Baldur Arnarson baldura@mbl.is Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, kallar eftir úttekt á meintu einelti hjá Félagsbústöðum. „Við þurfum að fá málið á borð borgarinnar.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, kallar eftir úttekt á meintu einelti hjá Félagsbústöðum.

„Við þurfum að fá málið á borð borgarinnar. Annaðhvort þarf stjórn Félagsbústaða að axla ábyrgð með því að kanna þessi mál til hlítar eða að borgin sem eigandi geri það.“

Tilefnið er umfjöllun í laugardagsblaði Morgunblaðsins en þar lýstu þrír fyrrverandi starfsmenn Félagsbústaða vanlíðan sem þeir rekja til framkomu Auðuns Freys Ingvarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins. Einn fullyrti að um einelti hefði verið að ræða en hinir tveir telja rétt að fagfólk meti það.

Umræddum starfsmönnum var sagt upp störfum hjá Félagsbústöðum en Auðun Freyr hætti sl. haust.

Sendi formlega kvörtun

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir rétt að mannauðsdeild borgarinnar kanni málið. „Þessir einstaklingar eiga að senda formlega kvörtun og í kjölfarið á að rannsaka málið. Þetta er fyrirtæki í eigu borgarinnar.“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir að innan borgarkerfisins hafi verið vitneskja um meint einelti hjá Félagsbústöðum.

„Málið var þaggað niður. Sagt var að ekkert einelti væri í gangi hjá fyrirtækinu. Þetta væru aðeins dylgjur hjá starfsmönnum og um að ræða árásir gegn félaginu.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri baðst undan viðtali. Sagði „eðlilegt að ræða starfsmannamál við fyrirtækið“. Þá sögðust Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, ekki hafa upplýsingar til að tjá sig um málið að svo stöddu.