[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Óskarsson fæddist 13. maí 1949 á Sjúkrahúsinu á Akureyri og ólst upp í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal. „Ég starfaði þar við ýmis störf, m.a. við sumarhótelið.

Ágúst Óskarsson fæddist 13. maí 1949 á Sjúkrahúsinu á Akureyri og ólst upp í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal. „Ég starfaði þar við ýmis störf, m.a. við sumarhótelið. Í æsku ætlaði ég mér lengi að verða bóndi og var með íslenskar hænur í mörg ár,“ en Ágúst var oft í sveit á sumrin og um páska í Máskoti í Reykjadal. Hann vann einnig á búgarði í Englandi 16 ára gamall sumarið 1965.

„Hugurinn hneigðist þó snemma að íþróttum og má finna í skúffum hjá mér eitthvað af verðlaunum sem ég hef hlotið fyrir þær í gegnum tíðina. Ég byrjaði um 11 ára aldur að kenna sund og þjálfaði frjálsar íþróttir og fótbolta öll sumur fyrir HSÞ og sá einnig um allmörg héraðsmót í frjálsum íþróttum fyrir bæði HSÞ og UNÞ.“

Ágúst gekk í Barnaskólann Litlu-Laugum, Héraðsskólann á Laugum 1963-1966, Gymnastikhøjskolen í Ollerup í Danmörku 1966-1967, Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni 1967-1968 og Samvinnuskólann á Bifröst 1970-1972.

Ágúst vann sumarið 1967 sem næturvörður og hótelstjóri á Hótel Akureyri og var framkvæmdastjóri fyrir Laugahátíð um verslunarmannahelgi í nokkur ár. Hann hóf kennslu sem íþróttakennari við Varmárskóla og Gagnfræðaskólann í Mosfellssveit árið 1968 og starfaði þar fyrst um sinn í tvö ár áður en hann hóf nám við Samvinnuskólann á Bifröst. Að því námi loknu sneri hann aftur til starfa við kennslu í Mosfellssveit árið 1972. „Á þessum árum kynntist ég konu minni, Helgu Sigurðardóttur, og hófum við búskap sem nú hefur staðið óslitinn í 42 ár.“

Árið 1983 hætti Ágúst kennslu og tók við stöðu framkvæmdastjóra íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu í nokkur ár. „Í framhaldi af því sneri ég mér alfarið að rekstri fyrirtækis okkar hjóna, Á. Óskarssyni ehf., sem við höfðum rekið samhliða öðrum störfum frá árinu 1976. Við það hef ég síðan starfað og geri enn ásamt Helgu og syni okkar, Heiðari Reyr, en fyrirtækið sérhæfir sig m.a. í búnaði og lausnum fyrir íþróttahús og sundlaugar.“

Ágúst var þjálfari hjá fimleikadeild KR og skipulagði og sá um fimleikasýningar á Suður- og Norðurlandi með sameinuðum fimleikaflokki karla hjá KR og Ármanni. Hann var í forsvari fyrir kvennaknattspyrnu Aftureldingar í allmörg ár og hlaut viðurkenningu fyrir þau störf. Hann var endurskoðandi bæjarreikninga Mosfellsbæjar. Hann var meðlimur í Félagi íslenskra stórkaupmanna, nú Félagi atvinnurekenda, meðlimur í Íslensk-kínverska viðskiptaráðinu, félagi í Oddfellow-reglunni IOOF stúku nr. 3, Hallveigu og meðlimur í Félagi frímerkjasafnara.

„Áhugamál mín eru íþróttir, stangveiði, frímerkjasöfnun, íslensk náttúra og ferðalög. Við hjónin höfum ferðast víða í gegnum árin bæði innanlands og erlendis, m.a. til Kína, Brasilíu og Egyptalands auk ýmissa ríkja við Karíbahafið. Þá höfum við heimsótt fjölmörg fylki í Bandaríkjunum og ferðast mikið um Evrópu.“

Fjölskylda

Ágúst er kvæntur Helgu Sigurðardóttur, f. 2.5. 1960, skrifstofustjóra. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurður Ísfeld Frímannsson, strætisvagnabílstjóri, f. 4.9. 1930, d. 1.12. 1996, og Ragnheiður Guðmundsdóttir, smurbrauðs- og matráðskona, f. 16.8. 1929, d. 14.5. 1999.

Sonur Ágústs úr fyrra sambandi er 1) Óskar Örn Ágústsson, fjármálastjóri Eflingar, bús. í Mosfellsbæ, f. 12.4. 1973. Kvæntur Ástu Sigurðardóttur, stærðfræðingi og kennara, f. 7.6. 1980. Börn: Ágúst Páll, f. 12.8. 2006, Sigurður Orri, f. 11.7. 2009 og Stefán Örn, f. 21.10. 2011. Börn Ágústs og Helgu eru 2) Silja Rán Ágústsdóttir, efnafræðingur í Noregi, f. 5.9. 1978. Maki: Rolf Bolle, fiskifræðingur og lestarstjóri, f. 1.12. 1977. Börn: Tómas Helgi f. 30.12. 2006, Even Bolle, f. 15.9. 2008, Einar Axel, f. 11.9. 2009 og Tellef Bolle, f. 30.6. 2010; 3) Heiðar Reyr Ágústsson framkvæmdastjóri, bús. í Mosfellsbæ, f. 18.3. 1983. Maki: Guðmundur David Terrazas, grafískur hönnuður, f. 9.4. 1982.

Systkini: Hermann Óskarsson prófessor, bús. í Mosfellsbæ, f. 7.2. 1951. Kvæntur Karínu Sveinbjörnsdóttur kennara; Knútur Óskarsson viðskiptafræðingur, bús. í Mosfellsbæ, f. 23.2. 1952. Kvæntur Guðnýju Jónsdóttur, sjúkraþjálfara og framkvæmdastjóra; Una María Óskarsdóttir varaþingmaður, bús. í Kópavogi, f. 19.9. 1962. Gift Helga Birgissyni hæstaréttarlögmanni.

Foreldrar: Hjónin Óskar Ágústsson, íþróttakennari, hótelstjóri og póstmeistari á Laugum í Þingeyjarsýslu, formaður HSÞ í 19 ár, f. 8.11. 1920, d. 27.7. 2011, og Elín Friðriksdóttir, hússtjórnarkennari á Laugum í Þingeyjarsýslu, f. 8.8. 1923, d. 15.5. 2017.