Skoraði Miðvörðurinn Óttar Bjarni með boltann í leiknum.
Skoraði Miðvörðurinn Óttar Bjarni með boltann í leiknum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FÓTBOLTINN Bjarni Helgason Kristján Jónsson Þórður Yngi Sigursveinsson Fylkismenn voru stálheppnir að sleppa með stig úr Vesturbænum þegar liðið heimsótti KR í 3.

FÓTBOLTINN

Bjarni Helgason

Kristján Jónsson

Þórður Yngi Sigursveinsson

Fylkismenn voru stálheppnir að sleppa með stig úr Vesturbænum þegar liðið heimsótti KR í 3. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í knattspyrnu á Meistaravöllum í gær. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Valdimar Þór Ingimundarson skoraði jöfnunarmark Fylkis í uppbótartíma eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 73. mínútu.

Pálmi Rafn Pálmason fékk upplagt tækifæri til þess að koma KR yfir strax á 16. mínútu þegar KR fékk vítaspyrnu en Aron Snær í marki Fylkis varði frá Pálma. Á 33. mínútu átti Óskar Örn Hauksson frábæra fyrirgjöf frá vinstri á Tobias Thomsen sem var einn og óvaldaður í markteig Fylkismanna og hann skoraði af stuttu færi, hans fyrsta mark í sumar fyrir KR. Það virtist allt stefna í sigur KR þegar Valdimar Þór fékk frábært færi til að jafna metin í uppbótartíma en Beitir Ólafsson í marki KR varði meistaralega frá honum og bjargaði í horn. Daði Ólafsson tók hornspyrnuna sem fór beint á fjærstöngina þar sem Valdimar var einn á auðum sjó. Valdimar gerði engin mistök og setti boltann yfir marklínuna af stuttu færi og liðin skiptu með sér stigunum.

KR-ingar gerðu mjög vel í 88. mínútur í leiknum í gær. Þrátt fyrir að þeir hafi fært sig aftar á völlinn í síðari hálfleik og leyft Fylkismönnum að vera með boltann voru þeir með fulla stjórn á leiknum. Fylkismenn sköpuðu sér ekki marktækifæri í 88. mínútur. Pressa KR í leiknum var mjög vel útfærð og leikmenn liðsins voru mjög samstiga, allan leikinn. Þeir ýttu Fylkismönnum í erfiðar stöður á vellinum og neyddu þá í langa og leiðinlega bolta fram völlinn, sem varnarmenn KR áttu auðvelt með að eiga við enda vindasamt í Vesturbænum í gær. Vesturbæingar fengu nokkur góð tækifæri til þess að gera út um leikinn með álitlegum skyndisóknum en alltaf klikkaði síðasta sendingin. KR-ingar misstu hins vegar einbeitinguna í nokkrar mínútur í gær, kannski vegna þess að yfirburðir þeirra í leiknum sjálfum voru það miklir, og það kostaði þá tvö stig.

Fylkismenn mættu ekki vel stemmdir til leiks en hvort það var leikmönnum liðsins að kenna eða þjálfarateyminu skal látið ósagt. Eftir á að hyggja stillti Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkismanna, upp vitlausu liði í gær. Fylkisliðinu gekk ekkert að spila sig út úr pressu KR-inga, þrátt fyri að þeir Ólafur Ingi Skúlason og Helgi Valur Daníelsson, djúpir miðjumenn Fylkis, hefðu verið mjög hreyfanlegir í leiknum. Kolbeinn Birgir Finnsson átti ekki góðan leik á hægri kantinum og var ekki í neinum takti við leikinn og sóknarleikur liðsins var eftir því. Geoffrey Castillion var rangur maður á röngum stað, mestallan leikinn, en hann var mikið í því að falla til baka og reyna að fá boltann í lappir í stað þess að koma sér inn í teiginn í þau fáu skipti sem Árbæingar fóru upp kantana og freistuðu þess að senda boltann fyrir.

