Búrfell Orkumálin eru umdeild og hvernig regluverk þeirra skuli vera.
Búrfell Orkumálin eru umdeild og hvernig regluverk þeirra skuli vera. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjörtur J.

Hjörtur J. Guðmundsson

Sigurður Bogi Sævarsson

„Mér þykir nú nokkuð sérstakt að á þessum tímapunkti skuli ríkisstjórnin sjá ástæðu til þess að kaupa lögfræðiálit frá útlöndum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is um orkukupakkamálið. Umræður hafa skapast um það sjónarmið Carls Baudenbachers, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem segir í lögfræðiáliti fyrir utanríkisráðuneytið sem birt er á vef þess að til lengri tíma litið gæti höfnun Íslands á þriðja orkupakkanum teflt í tvísýnu aðild landsins að EES-samningnum.

Sýna hollustu í EES

Baudenbacher segir þá skoðun uppi í Noregi að á EES-samninginn eigi að líta sem tvíhliða samning milli Norðmanna og Evrópusambandsins. Þar séu Íslendingar og Liechtensteinar í eins konar aukahlutverki. Ekki sé hægt að útiloka að hafni Íslendingar þriðja orkupakkanum geti Noregur samið tvíhliða við Evrópusambandið um orkumál. Þar með gæti aðild Íslands að EES-samningnum til lengri tíma verið í uppnámi. Íslandi beri því að sýna Noregi og Liechtenstein hollustu í EES-samstarfinu. Baudenbacher telur litlar líkur á að Ísland fái undanþágu frá þriðja orkupakkanum ef málið fari aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar komi til þess að Ísland hafni stjórnskipunarlegum fyrirvörum sem um pakkann gilda.

Samstillt átak

Um álitsgerð Baudenbachers segist Sigmundur Davíð telja hana hafa verið hluta af samstilltu átaki í vikunni í þágu samþykktar þriðja orkupakkans. Að fara þá leið veki ýmsar spurningar. Til dæmis varðandi meðferð á skattfé og að stjórnvöld noti slíkar aðferðir á þessu stigi málsins.

Hvað stöðu þriðja orkupakkans varðar segir formaður Miðflokksins það nú vera óumdeilt að Ísland hafi þann rétt samkvæmt EES-samningnum að neita að aflétta stjórnskipunarlegum fyrirvara af löggjöfinni. „Hins vegar er umræðan núna komin yfir í það að til þess að styggja ekki Norðmenn eða Evrópusambandið eða einhverja aðra þá eigum við að líta framhjá þessum rétti okkar. Sem aftur sýnir, hafi einhverjir haft efasemdir, að þetta er í eðli sínu fullveldismál.“

Snýst um smáatriði

Carl Baudenbacher sat fund utanríkismálanefndar Alþingis síðastliðinn fimmtudag, en þar voru miðflokksmenn ekki mættir. Vakti fjarvera þeirra athygli, en um málið segir Sigmundur Davíð á almennum nótum að hægt sé að skrifa fréttir daglega ef það teljist frétt ef fulltrúi hins eða þessa flokksins mæti ekki á fundi í nefndum. Sjálfur segist hann ekki hafa vitað af umræddum fundi í utanríkismálanefnd – aðeins vitað að funda hefði átt í gær, föstudag.

„Þannig að þau hafa greinilega viljað halda þessu útspili sínu leyndu. Þingflokkur Miðflokksins var allur í húsi á ýmsum fundum á þessum tíma og ef boð hefði komið í tæka tíð hefðum við örugglega viljað mæta þarna,“ segir Sigmundur Davíð sem telur það segja sitt um málstaðinn ef umræðan eigi að snúast um þetta smáatriði.

Segja ákvæði orkupakkans ekki eiga við á Íslandi

Stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, það er þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, hafa ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar. Þetta segir í yfirlýsingu Íslands, Noregs og Liechtenstein en í vikunni var lögð fram sameiginleg yfirlýsing landanna þar sem sérstaða Íslands á innri raforkumarkað ESB er áréttuð. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnti yfirlýsinguna í ríkisstjórn í gær. Undirstrikað er að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð EFTA-ríkjanna í EES yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa á milli þessara ríkja og orkukerfis innri markaðar ESB væru ávallt á forræði ríkjanna sjálfra.

Þá er ítrekað í textanum að verði samtengingu raforkukerfanna komið á í framtíðinni úrskurðaði Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um ágreiningsmál varðandi Ísland en ekki samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER). Það fyrirkomulag sé nú þegar til staðar í tilvikum Noregs og Liechtenstein enda í fyllsta samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.