Elín Þórðardóttir
Elín Þórðardóttir
Eftir Elínu Þórðardóttur: "Vilja menn virkilega að fjórir einstaklingar í stjórn geti tekið svo afdrifaríkar ákvarðanir um rekstur sjóðsins?"

Það eru spennandi tímar hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum. Tímar umbreytinga og framtíðarpælinga. Stjórn Frjálsa hefur unnið ötullega að því að hrinda í framkvæmd samþykktum síðasta ársfundar og það endurspeglast í tillögum stjórnar fyrir ársfundinn í dag mánudag 13. maí. Þar er lögð til sú meginbreyting að heiti rekstraraðila sem jafnan hefur verið í samþykktum sjóðsins frá upphafi, verði tekið út úr þeim.

Engum blöðum er um það að fletta að verið er að gera sjóðinn óbundinn núverandi rekstraraðila, Arion banka. Þar á ofan eru nú allir stjórnarmenn kjörnir af sjóðfélögum sjálfum. Þar með lýkur því tímabili að bankinn skipi minnihluta stjórnar. Það kann vel að vera að á komandi árum telji stjórn sjóðsins hag hans betur borgið með sjálfstæðum rekstri eða með sameiningu við annan sjóð sem er með sjálfstæðan rekstur. Mögulega verður sjóðurinn of stór til að geta verið með banka sem rekstrarlegt bakland.

En mikilvægasta verkefnið verður ætíð að standa vörð um lífeyrissparnaðinn, ávaxta hann með traustum hætti og greiða lífeyri. Allar meiriháttar ákvarðanir um skipan sjóðsins verður því að taka af yfirvegun og á þann hátt að traustur vilji sjóðfélaga búi að baki en ekki einstaka upphlaup.

Frá stofnun sjóðsins 1978 hefur verið tilgreint í samþykktum hans hver sé rekstraraðili sjóðsins. Það er algjör afbökun á sannleikanum, sem haldið hefur verið fram, að stjórn leggi fram tillögu um að festa sjóðinn hjá Arion banka með því að það þurfi 2/3 hluta atkvæða á ársfundi til að breyta um rekstraraðila. Þannig eru samþykktir sjóðsins í dag, að það þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að skipta um rekstraraðila vegna þess að Arion banki er tilgreindur í samþykktum sem rekstraraðili sjóðsins. Stjórnin leggur hinsvegar til að nafn bankans verði tekið úr samþykktunum en að stjórn hafi heimild til að semja við rekstraraðila um daglegan rekstur sjóðsins. Það er mikilvægt ákvæði í tillögu stjórnar að hafa valdið áfram hjá sjóðfélögum ef breyta á rekstrarfyrirkomulagi eða skipta um rekstraraðila.

Vilja menn virkilega að fjórir einstaklingar í stjórn geti tekið svo afdrifaríkar ákvarðanir um rekstur sjóðsins? Ég hef ekki trú á því.

Rafrænar kosningar framundan

Sjóðfélagalýðræði hefur verið ofarlega á blaði í stjórn Frjálsa. Meðal annars er fullur vilji til þess að auka möguleika sjóðfélaga til áhrifa með rafrænum kosningum. Lagt er til að stjórn hafi þá heimild að efna til rafrænna kosninga. Á hinn bóginn þarf að vanda mjög til slíkra kosninga og reynslan sýnir að upp geta komið hnökrar sem skapa tortryggni varðandi slíkt kosningafyrirkomulag. Stjórnin er einhuga í því að stefna að rafrænum kosningum en vill halda þeim möguleika opnum að viðhafa hefðbundna kosningu sem útgönguleið komi eitthvað upp á. Það er skynsamlegt og varfærnislegt en fullur vilji er til þess að rafrænar kosningar meðal sjóðfélaga verði það sem koma skal.

Ávöxtun Frjálsa stenst samanburð

Í grein frambjóðenda til stjórnarkjörs og á síðasta ársfundi hefur verið stillt upp samanburði á kostnaði Frjálsa lífeyrissjóðsins og Almenna lífeyrissjóðsins. Beinn kostnaður sjóðanna var sambærilegur 2018, 0,33% af eignum hjá Frjálsa og 0,30% hjá Almenna og munaði því aðeins 0,03 prósentustigum. Mismunur á óbeinum kostnaði, sem felur í sér kostnað vegna fjárfestinga í sjóðum, skýrist fyrst og fremst af mismunandi áherslum sjóðanna í eignastýringu hverju sinni.

Ávöxtun sjóðsins hefur verið góð undanfarin ár. Síðastliðið eitt ár er ávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins 8,2%-14,1%, sl. 5 ár 5,8%-8,9% og sl. 10 ár 7,2%-10,7% á ársgrundvelli.

Stærsti hluti kostnaðar Frjálsa er umsýsluþóknun til Arion banka fyrir rekstur sjóðsins. Andvirði umsýsluþóknunarinnar hefur bankinn m.a. nýtt til að sinna öflugu markaðs- og sölustarfi fyrir sjóðinn, svo og allri annarri starfsemi fyrir sjóðinn. Hefur það gengið mjög vel því sjóðurinn hefur stækkað hlutfallslega meira en lífeyriskerfið í áraraðir og tæplega tvöfalt fleiri greiða skylduiðgjald í Frjálsa en Almenna að meðaltali í hverjum mánuði, um 15.400 manns í Frjálsa en 8 þúsund í Almenna miðað við árið 2018. Það er markmið sjóðsins að lækka hlutfallslegan kostnað og mun það gerast hraðar eftir því sem sjóðurinn stækkar meira. Það sem skiptir hinsvegar aðalmáli fyrir sjóðfélaga er ávöxtun sjóðfélaga og hvaða lífeyri hann fær fyrir iðgjöldin sín. Hvort sem horft er til 10 ára eða 15 ára er ávöxtun Frjálsa hærri í öllum fjárfestingarleiðum heldur en hjá Almenna.

Frelsi til að velja skiptir máli

Sjóðfélagar Frjálsa velja að greiða í sjóðinn og eru ekki undir neinni nauðung. Líki þeim ekki starfsemi sjóðsins, þá geta þeir hvenær sem er ákveðið að greiða iðgjöld í annan sjóð og flutt séreign sína úr sjóðnum. Það er þetta frelsi sem vísað er til í nafni sjóðsins og það hefur skipt miklu máli í þróun lífeyriskerfisins á Íslandi. Um 60 þúsund sjóðfélagar hafa valið að greiða í sjóðinn og enginn frjáls sjóður er með eins marga virka sjóðfélaga. Á síðasta ári völdu tæplega 23 þúsund sjóðfélagar að greiða iðgjöld til sjóðsins.

Ég vona að sem flestir sjái sér fært að mæta á ársfund Frjálsa og sækist eftir stuðningi í stjórnarkjöri. Það er mikill heiður að hafa notið trausts til þess að sinna stjórnarstörfum í Frjálsa. Á þeim vettvangi eru framundan mikilvæg og krefjandi verkefni sem ég býð mig fram til að sinna af kostgæfni.

Höfundur er stjórnarmaður í Frjálsa.