Bragi Sigurþórsson verkfræðingur fæddist á Fossá í Kjós 19. nóvember 1931. Hann lést á líknardeild Landspítalans hinn 5. maí 2019.

Foreldrar hans voru Sigurþór Ólafsson bóndi á Fossá, f. 9. mars 1899, d. 8. jan. 1933, og Þórdís Ólafsdóttir ljósmóðir, f. 19. júní 1908, d. 27. júlí 1998.

Eftirlifandi eiginkona Braga er Inga Björk Sveinsdóttir kennari, f. 24.4. 1941. Foreldrar hennar voru Hansína Friðrika Guðjónsdóttir og Sigurður Sveinn Ólafsson. Þau eignuðust fjögur börn: 1) Sólrún, f. 1.12. 1959, óperusöngkona, sonur hennar og fv. eiginmanns, Bergþórs Pálssonar, er Bragi, f. 16.4. 1981, hann á tvö börn; Marsibil, f. 20.12. 2007, og Ólaf, f. 28.2. 2012. Dóttir Sólrúnar og fv. eiginmanns, Þórarins Stefánssonar, er Berglind Lilja, f. 16.2. 1994. 2) Þórdís, f. 7.4. 1964, sálfræðingur, eiginmaður hennar er Þorbjörn Guðjónsson læknir. Börn þeirra eru Heba Björk, f. 28.1. 1992, og Tómas, f. 1.4. 1994. 3) Friðrik, f. 8.4. 1968, verkfræðingur, eiginkona hans er María Guðmundsdóttir kennari. Synir þeirra eru Rafnar, f. 1.7. 1997, Bragi, f. 21.11. 1999, og Arnar, f. 5.8. 2002. 4) Brynja, f. 20.3. 1972, d. 25.7. 2015, vinnusálfræðingur, eiginmaður hennar: Ragnar Kristinsson. Dætur þeirra eru Inga Björk, f. 23.11. 2005, og Valgerður, f. 18.8. 2008.

Bragi varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951. Hann tók fyrrihlutapróf í verkfræði frá Háskóla Íslands 1954 og próf í byggingaverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1957. Hann var verkfræðingur hjá Almenna byggingafélaginu í Reykjavík 1957-1971. Bragi stofnaði ásamt öðrum Almennu verkfræðistofuna í Reykjavík 1971 og starfaði þar uns hann lét af störfum um sjötugt.

Bragi vann mikið við burðarþolsútreikninga en hann kom einnig að fjölmörgum stórum verkframkvæmdum. Hann var m.a. hönnunarstjóri járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, verkefnastjóri við hönnun og byggingu Seðlabanka Íslands og hönnunar- og byggingastjóri við byggingu Þjóðarbókhlöðu.

Útför Braga fer fram frá Neskirkju í dag, 13. maí 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Mér hafa alltaf fundist æskuár pabba sérstaklega merkileg. Hann fæddist á sveitabæ í Kjósinni og missti föður sinn strax á öðru ári. Skörungurinn amma Þórdís skildi pabba skömmu síðar eftir í sveitinni hjá ættingjum og lærði til ljósmóður í Reykjavík. Þegar hann var sex ára voru þau sameinuð á ný og fluttu í Borgarfjörðinn þar sem amma var héraðsljósmóðir. Þar sótti hann sinn sveitaskóla með því að mæta annaðhvort á hestbaki eða á hjóli. Allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Tólf ára fékk hann sín fyrstu laun sem verkamaður hjá Vegagerð þess tíma. Notaðir voru hestar sem drógu kerrur með efni til að bera ofan í vegina í sveitinni. Það er ákveðinn sjarmi sem fylgir því að hugsa um pabba í þessum sporum. Þrettán ára flutti hann svo ósyndur sveitastrákurinn á Barónsstíginn í Reykjavík.

