Garni musterið frá fyrstu öld var reist til heiðurs Mihr.
Garni musterið frá fyrstu öld var reist til heiðurs Mihr. — Morgunblaðið/Gunnlaugur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er eitthvað ólýsanlegt við það að kynnast þjóð sem til forna var stórveldi en í gegnum aldirnar hefur þurft að þola kúgun og fjöldamorð. Þjóð sem með þrautseigju hefur haldið sinni einstakri menningu. Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is

Á hálendissléttum innan um háa fjallagarða Kákasusfjalla er að finna litla forna þjóð sem á sér tæplega þrjátíu alda sögu, en ummerki eru um siðmenningu þúsundir ára aftur í tíma.

Það má kannski spyrja hvað í ósköpunum það er sem dregur mann til Armeníu, en það er kannski það sem er svo spennandi við að ferðast á staði sem ekki eru í sviðsljósinu, að sjá og upplifa eitthvað einstakt og öðruvísi. Í þessu landi er hægt að komast í beina snertingu við mannkynssöguna og ekki síst einstaka menningu.

Armenía er aðeins tæplega 30 þúsund ferkílómetrar og búa þar um þrjár milljónir manna, þar af tæplega helmingurinn á höfuðborgarsvæði landsins. Landamæri landsins eru að Tyrklandi til vesturs, Íran til suðurs, Aserbaídsjan til austurs og Georgíu til norðurs. Höfuðborgin Yerevan er meðal elstu borga heimsins sem enn er búið í og var stofnuð í kringum virki sem var reist á staðnum árið 782 fyrir Krist. Borgin stendur á hálendissléttu í 990 metra hæð, umkringd miklum fjöllum, en sker þó úr Ararat-fjall.

Ararat-fjall er Tyrklandsmegin við landamæri landanna tveggja, en var öldum saman innan Armeníu. Fjallið, sem er 5.137 metra hátt, er óaðskiljanlegt frá þjóðarsál Armena og má finna myndir af fjallinu um allt land og á allskonar varningi. Fjallið er kannski frægast fyrir að vera nefnt í fyrstu Mósebók, en örkin hans Nóa er sögð hafa strandað þar eftir syndaflóðið.

Saga átaka

Öfugt við Ísland sem hefur í gegnum söguna þurft að líða fyrir að vera lítið ríki fjarri öðrum ríkjum með tilheyrandi einangrun, hefur Armenía þurft að kljást við að vera lítið ríki fast milli stórvelda svo öldum skiptir. Landið hefur meðal annars verið vígvöllur Rómar og Parþíu, Austrómverska keisaraveldisins og tyrkneskra soldána og veldis Ottómana og rússneska keisaraveldisins. Síðar varð landið eitt af sovétlýðveldunum á millistríðsárunum. Þessi mikla átakasaga er einmitt skýring þess að í landinu hefur orðið til einkennileg menningarblanda Austur-Evrópu og Mið-Austurlanda. Þessi þjóð hefur einnig þurft að sæta miklum þjáningum og ber þar helst að nefna þjóðernishreinsanir sem Ottómanar (Tyrkir) hófu 1915 og var yfir milljón Armena drepin í fordæmalausri þjóðernishreinsun. Hún er ástæða þess að talið er að um sex til tíu milljónir afkomenda Armena búa um heim allan. Það er óhjákvæmilegt að fyllast sorg er maður skoðar fjöldamorðssafnið í Yerevan sem sýnir þau ódæðisverk sem þjóðin þurfti að sæta.

Minnismerki fyrri tíma

Þessi sorgarsaga dregur þó ekki úr fegurð landslagsins og er í þessu mikla fjalllendi að finna ótal hamra og klettaveggi. Á toppi eins þeirra er musteri frá fyrstu öld þaðan sem hægt er að sjá hið mikla Garni-gljúfur. Garni musterið var reist af konungnum Tiridates fyrsta til heiðurs Mihr, guði sólarinnar. Því var hins vegar breytt í konunglegt sumarhús eftir kristnitöku.

Armenar voru fyrsta þjóðin til þess að taka kristni sem opinbera trú og gerðu þeir það um aldamótin 300 eftir Krist. Kristni á sér þó lengri sögu á svæðinu og segir sagan að tveir postular Krists, þeir Bartólómeus og Júdas Taddeus, kæmu til Armeníu og stofnuðu armensku kirkjuna samhliða trúboði sínu um miðja fyrstu öld. Eru því víðsvegar kirkjur og musteri um landið, þær elstu oft grafnar inn í fjallshlíðar og hafa síðar verið reistar stórfenglegar kirkjubyggingar og virki á þessum stöðum.

