Einbeiting Þórarinn Ingi Valdimarsson með boltann en Kári Pétursson, sem kom snemma inn á hjá HK vegna meiðsla, verst.
Einbeiting Þórarinn Ingi Valdimarsson með boltann en Kári Pétursson, sem kom snemma inn á hjá HK vegna meiðsla, verst. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kaplakriki/ Garðabær/Árbær Andri Yrkill Valsson Jóhann Ingi Hafþórsson Bjarni Helgason Það er óhætt að segja að um fátt verði meira rætt en dómgæsluna eftir leik FH og KA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í gær, en fyrstu þrír leikir þriðju umferðar...

Kaplakriki/

Garðabær/Árbær

Andri Yrkill Valsson

Jóhann Ingi Hafþórsson

Bjarni Helgason

Það er óhætt að segja að um fátt verði meira rætt en dómgæsluna eftir leik FH og KA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í gær, en fyrstu þrír leikir þriðju umferðar fóru þá fram. FH marði þá 3:2 sigur í Kaplakrika og er enn ósigrað í deildinni eftir tvo sigra og eitt jafntefli.

Óánægjan með dómgæsluna kemur úr báðum áttum, en þó sérstaklega frá KA-mönnum enda virtust þeir rændir augljósri vítaspyrnu í uppbótartíma þegar Sæþór Olgeirsson var togaður niður af fyrrverandi KA-manninum Guðmanni Þórissyni. Hreint galið að horfa framhjá því og það á ögurstundu. Fyrr í leiknum höfðu FH-ingar svo verið hundfúlir að fá ekki víti þegar brot var dæmt utan teigs sem virtist fyrir innan, en þeir fengu þó víti upp úr því og voru því ekki eins yfirlýsingaglaðir um dómgæsluna eftir leik.

Það má hins vegar taka undir með Ólafi Kristjánssyni, þjálfara FH, sem sagði það hundfúlt að dómgæslan skyldi vera aðalumræðuefnið eftir svona skemmtilegan fótboltaleik. Hann var það svo sannarlega og flottir taktar sáust á báða bóga. FH-ingar pressuðu mun meira og hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk, sérstaklega í fyrri hálfleik, en KA-menn komust vel í takt við leikinn eftir hlé og uppskáru tvö góð mörk.

Gunnar Nielsen, markvörður FH, fór á slysadeild eftir að hafa meiðst á hendi í leiknum og er það áhyggjuefni fyrir Hafnfirðinga ef hann verður frá. Halldór Orri Björnsson stimplaði sig vel inn með tveimur mörkum og þá stjórnaði Björn Daníel Sverrisson sóknarspilinu af stakri snilld. Hjá KA kemur allt sóknarspil frá Hallgrími Mar Steingrímssyni, sem skoraði flott mark úr aukaspyrnu, en liðið barðist saman sem heild. Nú er spurning hvernig norðanmenn taka mótlætinu sem mætti þeim, en ljóst er að þeir munu gera öllum liðum erfitt fyrir í sumar.

Glæsimark Hilmars

Stjarnan vann sinn fyrsta leik í sumar er HK kom í heimsókn í Garðabæinn. Lokatölur urðu 1:0, þar sem huggulegt mark Hilmars Árna Halldórssonar réð úrslitum. Hilmar fékk boltann rétt utan vítateigs HK-inga og sneri honum snyrtilega í bláhornið fjær snemma í seinni hálfleik.

Sigur Stjörnumanna var verðskuldaður gegn bitlausum HK-ingum og nægði heimamönnum þokkaleg frammistaða. Stjarnan spilar eflaust betur í einhverjum leikjum í sumar og tapar. Spilamennska HK var ekki upp á marga fiska og nokkur skref til baka, eftir góðan leik gegn Breiðabliki í síðustu umferð. Leikmenn HK virtust feimnir gegn sterku liði Stjörnunnar og hafði Haraldur Björnsson lítið sem ekki neitt að gera í markinu hjá Stjörnunni. HK þarf að læra að spila betur á útivöllum í sumar ef ekki á illa að fara. Emil Atlason var einmana í framlínunni og ekki bætti úr skák að Arnþór Ari Atlason og Bjarni Gunnarsson fóru meiddir af velli í fyrri hálfleik.

Sigur Stjörnunnar hefði getað orðið stærri, þar sem Guðmundur Steinn Hafsteinsson fékk nokkur mjög góð færi. Minna fór fyrir Guðjóni Baldvinssyni en oft áður og voru það ungir leikmenn á miðjunni sem heilluðu helst hjá Stjörnunni. Þar réðu þeir Þorri Geir Rúnarsson og Alex Þór Hauksson ríkjum en reynsluboltarnir Baldur Sigurðsson og Eyjólfur Héðinsson byrjuðu á bekknum. Það verður spennandi að sjá hvort þeir ungu haldi þeim gömlu á bekknum í sumar.