Það má segja að fjölskyldan hafi verið hans líf og yndi. Það eru sterk minningabrot sem tengjast honum að stússa í garðinum í Vogalandinu. Þegar framkvæmdir voru í gangi var allt reiknað í botn áður en hafist var handa. Pabbi setti niður gula mælingarhæla og strengdi band á milli eins og sannur ferkantaður verkfræðingur. Það fæddist hver grænmetiskassinn á fætur öðrum. Pabbi smíðaði og fyllti á moldina en móðir mín tók svo við og gróðursetti. Saman framleiddu þau á hverju sumri tugi kílóa af grænmeti. Jarðarberin voru samt sem áður aðalsælgætið. Það voru dásemdarstundir hjá fjölskyldunni að tína sæt jarðarber og borða með rjóma eða ís. Það skipti engu hvaða verk fylgdi garðinum eða húsinu; pabbi gekk í verkið og ég lærði mikið af því að fá að vera aðstoðarmaður hans. Saman grófum við stóra holu í garðinum og settum niður heitan pott, lögðum lagnir að honum og smíðuðum pall og skjólgirðingar.

Í minningunni er auðvitað alltaf gott veður og við fjölskyldan saman í garðinum að snæða góðan mat eða busla í pottinum. Þetta voru yndislegar stundir og gott að vera í nærveru pabba á sínum eigin heimavelli.

Skíðamennska er mitt aðaláhugamál og ég þakka pabba fyrir að hafa komið því á. Helgi eftir helgi brunuðum við fjölskyldan með pabba á Lödu Sport upp í Bláfjöll þar sem við renndum okkur saman þangað til öll orka var á þrotum. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við pabbi settumst saman í fyrsta skipti í glænýja stólalyftu sem nú heitir Drottningin. Það var toppdagur hjá okkur.

Nú í vetur var ljóst í hvað stefndi hjá pabba. Hann tók þeim fréttum af miklu æðruleysi. Hann vildi engan veginn valda okkur í fjölskyldunni áhyggjum. Hann vildi bara ljúka þessu af sem fyrst og það gerði hann. Það eru samt sem áður afar dýrmætar stundir sem ég átti með pabba þær vikur sem hann dvaldi á spítala nú undir lokin. Hann fór sáttur og sæll.

Takk fyrir að vera pabbi minn alla tíð.

Friðrik.

Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um afa Braga. Hann var blíður og góður og það var alltaf notalegt að vera með honum. Hann var alltaf eitthvað að stússa og þá sérstaklega í sumarbústaðnum í Grímsnesi sem við köllum Bringu. Við bræður vorum allir í fótbolta og afi útbjó stóra flöt við bústaðinn þar sem við gátum leikið okkur endalaust. Við spiluðum líka oft botsía og þá tók afi þátt með okkur og var ansi lunkinn. Hann fann sér alltaf eitthvað til að laga eða smíða og var oft að hjálpa ömmu með grænmetisræktun. Það var heilmikið spjallað og spilað í sveitinni og afi var líka duglegur að fara með okkur og ömmu í göngutúra. Þess á milli sat hann í rólegheitum með bókina sína eða leysti krossgátur og sudoku. Afi hafði sérstaklega gaman af því að mæla hvað við værum stórir og var það reglulega merkt á einn stólpann á bústaðnum og spáð í það hvað við hefðum stækkað mikið síðan síðast. Afi var mjög fróður og hafði áhuga á að fylgjast með því sem við vorum að læra í skólanum og hvað við værum að bralla á daginn. Hann veitti okkur bræðrum alltaf athygli og hjálpaði okkur við allt það sem við leituðum til hans með.

Þínir afastrákar

Rafnar, Bragi og Arnar.

Þegar minnast skal Braga Sigurþórssonar þá kemur fyrst upp í hugann hvers góður maður hann var, hann barst aldrei mikið á en hafði góðan húmor fyrir hlutunum og það var alltaf hægt að spjalla við hann.

