Snorri Másson snorrim@mbl.is Lokaatkvæðagreiðsla um stjórnarfrumvarp um þungunarrof, sem heimilar slíkar aðgerðir fram til 22. viku meðgöngu, er á dagskrá Alþingis í dag en atkvæðagreiðslunni var frestað í síðustu viku.

Snorri Másson

snorrim@mbl.is

Lokaatkvæðagreiðsla um stjórnarfrumvarp um þungunarrof, sem heimilar slíkar aðgerðir fram til 22. viku meðgöngu, er á dagskrá Alþingis í dag en atkvæðagreiðslunni var frestað í síðustu viku.

Eins verða greidd atkvæði um tvær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við frumvarpið, eina sem kveður á um að mörkin liggi í 20 vikum og aðra um að mörkin liggi í 18 vikum.

Meirihluti velferðarnefndar þingsins hefur lagt til að frumvarpið verði samþykkt.

Í umræðuþættinum Þingvöllum á K100 í gær hvatti Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, þingmenn til þess að sýna varúð og taka sér meiri tíma til að gaumgæfa málið, líkt og Siðfræðistofnun HÍ hefði þegar lagt til í sinni umsögn. „Það er alls engin samfélagsumræða búin að fara fram um þetta, að mínum dómi,“ sagði hún.

Í samtali við Morgunblaðið kvaðst hún auk þess túlka málið sem svo að verið væri með frumvarpinu að ganga lengra en gert er annars staðar á Norðurlöndum.

„22 vikur eru mörkin sem eru dregin til þess að maður geti verið viss um að fóstrið sé ekki lífvænlegt, ekki einu sinni með gjörgæslumeðferð,“ sagði Sigurlaug Benediktsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, sem einnig var gestur í þættinum. Hún sagði að árleg tilfelli þess að þungunarrof ættu sér stað svona seint á meðgöngu væru teljandi á fingrum annarrar handar. 3-5 konum á ári væri meinað að rjúfa meðgöngu eftir 16 vikur. Þar liggja mörkin nú.

Herdís Þorgeirsdóttir, mannréttindalögmaður og varaforseti Feneyjanefndar Evrópuráðsins, var gestur í þættinum. Hún sagði að þegar kæmi að því að skilgreina réttinn til lífs „treysti Mannréttindadómstóll Evrópu sér ekki til þess að setja fram abstrakt skilgreiningu á því hvort fyrir hendi sé réttur til lífs“.

Hún sagði Mannréttindadómstólinn gefa aðildarríkjum sínum ákveðið svigrúm til lagasetningar, svo þau megi skilgreina mörkin sjálf, þ.e. hvenær fóstur öðlist réttinn til lífs. Því væri Íslandi samkvæmt því frjálst að setja þessar reglur um svigrúm til fóstureyðinga fram til 22. viku. Herdís tók samt í sama streng og Sólveig Anna og lagði auk þess til að svigrúm yrði veitt til undanþága frá lögunum þegar nauðsyn krefði, frekar en að lagabókstafnum sjálfum yrði breytt, eins og stendur til.

Fóstureyðing/þungunarrof?

Í frumvarpinu er ævinlega talað um þungunarrof. Sólveig Anna benti á að það orð væri um sumt meira í takt við orðanotkun erlendis, eins og á ensku þar sem talað er um „abortion“. Hins vegar þyki sumum að orðið þungunarrof „dylji það sem fram fer“ og sagði Sólveig að því væri „fóstrið ekki nálægt í þessu frumvarpi. En það er það náttúrlega í þessu máli.“