Sigrún Óskarsdóttir fæddist 1. janúar1935. Hún andaðist 16. apríl 2019.

Útförin fór fram 10. maí 2019.

Fallin er hjartans fögur rós

og föl er kalda bráin.

Hún sem var mitt lífsins ljós

ljúfust allra er dáin.

Drjúpa hjóðlát tregatárin

og tómið fyllir allt.

Ekkert sefar hjartasárin

í sálu andar kalt.

Þögul sorg í sál mér næðir,

sár og vonar myrk

en Drottinn ætíð af gæsku græðir

og gefur trúarstyrk.

Hnípin vinur harmi sleginn,

hugann lætur reika.

Kannski er hún hinumegin

í heilögum veruleika.

Þú ert laus frá lífsins þrautum

og liðin jarðarganga.

En áfram lifir á andans brautum

ævidaga langa.

Heimur bjartur bíður þar

og bráðum kem ég líka.

Þá verður allt sem áður var

er veröld finnum slíka.

Drottinn verndar dag og nótt

á dularvegi nýjum.

Aftur færðu aukinn þrótt

í eilífð ofar skýjum.

Þú alltaf verður einstök rós,

elsku vinan góða.

Í krafti trúar kveiki ljós

og kveðju sendi hljóða.

(Jóna Rúna Kvaran)

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Ágústs Óskars, Önnu Þórdísar, Eddu Bjarkar og annarra ástvina.

Blessuð sé minning Sigrúnar Óskarsdóttur.

Jóhanna B. Magnúsdóttir.