Ég kunni strax vel við hann þegar Brynja dóttir hans kynnti mig fyrir honum, fljótlega eftir að við sjálf kynntumst. Oft sat ég og spjallaði við hann þegar aðrir fjölskyldumeðlimir voru að stússast eitthvað, og jafnvel oftar sátum við bara tveir í rólegheitum saman og þurftum ekkert að spjalla. Hann hafði afar þægilega nærveru og var eins og afastelpurnar hans Inga Björk og Valgerður lýsa honum; góður maður, rólegur og góður hlustandi.

Þá er líka ósagt hvað það var skemmtilegt vinna með honum. Ég man eftir mörgum dögum í sumarbústaðnum þeirra sem hann og Inga Björk, sem alltaf voru nær óaðskiljanleg, tóku við rúmlega fokheldum og gerðu að sínum eigin, við ýmis störf og voru það ófáar stundirnar sem við fjölskyldan eyddum í bústaðnum með þeim hjónum. Meðan Bragi hafði heilsu dvöldust þau þarna sumrin löng og alltaf var eitthvað að sýsla við. Þá var einna eftirminnilegast að Bragi var alltaf búinn að undirbúa allar framkvæmdir, teikna þær upp og skipuleggja vel. Það var alveg klárt að hann var alltaf með öll handtökin á hreinu, hvort sem það var pallagerð eða gróðurkassi. Hann var alla tíð verkfræðingur fram í fingurgóma.

Það var nefnilega engin tilviljun að Bragi, sem var sannarlega ekki af efnafólki kominn, hafi klifið allar þær hindranir sem urðu á vegi ungs fólks á hans aldri og lokið námi sem verkfræðingur í Kaupmannahöfn. Átti hann svo langan og farsælan feril í vinnu og bera margar af stærri byggingum Reykjavíkur því vitni.

Í einkalífinu var Bragi líka lánsamur og átti góða fjölskyldu og börn, barna- og barnabarnabörn sem unnu honum. Það skyggði þó verulega á þegar Brynja dóttir hans féll frá langt fyrir aldur fram. Andlát Brynju var honum og Ingu Björk mjög þungbært og tók það mikið á hann og má segja að hann hafi aldrei verið samur eftir. Engu að síður þá var styrkur hans og hlýja ómetanleg á þeim erfiðu tímum. Sérstaklega verður að minnast á hjálpsemi hans og það hversu vel hann ræktaði samband sitt við börn okkar Brynju. Alla tíð fram á síðustu daga tók hann sig til og keyrði þær á hinar ýmsu æfingar og frístundir, alltaf mættur (hvenær sem er, kvölds eða morgna) og aldrei fannst manni eins og hann væri að gera greiða og aldrei var erfitt að biðja hann um aðstoð. Fyrir honum var þetta eðlilegasti hluturinn og hafði hann líka mikla ánægju af.

Með Braga fer góður maður af gamla skólanum, maður sem vann allt sem hann gerði af samviskusemi og alúð. Maður sem var einstaklega hjálpfús og maður sem kom vel fram, og af virðingu, við alla sem hann hitti. Hvíl í friði Bragi.

Ragnar Kristinsson.

Það er ljúft að láta hugann reika um samverustundir sem við hjónin höfum notið í félagsskap Braga og Ingu Bjarkar, um nær 60 ára skeið. Perlur minninga raðast saman, þær eru ólíkar að lit og lögun, sumar hafa orðið til á jökli, aðrar í suðrænum sandi, enn aðrar á landinu okkar fagra.

Við sitjum á vélsleðum á Snæfellsjökli og brunum áfram í þoku, ætlum á toppinn. Skyndilega uppgötvum við að fararstjórinn er horfinn og við rammvillt, við stöðvum sleðana og bíðum átekta, en á toppinn komumst við. Bragi alltaf varkár á ferðalögum og hugulsamur, sem brást þó einu sinni á öðrum jökli, nánar tiltekið á Grænlandi. Litli ferðaklúbburinn var staddur ásamt ferðafélögum í bátskænu við jökulsporð. Strákarnir vippuðu sér frá borði og röltu frá bátnum, við Inga Björk einar eftir um borð hjá skipstjórnandanum, sem sá aumur á okkur og færði bátinn til svo við þyrðum að hoppa í land. Þetta er í eina skiptið sem ég man eftir að Bragi væri ekki með hugann við að aðstoða hana Ingu sína.