KR-ingar mega ekki misstíga sig svona á lokamínútunum ef liðið ætlar sér að að blanda sér í alvörutoppbaráttu en vinnuframlag leikmanna liðsins var til fyrirmyndar í gær. Fylkismönnum fór að ganga betur þegar að þeir breyttu til og fóru í 3-5-2 leikkerfið og þjálfarar liðsins þurfa að bregðast hraðar við þegar liðið er undir á öllum sviðum leiksins eins og í Vesturbænum í gær því með réttu hefði KR átt að vera löngu búið að gera út um leikinn.

Risi rumskar

Knattspyrnurisinn ÍA rumskar nú svo hressilega í upphafi Íslandsmóts að það heyrist vel á höfuðborgarsvæðinu. Skagamenn fóru á Hlíðarenda á laugardagskvöldið og unnu Íslandsmeistarana síðustu tvö ár 2:1. Valsmenn hafa ekki lagt það í vana sinn að tapa heimaleikjum undir stjórn Ólafs Jóhannessonar. ÍA varð fyrsta liðið til að vinna Val á Hlíðarenda í deildinni síðan Breiðablik gerði það 15. september 2016. Valur hafði leikið tuttugu og fjóra deildarleiki á Hlíðarenda í röð án þess að tapa.

Valur hefur aðeins náð í eitt stig í fyrstu þremur umferðunum. Fyrir lið sem ætlar sér að berjast um titilinn setur þessi staða lið í talsverðan vanda í jafn stuttu móti og Íslandsmótið er. Hins vegar eru menn ekki búnir að spila frá sér Íslandsmótið með því að tapa tveimur leikjum að því gefnu að liðið finni taktinn og nái góðri sigurgöngu til að rétta sig af.

Eins og staðan er núna eru engar sérstakar vísbendingar um slíkt. Er það væntanlega vægt til orða tekið í ljósi þess að Valur hefur tapað þremur leikjum í röð í deild og bikar. Mér finnst liðið vanta útsjónarsaman og skapandi leikmann sem getur brotið upp varnir og gefið úrslitasendingar. Ekki síst í leikjum eins og gegn ÍA sem spilaði með fimm manna vörn. Valsmönnum gekk illa að opna þá vörn en liðið saknar auðvitað Kristins Freys Sigurðssonar og Sigurðar Egils Lárussonar í sókninni.

Liðið fékk á sig bæði mörkin eftir hornspyrnur Tryggva Hrafns Haraldssonar frá vinstri. Sá erfði spyrnugetu úr báðum ættum og getur matað samherjana við slíkar aðstæður. Skagamenn nýttu föstu leikatriðin vel og löng innköst Stefáns Teits Þórðarsonar sköpuðu einnig hættu. Flottur liðsbragur var á Skagaliðinu í leiknum og sigurinn var eftir atvikum sanngjarn.

ÍA er ekkert venjulegur nýliði í efstu deild. ÍA er risi í íslenski knattspyrnu hvort sem horft er til árangurs liðsins í gegnum áratugina eða alls þess fjölda Skagamanna sem spilað hafa landsleiki og orðið atvinnumenn. Á hliðarlínunni eru Jóhannes Karl Guðjónsson og sjálfur Sigurður Jónsson. Samanlagt búa þeir yfir aldarfjórðungsreynslu úr atvinnumennsku og þar er þekking sem vegur upp á móti því að leikmenn liðsins eru flestir blautir á bak við eyrun hvað toppbaráttu varðar.

Mörk í löngum uppbótartíma

Eyjamenn tóku á móti Grindvíkingum í fjörugum leik í 3. umferð Pepsi Max-deildarinnar á laugardag þar sem Eyjamönnum tókst að ná í sitt fyrsta stig í sumar. Leikurinn byrjaði á afar leiðinlega vegu því á 9. mínútu slasaðist Sigurjón Ragnarsson þegar hann ætlaði að skalla boltann en lenti illa á höfðinu í kjölfarið. Þar með lauk þátttöku hans og var hann fluttur á sjúkrahús.

