannaheilla löngu tímabær

Við, sem styðjum félagasamtök til góðra verka, viljum geta treyst þeim. Við viljum að fólkið eða málefnin sem félagasamtökin starfa fyrir njóti faglegrar hjálpar. Við viljum að félagasamtökin taki vandaðar ákvarðanir, fari vel með fjármagn og komi í veg fyrir hagsmunaárekstra. Við viljum ekki að fjármálaóreiða eða hagsmunapot í félagasamtökunum skaði málstaðinn sem við styðjum. Því miður er alltaf hætta á að það geti gerst, eins og annars staðar þar sem peningar og hagsmunir eru í húfi.

Almannaheill hafa allt frá árinu 2008 kallað eftir því að starfsumhverfi almannaheillasamtaka verði styrkt og þau fái ívilnanir í samræmi við þann ávinning sem þau skapa samfélaginu og yfirvöldum. Lögleiðing frumvarps ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um félög til almannaheilla er mikilvægt skref til að efla traust á starfsemi almannaheillasamtaka í landinu, stuðla að góðum starfsháttum innan slíkra samtaka og skilgreina betur eftirlit og gagnsæi í starfi þeirra.

Stjórn Almannaheilla hvetur þingmenn allra flokka til að veita frumvarpinu brautargengi og renna þannig enn styrkari stoðum undir starfsemi félaga til almannaheilla í landinu.

Höfundur er formaður Almannaheilla.