Grænlandsjökull er heillandi í sól og blíðviðri eins og var í þetta sinn. Það léku einnig hlýir vindar um okkur þegar við dvöldum við Svartahafið og slógum þar upp brúðkaupsveislu, þar sem við giftum ferðafélaga eftir öllum kúnstarinnar reglum, eða á Kúbu þar sem við heimsóttum m.a. heimili Ernest Hemingway. Bragi var fróðleiksfús, las mikið, nákvæmur, hjálpsamur og einstaklega góður og traustur félagi.

Við fórum eitt sinn í pílagrímsferð að Kárahnjúkum. Umræðan um að þar væri ekki fallegt og að fáir hefðu komið þar, leiddi til þess að við lögðum land undir fót. Þetta var um verslunarmannahelgi, reyndar var það rétt, það voru engir nema við á svæðinu meðan við stöldruðum við. Þá þegar var þar orðin mikil eyðilegging svo okkur þótti nóg um. Bragi var varkár í dómum sínum um menn og málefni, en ég held að litli ferðaklúbburinn hafi verið sammála um það að þarna væri helgidómur sem vert væri að varðveita óspjallaðan.

Eyjan Pag í Króatíu varð áfangastaður okkar þegar Inga Björk varð sjötug, þar ætluðum við að njóta dagsins. Í morgunsárið brá afmælisbarnið sér út í bakarí til þess að gleðja okkur með nýbökuðu bakkelsi og verður þá vör við að verið er að dúkleggja langborð á torginu, sem var rétt við húsgaflinn hjá okkur og þóttu okkur eyjarskeggjar næmir að ætla að halda með okkur upp á daginn. Er ekki að orðlengja það að um hádegi svigna borðin af mat og fljótandi veigum sem öllum stóðu til boða. Um kvöldið var okkur síðan boðið í veislusal við torgið þar sem við dvöldum í fagnaði með innfæddum fram eftir kvöldi.

Svona er hægt að halda áfram að bæta perlum minninga á bandið, en nú hefur almættið tekið við fararstjórn.

Blessuð sé minning okkar kæra vinar, Braga Sigurþórssonar.

Bryndís Helgadóttir.

Ég kynntist Braga árið 1957. Snemma það ár lauk hann námi í byggingarverkfræði við DTH, Danmarks Tekniske Højskole, í Kaupmannahöfn og hóf störf hjá Almenna byggingafélaginu í Reykjavík. Um vorið sama ár tók ég fyrrihlutapróf í verkfræði við Háskóla Íslands og fékk vinnu hjá Almenna byggingafélaginu um sumarið við mælingar og teiknun með verkfræðingunum eins og kunnátta mín leyfði. Um haustið fór ég til Kaupmannahafnar í framhaldsnám í byggingarverkfræði við DTH og þar naut ég auðvitað góðs af því sem Bragi og hinir verkfræðingarnir hjá ABF höfðu kennt mér um sumarið.

Þegar ég svo fór um haustið „fræddu“ sumir þeirra mig um krár og skemmtistaði í Höfn. Bragi tók ekki þátt í því, hann kom með „kúrsusana“ sína (skýrslurnar úr námskeiðunum hjá DTH) og lánaði mér. Þetta lýsir Braga vel því að þótt hann gæti verið gamansamur vék gamansemin fyrir hjálpseminni og greiðvikninni.

Snemma árs 1960 þegar ég hafði lokið námi fór ég aftur að vinna hjá Almenna byggingafélaginu og þar unnum við Bragi saman þar til Almenna verkfræðistofan var stofnuð 1971. Ýmis verkefni unnum við þá saman og á skrifstofunni vorum við saman í herbergi. Stuttu eftir að við hjónin komum frá Höfn kynntumst við Ingu konu Braga, einstakri hæfileikakonu, sem varð líka góður vinur okkar hjónanna.

