Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Á hestum kennt við konung er. Á kletti líkt og trjóna. Einstaklingur er einn hér. Oft með víða slóna. Sigmar Ingason svarar: Klárinn minn óð kelduna í konungsnef. Karlugla á Hraunsnefi fékk nasakvef.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Á hestum kennt við konung er.

Á kletti líkt og trjóna.

Einstaklingur er einn hér.

Oft með víða slóna.

Sigmar Ingason svarar:

Klárinn minn óð kelduna í konungsnef.

Karlugla á Hraunsnefi fékk nasakvef.

Kappi forn varð kenndur af nefi sínu.

Tóbakskorn í slóna taldist bót við pínu.

Eysteinn Pétursson leysir gátuna þannig:

Kjúka á hesti er konungsnef.

Kletti fram úr skagar nef.

Á fundi töldust fjórtán nef.

Feikna sló hefur voldugt nef.

Helgi Seljan á þessa lausn:

Konungsnef hylli knapans vann,

klettasnös má oft nefi flíka.

Nefskattur mörgum nýtast kann,

neftóbaksslóin fyllist líka.

Guðrún Bjarnadóttir leysir gátuna þannig:

Hnakka kóngsnef hefja.

Hugrökk stefn'á klettsnef

í hópi 19 nefja.

Nös því víða ég hef.

Helgi R. Einarsson er kominn heim frá Berlín og hér er lausnin:

Þó í mér sé lítið lið

og löngum bresti vitið

ég nef í kvæði kannast við

og konungsnef á hesti.

Þessi er skýring Guðmundar:

Konungsnef á hesti hækill er.

Á hamri nefið skagar eins og trjóna.

Á nef hvert lagður tollur tíðum hér.

Á tóbaksmanni er nef með víða slóna.

Þá er limra:

Hann Loftur, sem langt hafði nef

sagði: „Lagsmaður, heyrðu mig, ef

mitt nef er sagt langt,

er það lygi og rangt“,

svo kvað Loftur, sem langt hafði nef.

Síðan kemur ný gáta eftir Guðmund:

Sól á himni brosir blíð,

blessun veitir ár og síð,

glaðvaknaður gríp ég blað,

gátuvísu sem á það:

Nú um tíma talað er.

Tíðum kvenna verkur.

Bardagi þín bíður hér.

Bylur firna sterkur.

Sigurður Bjarnason Katadal orti:

Siglutrafið sérlundar

súgur vafa skekur

út á hafið eilífðar

önd þá kafa tekur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is