Ljósberinn

Meðal þess sem verður að sjá er Geghard klaustrið sem er á lista UNESCO, það var stofnað á fjórðu öld af Gregor ljósbera sem sagður er hafa árið 301 formlega fengið þjóðina til þess að snúa baki við heiðinni trú. Fyrsta klaustrið var lagt í eyði af aröbum á níundu öld, en helgi svæðisins hélt þó gildi sínu þar sem hellarnir sem liggja inn í fjallið sem umlykur Geghard hafa verið nýttir til trúarlegra athafna svo öldum skiptir jafnvel fyrir kristnitöku. Helgasti staðurinn er hellir þar sem rennur lind úr fjallinu sem umlykur musterið. Kapellan sem stendur í dag var reist 1215, en hellarnir eru enn aðgengilegir.

Nafn klaustursins, Geghardavank, þýðir klaustur spjótsins og vísar til þess að það var reist til þess að geyma spjótið sem sagt er hafa verið stungið í Krist við krossfestinguna. Sagan segir að Júdas Taddeus hafi komið með spjótið til Armeníu á ferð sinni um svæðið, en munurinn er nú geymdur í hirslum armensku kirkjunnar í Etchmiadzin.

Flogið í klaustur

Víða um landið er að finna miklar menningarminjar sem tengjast trúarlegum arfi Armena í stórfenglegu umhverfi. Tatev klaustrið var fyrst stofnað á áttundu öld og stendur á kletti sem horfir yfir djúpan dal og rennur Vorotan-á eftir honum. Til þess að komast að klaustrinu er ferðast með lengsta kláf í Evrópu, Vængjum Tatev. Svifstrengurinn er 5,7 kílómetra langur og meðan á ferðinni stendur hangir kláfurinn hæst 320 metra yfir jörðu.

Það er í raun sérkennilegt hvað þessi mörgu klaustur og kirkjur standa á afskekktum stöðum sem óneitanlega hefur verið erfitt að komast að á fyrri tímum. Í þröngu gljúfri sem hefur orðið til við að Amaghu-áin hefur í gegnum árþúsundin rofið jarðveginn og klofið fjallgarð, er að finna Noravank, eða Nýja-klaustur, sem reist var í byrjun þrettándu aldar.

Með stærstu vötnum

67 kílómetra frá höfuðborginni er Sevan-vatn sem er helsti áfangastaður Armena að sumri. Vatnið er með stærstu hálendisvötnum í heimi og þekur 1.240 ferkílómetra, til samanburðar er Þingvallavatn aðeins 84 ferkílómetrar að stærð. Sevan-vatn er umkringt fjöllum og er um þúsund metrum hærra yfir sjávarmáli en höfuðborgin, eða 1.900 metra. Sökum þess að vatnið er í þessari miklu hæð og að í það rennur tært og kalt fjallavatn tekur talsverðan tíma fyrir vatnið að hitna og er ágúst vinsælasti tíminn til þess að nýta sér strendurnar.

Aðeins ein eyja er í vatninu, en hún varð að skaga eftir að Jósef Stalín skipaði fyrir að tæma skyldi vatnið og lækkaði vatnshæðina um 20 metra. Á skaganum er að finna klaustur, eins og víða um landið. Sevanavank var stofnað árið 874 eftir Krist og fer þar enn fram helgihald. Klaustrið var fram að 20. öld aðeins fyrir þá munka sem töldust hafa syndgað.

Andstæður

Landið er mjög frjálslynt ef borið er saman við nágranna sína, sérstaklega Íran og Aserbaísjan. Þá er lág glæpatíðni og er óhætt að ganga á götum Yerevan síðla kvölds og þar er mikill fjöldi bara, kaffi- og veitingahúsa. Hins vegar ber að hafa í huga ákveðna menningarlega viðkvæma þætti svo sem að ríkjandi eru nokkuð hefðbundnari gildi en við eigum að venjast í Vestur-Evrópu. Í landinu er framleitt talsvert af víni og er hægt að finna fyrirtaks vínbari, en Armenar eru hugsanlega stoltastir af brandí-framleiðslu sinni, einkum Ararat-brandíinu.

Eftirtektarvert er að miklar andstæður eru í samfélagi Armena bæði milli fátæktarinnar á landsbyggðinni og ríkidæmisins á verlsunargötum Yerevan. Einnig má sjá sérkennilega blöndu nútímans og einkenni Sovétríkjanna, má meðal annars nefna að alls ekki er ólíklegt að verða var við talsverðan fjölda af Lödum á götum landsins.

Armenía tekur við um 1,5 milljónum gesta á ári hverju og eru það helst Rússar, Íranar og Bandaríkjamenn. Ekki er ólíklegt að íbúar landsins taki upp á því að tala við Íslending á rússnesku og verða nokkuð hissa að frétta að einhver sem ekki er af armenskum mættum hafi komið til Armeníu. Þá er algengt að fá spurninguna: „Af hverju Armeníu?“ Þessi spurning er ekki síður algeng þegar maður hittir fólk hér á landi. Á móti má spurja: „Af hverju ekki?“