Almennu verkfræðistofuna stofnuðum við, níu starfsmenn verkfræðideildar ABF, og þar unnum við Bragi báðir til starfsloka okkar vegna aldurs. Bragi var einstakur burðarþolshönnuður og afkastameiri en aðrir. Ýmis verkefni unnum við saman, m.a. hönnun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga 1975-1979, þar sem Bragi var hönnunarstjóri.

Sú venja hefur skapast að við sem stofnuðum Almennu verkfræðistofuna hittumst vor og haust og borðum saman ásamt konum okkar. Bragi er sá þriðji úr hópnum sem kveður. Við söknum þeirra allra því að þetta var samheldinn og góður hópur.

Síðast sá ég Braga rétt fyrir páskana. Hann var glaður og við spjölluðum saman um eitt og annað. Þegar við kvöddumst sagði hann: „Komdu fljótt aftur.“ Mér þótti mjög vænt um að heyra þetta og það undirstrikaði áratuga vináttu okkar. Ég lofaði þessu en mér tókst ekki að efna það.

Við Nína sendum Ingu, börnunum, tengdabörnunum og barnabörnunum innilegustu samúðarkveðjur. Við söknum Braga.

Gunnar Baldvinsson.

Góður félagi og samstarfsmaður til fjölda ára, Bragi Sigurþórsson verkfræðingur, lést á líknardeild Landspítalans 5. maí sl. eftir löng og erfið veikindi.

Við Bragi vorum jafnaldrar og störfuðum saman í liðlega 40 ár. Bragi lauk meistaraprófi í byggingarverkfræði frá DTH-háskólanum í Kaupmannahöfn 1957.

Að loknu námi réðist hann sem verkfræðingur til Almenna byggingafélagsins hf. (ABF) í Reykjavík þar sem leiðir okkar Braga lágu saman og störfuðum við þar allt til ársins 1971 er ABF hætti störfum vegna rekstrarerfiðleika.

Þegar hér var komið stofnuðum við, níu starfandi verkfræðingar hjá ABF, Almennu verkfræðistofuna hf. með framkvæmdastjóra ABF og stjórnarformanni. Hið nýja fyrirtæki varð því í raun framhald af Almenna byggingafélaginu og tók þar með yfir ráðgjafarekstur ABF.

Bragi tók mikinn þátt í stofnun hinnar nýju verkfræðistofu og var í stjórn hennar í mörg ár, þar af stjórnarformaður í nokkur ár. Hann átti því drjúgan þátt í uppbyggingu og þróun stofunnar og sívaxandi umsvifum hennar. Stofan stækkaði með árunum og voru starfsmenn hennar orðnir á milli fjörutíu og fimmtíu eftir um tíu ára starfsemi fyrirtækisins.

Bragi stjórnaði hönnun fjölda mannvirkja, stórra og smárra, sem starfsmaður Almennu verkfræðistofunnar og má þar nefna m.a. Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, höfuðstöðvar Seðlabanka Íslands og Þjóðarbókhlöðu. Allt voru þetta stór og vandasöm verkefni sem Bragi leysti með miklum ágætum, enda hæfur hönnuður og vandvirkur, sem átti auðvelt með að vinna með öðrum sem að verki komu með honum. Samstarf Braga með verkkaupum var alltaf með mestu ágætum og létu þeir ósjaldan í ljós við mig, sem framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar, ánægju með störf Braga í þeirra þágu. Hann átti því drjúgan þátt í að efla jákvætt orðspor Almennu verkfræðistofunnar meðan hann starfaði á hennar vegum.

Hvíl þú í friði, góði vinur, og við Marta flytjum Ingu Björk og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Svavar Jónatansson, fyrrverandi framkvæmdastjóri AV.