Hjálmar Þórðarson verkfræðingur fæddist 27. apríl 1929 á Vatnsnesi, Grímsnesi. Hann lést 2. apríl 2019 á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, Reykjavík.

Útför hans fór fram í kyrrþey.

2. apríl síðastliðinn féll Hjálmar Þórðarson byggingaverkfræðingur frá. Þá vantaði aðeins 25 daga í að hann næði að verða níræður.

Að loknu námi í Kaupmannahafnarháskóla hóf Hjálmar störf hjá Sigurði S. Thoroddsen, á árinu 1956. Meðstofnandi varð hann svo 1962 að Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen sf. og þar átti hann sinn starfsferil allan.

Hönnun vatnsaflsvirkjana var helsti starfsvettvangur hans um langt árabil. Eftirminnilegt verkefni var virkjun Laxár 3 á árunum 1970-73, en þar var hann staðarverkfræðingur og sá bæði um hönnun og eftirlit með framkvæmd verksins. Þetta verkefni hafði orðið að erfiðu deilumáli landeigenda og stjórnar Laxárvirkjunar, sem þó leystist bærilega. Aðalverktaki verksins, Norðurverk hf., reyndist ekki léttbær, en með skýrri stefnu Hjámars og einurð, auk bakstuðnings frá Sigurði gamla, lauk þessu verkefni farsællega.

Einmitt í upphafi þessa verks var ég, nýráðinn græninginn, sendur norður í vinnu til Hjálmars við hönnun og eftirlit með framkvæmdum. Þar var ég kominn í alvöruverkefni sem oftast var spennandi og skemmtilegt, en gat þó orðið snúið fyrir nýliðann. En veganestið sem ég fékk frá Hjámari á þessum árum reyndist mér drjúgt æ síðan. Sá þriðji, Ásgeir Höskuldsson, byggingameistari á Húsavík, bættist í hópinn og varð úr nokkuð öflugt og glaðvært eftirlitsteymi, undir styrkri stjórn Hjálmars. Vinskap eignuðumst við þrír sem entist okkur út ævina, þó oft með stopulum endurfundum.

Hjálmar sinnti mörgum og margvíslegum verkefnum en á síðari árum var hönnun hreinlætis- og hitakerfa, loftræstikerfa og fleiri sérkerfa hans sérsvið.

Þar fór ávallt afar glöggur og traustur verkfræðingur. Lét fátt hagga sér og sinnti verkefnunum af kunnáttu og samviskusemi.

Gott gat verið að leita ráða hjá Hjálmari en fyrir kom að hann þagnaði við, mátti þá vita að spjallinu væri lokið af hans hálfu. Skildist sú afstaða ævinlega.

Blessuð sé minning Hjálmars Þórðarsonar.

Níels Indriðason.