Nauðsynlegt er að skerpa á hlutverki hæfnisnefnda

Eftir því sem meira er fjallað um störf hæfnisnefndar vegna vals landsréttardómara kemur betur í ljós að dómsmálaráðherra og Alþingi höfðu ríkar ástæður til að samþykkja tillögu nefndarinnar ekki óbreytta. Fram hefur komið að excel-aðferðin sem nefndin notaði var afar ófullkomin og röðunin sem hún skilaði kom jafnvel nefndarmönnum sjálfum í opna skjöldu. Þeir virðast ekki hafa verið sáttir við röðunina en ákváðu þó að hreyfa ekki við því sem tölvan mataði þá á. Ráðherra og Alþingi geta ekki leyft sér slík vinnubrögð.

Í Morgunblaðinu á laugardag var svo sagt frá viðhorfum sem fram komu hjá hluta nefndarmanna um að ráðherra hefði verið gerður greiði með því að afhenda honum lista með aðeins 15 umsækjendum til að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af valinu, gæti einfaldlega gert tillögu nefndarinnar að sinni.

Hæfnisnefndir eru notaðar til að auðvelda ráðherrum að leggja mat á umsækjendur. Og í þessu tilviki var ekki aðeins um það að ræða að ráðherra þyrfti að leggja mat á umsækjendur, það var Alþingi sjálft sem ákvað hverjir yrðu skipaðir í Landsrétt. Þetta gleymist stundum í umræðunni, jafnvel hjá þingmönnum sem sjálfir tóku þátt í atkvæðagreiðslunni um málið.

Hæfnisnefndir eru hins vegar ekki hugsaðar til að taka völdin af ráðherrum eða Alþingi, enda bera þeir sem í nefndunum sitja enga ábyrgð á skipan í embætti og starfa að mestu eða öllu leyti fjarri augum almennings.

Umræðan um val á dómurum í Landsrétt hefur varpað skýru ljósi á nauðsyn þess að endurskoða hvernig hæfnisnefndir eru notaðar og skerpa á því hvert hlutverk þeirra á að vera. Af ummælum sem fallið hafa má sjá að ekki er öllum sem í hæfnisnefndum starfa ljóst að skipunarvaldið er annars eða annarra og að hæfnisnefnd á ekki að reyna að seilast til áhrifa umfram þau sem henni eru ætluð.

Hæfnisnefndir geta gegnt mikilvægu hlutverki við að auðvelda val á hæfustu einstaklingunum í laus embætti. Þegar þeim verða á mistök, eða er jafnvel misbeitt eins og hætta er á þegar hlutverk þeirra er ekki nægilega skýrt, eru þær ekki til gagns heldur ógagns.