Þegar kom að uppbótartíma í fyrri hálfleik þurfti að bæta við 21 mínútu. Á þeim tíma voru skoruð 3 mörk. Víðir Þorvarðarson braut ísinn með rosalegri aukaspyrnu beint upp í samskeytin og má segja að Eyjamenn hafi verið sáttir við að skora sitt fyrsta mark í deildinni. 5 mínútum síðar varð varnarmaðurinn Gilson Coelho fyrir því óhappi að skora sjálfsmark þegar hann hitti knöttinn illa. Á 21. mínútu í uppbótartímanum komust Eyjamenn aftur yfir þegar Guðmundur Magnússon potaði boltanum í Grindvíkinginn Marc McAusland og þaðan fór boltinn í mark Grindavíkur.

Í síðari hálfleik náðu Grindvíkingar svo að jafna metin þegar Aron Jóhannsson endurgerði markið hans Víðis með fallegri aukaspyrnu beint í samskeytin.

Liðin hættu ekki að sækja og voru Eyjamenn rosalega nálægt því að stela öllum stigunum en það tókst ekki. Leiknum lauk 2:2 og Eyjamenn sitja enn þá á botninum með eitt stig á meðan Grindvíkingar komu sér upp um eitt sæti og sitja nú í 9. sæti.

KR – FYLKIR 1:1

1:0 Tobias Thomsen 33.

1:1 Valdimar Þ. Igmundarson 90.

Gul spjöld

Björgvin Stefánsson (KR)

Daði Ólafsson (Fylki)

Ólafur Ingi Skúlaon (Fylki)

Ragnar Bragi Sveinsson (Fylki)

Rauð spjöld

Engin.

M

Aron Snær Friðriksson (Fylki)

Ari Leifsson (Fylki)

Valdimar Þór Ingimundars. (Fylki)

Daði Ólafsson (Fylki)

Finnur Orri Margeirsson (KR)

Gunnar Þór Gunnarsson (KR)

Óskar Örn Hauksson (KR)

Björgvin Stefánsson (KR)

Kennie Chopart (KR)

Dómari:

Helgi Mikael Jónasson, 3.

ÍBV – GRINDAVÍK 2:2

1:0 Víðir Þorvarðarson 45.

1:1 Sjálfsmark 45.

2:1 Sjálfsmark 45.

2:2 Aron Jóhannsson 60.

Gul spjöld

Castanheira (ÍBV)

Ngolok (ÍBV)

Alexander Veigar (Grindavík)

Rauð spjöld

Engin.

MM

Aron Jóhannsson (Grindavík)

M

Víðir Þorvarðarson (ÍBV)

Matt Garner (ÍBV)

Jonathan Franks (ÍBV)

Vladimir Tufegdzic (Grindavík)

Alexander V. Þórarins. (Grindavík)

Patrick N'Koyi (Grindavík)

Dómari:

Jóhann Ingi Jónsson, 8.

VALUR – ÍA 1:2

0:1 Óttar Bjarni Guðmundsson 21.

0:2 Arnar Már Guðjónsson 45.

1:2 Gary Martin 57. (víti)

Gul spjöld

Gary Martin (Val)

Andri Adolphsson (Val)

Hallur Flosason (ÍA)

Hörður Gunnarsson (ÍA)

Rauð spjöld

Engin.

MM

Óttar Bjarni Guðmundsson (ÍA)

M

Árni Snær Ólafsson (ÍA)

Einar Logi Einarsson (ÍA)

Marcus Johansson (ÍA)

Arnar Már Guðjónsson (ÍA)

Stefán Teitur Þórðarson (ÍA)

Tryggvi Hrafn Haraldsson (ÍA)

Bjarni Ólafur Eiríksson (Val)

Andri Adolphsson (Val)

Dómari:

Egill A. Sigurþórsson, 6.