Kolbeinn með skýr skilaboð

Breiðablik vann sannfærandi 3:1-sigur gegn Víkingi á Würth-vellinum í Árbæ. Blikar léku í heimaleik sinn í Árbænum í gær þar sem verið er að leggja gervigras á Kópavogsvöll og var völlurinn ekki tilbúinn í gær.

Kolbeinn Þórðarson kom Blikum yfir strax á 11. mínútu en Nikolaj Hansen jafnaði metin fyrir Víkinga mínútu síðar. Kolbeinn var aftur á ferðinni á 42. mínútu áður en Höskuldur Gunnlaugsson innsiglaði sigur Breiðabliks með skalla á 65. mínútu.

Leikmenn Breiðabliks mættu svo sannarlega tilbúnir til leiks. Þeir pressuðu Víkinga stíft út um allan völl og gáfu þeim engan tíma með boltann. Blikar lögðu allt í leikinn og þetta var fyrst og fremst vinnusigur hjá afar sprækum Kópavogsbúum. Kolbeinn var frábær í liði Blika en hann sendi Ágústi Gylfasyni svo sannarlega skýr skilaboð með frammistöðu sinni í gær en Kolbeinn hafði byrjað fyrstu tvo leiki Blika í deildinni í sumar á bekknum.

Það gekk fátt upp hjá gestunum úr Víkinni. Þeim gekk afar illa að spila sig út úr pressu Blika og miðjuspil liðsins var heillum horfið. Pressa Blika varð til þess að Víkingar þurftu mikið að reyna langa bolta fram völlinn á Nikolaj Hansen sem hefur einfaldlega ekki hraðann til þess að stinga sér inn fyrir varnir andstæðinganna. Víkingar áttu engin svör við leikstíl Breiðabliks í gær og það var ekkert sem benti til þess, allan leikinn, að þeir myndu sækja sér stig úr leiknum.

Blikar svöruðu svo sannarlega dapurri frammistöðu gegn HK í 2. umferð með sigrinum í gær en Víkingar þurfa plan B ef þeir ætla sér að fá eitthvað út úr leikjum þar sem þeir eru stífpressaðir.

FH – KA 3:2

1:0 Halldór Orri Björnsson 6.

1:1 Hallgrímur Mar Steingríms. 52.

1:2 Elfar Árni Aðalsteinsson 65.

2:2 Björn Daníel Sverris. 75. (víti)

3:2 Halldór Orri Björnsson 87.

Gul spjöld

Björn Daníel, Guðmann, Guðmundur og Pétur (FH), Ýmir, Hrannar, Haukur, Torfi, Óli Stefán þjálfari, Jajalo varamaður (KA).

M

Atli Guðnason (FH)

Björn Daníel Sverrisson (FH)

Guðmundur Kristjánsson (FH)

Halldór Orri Björnsson (FH)

Jónatan Ingi Jónsson (FH)

Callum Williams (KA)

Daníel Hafsteinsson (KA)

Elfar Árni Aðalsteinsson (KA)

Hallgrímur Mar Steingríms. (KA)

Dómari:

Einar Ingi Jóhannsson, 4.

Áhorfendur : 921.

STJARNAN – HK 1:0

1:0 Hilmar Árni Halldórsson 54.

Gul spjöld

Þorri Geir Rúnarsson, Þórarinn Ingi Valdimarsson (Stjörnunni), Ólafur Örn Eyjólfsson, Atli Arnarson, Aron Kári Aðalsteinsson (HK).

M

Þorri Geir Rúnarsson (Stjörnunni)

Hilmar Árni Halldórsson (Stjör.)

Heiðar Ægisson (Stjörnunni)

Alex Þór Hauksson (Stjörnunni)

Arnar Freyr Ólafsson (HK)

Leifur Andri Leifsson (HK)

Kári Pétursson (HK)

Dómari:

Guðmundur Ársæll Guðmundsson, 8.

Áhorfendur : 768.

BREIÐABLIK – VÍKINGUR R. 3:1

1:0 Kolbeinn Þórðarson 11.

1:1 Nikolaj Hansen 12.

2:1 Kolbeinn Þórðarson 43.

3:1 Höskuldur Gunnlaugsson 66.

Gul spjöld

Kolbeinn Þórðarson og Arnar Sveinn Geirsson (Breiðabliki).

MM

Kolbeinn Þórðarson (Breiðabl.)

M

Höskuldur Gunnlaugsson (Brei.)

Arnar Sveinn Geirsson (Breiðabl.)

Guðjón Pétur Lýðsson (Breiðabl.)

Elfar Freyr Helgason (Breiðabliki)

Jonathan Hendrickx (Breiðabliki)

Alexander H. Sigurðarson (Brei.)

Sölvi Geir Ottesen (Víkingi)

Rick ten Voorde (Víkingi)

Nikolaj Hansen (Víkingi)

Ágúst Eðvald Hlynsson (Víkingi)

Dómari:

Þorvaldur Árnason, 7.

Áhorfendur : 1.057.