Davíð Hjálmar í Davíðshaga skrifaði á Leirinn á miðvikudag: „Lífið heldur áfram þótt kólnað hafi í bili.“ Leika fuglar, liggur enginn bakk, lóur syngja, stelkarnir sig bukka og hrossagaukur segir tikki-takk tímum saman eins og pendúlklukka.

Davíð Hjálmar í Davíðshaga skrifaði á Leirinn á miðvikudag: „Lífið heldur áfram þótt kólnað hafi í bili.“

Leika fuglar, liggur enginn bakk,

lóur syngja, stelkarnir sig bukka

og hrossagaukur segir tikki-takk

tímum saman eins og pendúlklukka.

Baldur Hafstað skrifaði mér og sagði að það mætti kalla þetta umhverfisvísu:

Út frá málstað umhverfis

ætti að teljast hæpið

að fljúga á örfund erlendis.

Oft má nota skæpið.

Síðan bætti Baldur við: „Skæpið (Skype) er merkilegt fyrirbæri, maður sér viðmælendur eins og þeir séu í komnir í kaffi og þarf ekkert að borga fyrir þjónustuna. Gott t.d. fyrir þá sem eiga börn og barnabörn í útlöndum. Ég er einn slíkur.“

Ýmsum til ánægju segist Páll Imsland á Leir hafa látið lítið bera á limrugerð undanfarið – hér sé þó ein að tilefnislausu.

Frækinn hann Torfi á Tjörn

með tilþrifin aldrei í vörn.

Hann geystist að Ökrum

á góðhesti vökrum

og gerði' henni Lóu tvö börn.

Ármann Þorgrímsson telur að takmarka þurfi barneignir:

Ef menn vilja áfram „spreða“

ætti að viðurkenna það,

fækka verðum fólki eða

finna annan samastað.

Og síðan spyr Ármann: „Heimsendir?“:

Mengar græðgin lög og láð

um loftið fúlir straumar berast.

Heimsendi menn hafa spáð

ég held það núna sé að gerast.

Palestínumenn semja og Ólafur Stefánsson yrkir:

Vonarglætu víða finn,

– varpa frá mér leiða,

því fisktitt líkt og frelsarinn

fá þeir nú að veiða.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir í vorblíðunni:

Gullin sindra sólarblik,

sveipa tindinn háa,

gróa rindar, kát og kvik

kliðar lindin bláa.

Þar sem áin ljúflingslög

leikur á bláa strengi,

og við sjávar ölduslög

una má ég lengi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is