Margeir Dire Sigurðarson fæddist 12. apríl 1985. Hann lést 30. mars 2019.

Útför hans fór fram 17. apríl 2019. Minningarathöfn fór fram frá Akureyrarkirkju 7. maí 2019.

Ég man þegar við fjölskyldan fylgdum afa mínum og ömmu frá Rútsstöðum til grafar, þrátt fyrir að nokkrir áratugir séu síðan það gerðist. Mér þótti afskaplega vænt um afa og ömmu og þótti gott að vera hjá þeim. Þegar þau létust voru þau rétt tæplega 100 ára gömul. Þau voru án efa orðin hvíldinni fegin eftir langa og farsæla ævi. Ég man að ég upplifði þá ekki mikla sorg heldur frekar söknuð, þakklæti og væntumþykju. Einhvern veginn skynjaði maður dauðann eðlilegan við þessar aðstæður.

Það sama verður ekki sagt þegar við fylgjum bróðursyni mínum, Margeiri Sigurðssyni, til grafar. Við erum slegin djúpum harmi og sárri sorg.

Margeir lést á heimili sínu í Berlín 30. mars síðastliðinn aðeins rétt tæplega 32 ára að aldri, og ég nefni hér í upphafi afa minn og ömmu til þess að varpa ljósi á hversu ólíkt dauðinn getur sótt að.

Margeiri var ekki ætluð auðvelda leiðin í lífinu. Á unglingsaldri gekk hann listagyðjunni á hönd og þau slitu aldrei samvistum. Það er stundum talað um að taka hlutina alla leið. Það gerði Margeir í list sinni. Lengra og dýpra í helgun til viðfangsefnis er ekki hægt að fara.

Fyrir um tveimur árum flutti hann búferlum til Berlínar sem segja má að sé höfuðborg samtímamyndlistar í Evrópu. Þar var myndlistin hans eina viðfangsefni og atvinna. Gæði listmálara samanstanda í grunninn af nokkrum þáttum. Margeir þroskaðist hratt síðustu árin í list sinni og réð yfir öllum þessum þáttum. Hann var kominn í úrvalsflokk þegar örlögin tóku ráðin. Það þurfti ekki kunnáttufólk um myndlist til að sjá hæfni Margeirs.

Á sama tíma og tækni hans var krefjandi og flókin þá var myndefnið öllum skiljanlegt og það sem ekki síður er mikilvægt, þá veittu verk hans fólki bæði hughrif og gleði.

Ef eitthvert eitt hugtak ætti að lýsa Margeiri þá væri það elskulegheit. Hann hafði hlýja nærveru þess sem ekkert þarf að sýnast eða látast. Hann kom frá hjartanu sjálfu. Svolítið barnslegur í útliti og fasi. Sú elska sem fólk hafði á honum var án efa vegna persónu hans. Hann fór ekki fram á neitt frá neinum, dæmdi engan og var einfaldlega einstakur ljúflingur. Þeir sem gerðu sig að vinum hans voru óteljandi og óvildarmann hefur hann engan átt. Tenging hans við veraldlega hluti var ekki mikil og hann virti þá yfirleitt lítils. Verðmætin í kringum hann voru fyrst og fremst fólkið og listin.

Því miður er það svo að snillingar verða ekki alltaf langlífir. Það þekkjum við. Það hlýtur að geta verið erfitt og einmanalegt fyrir viðkvæmar sálir að fóta sig á átakasvæðum daglegs lífs þar sem allt snýst um fé og veraldlega hluti. Stórviðri geta gengið yfir sál og huga og í einhverjum djúpum öldudal hvarf hann okkur sjónum. Sorgin er allsráðandi og dagarnir verða þungir fyrir foreldra og systkini.

Við, hans nánasta skyldfólk, munum minnast hans hvern dag hér eftir með trega og sorg í huga. Ef til vill er lífshlaup okkar í einhverri mynd skrifað í skýin og að við fáum minna ráðið en við sjálf höldum.

Guð blessi Margeir og ferð hans úr þessum heimi.

Hjalti Gestsson.