Rögnvaldur Helgi Guðmundsson fæddist 14. nóvember 1978. Hann lést 30. apríl 2019.

Útför Rögnvaldar Helga fór fram 10. maí 2019.

Elsku bróðir og mágur, minning um góðan og traustan dreng lifir.

Þótt sólin nú skíni á grænni grundu,

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kallaður á örskammri stundu,

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo gestrisinn, einlægur og hlýr.

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst ei framar á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Bjarni og Arna.

Elsku Röggi minn, ég er bara ekki að trúa því að þú sért farinn frá okkur, að ég sitji hérna og sé að skrifa minningargrein um þig. Þú varst besti vinur minn síðastliðin 15 ár. Ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar við byrjuðum að vera saman, það var í byrjun árs 2004, þá var ég nýorðin 15 ára og þú að verða 25 ára. Ég gleymi aldrei svipnum á mömmu og pabba þegar ég sagði þeim að ég væri komin með kærasta sem væri 10 árum eldri en ég, en svipurinn fór nú strax eftir að þau kynntust þessum ljúfa og góða dreng. Það gerðist allt svo hratt hjá okkur, tveimur árum seinna vorum við búin að trúlofa okkur, þremur árum seinna varð ég ólétt og stuttu seinna keyptum við okkur fyrstu íbúð okkar, á Bölunum á Patró. Besti dagur lífs okkar var 22. janúar 2007, þá eignuðumst við litla fullkomna prinsessu sem lét heldur betur hafa fyrir og bíða eftir sér, en það gleymdist um leið og við fengum hana í fangið. Ég sá strax hvað þú elskaðir þessa litlu stelpu mikið, og frá fyrsta degi í lífi hennar varstu besti pabbi sem til var og gerðir allt fyrir hana. 10. mars 2007, á 19 ára afmælisdaginn minn, skírðum við hana Sigurbjörgu Helgu. Þú hefur alltaf verið svo stoltur af henni. Eftir ca átta ára samband slitnaði upp úr hjá okkur og fórum við sitt í hvora áttina en ekki langt frá hvort öðru, bara í næsta hús. Í öll þessi 15 ár sem við höfum þekkst höfum við alltaf verið svo góðir vinir og verð ég ævinlega þakklát fyrir það, það var oft sem við fengum að heyra hvað við ættum gott samband og settum við alltaf stelpuna okkar í fyrsta sætið, ekki okkur, og gerðum allt það sem var best fyrir hana. Þú varst elskaður af allri fjölskyldunni minni, þó svo að við værum hætt saman eyddir þú nánast öllum hátíðisdögum með okkur og eftir að þú fluttir frá Patró var alltaf herbergi fyrir þig hjá mömmu og pabba. Þau elskuðu að hafa Rögga sinn hjá sér, alltaf svo hjálpsamur og alltaf komstu færandi hendi með fisk fyrir okkur af sjónum. Finnst svo vænt um hvað þú tókst strax Friðriki vel og stelpunni okkar Friðriks, henni Hrafnhildi Sölku, alltaf spurðirðu hvernig hún væri og hafðir miklar áhyggjur af veikindum hennar.

Ég gæti setið og skrifað í alla nótt en ætla að geyma þær minningar fyrir mig og dóttur okkar. Elsku Röggi minn, ég lofa þér að passa vel upp á elsku gullið okkar og mun ég halda minningunni um þig þar til minn dagur kemur. Þú átt alltaf stað í hjarta okkar.

Hvíldu í friði, elsku engill.

Þín vinkona og barnsmóðir,

Petrína Sigrún

Helgadóttir.

Elsku hjartans Rögnvaldur minn.

Það var mikið reiðarslag að fá fréttirnar af andláti þínu, þú svona ungur og í blóma lífsins. Við minnumst þeirrar stundar er hún dóttir mín, þá aðeins 15 ára, kom og kynnti þig fyrir okkur. Okkur hefur stundum verið strítt á því að svipurinn á okkur hafi verið eitthvað skrítinn, en þú varst 10 árum eldri en hún. En sá svipur breyttist fljótt við nánari kynni. Þú varst okkur alltaf jafn kær og okkar eigin synir. Okkar heimili hefur alltaf staðið þér opið og hjá okkur hefur þú gist síðastliðin ár þegar þú varst hér til sjós. Þið Petrína eigið saman yndislega dóttur og ég veit að hún var augasteininn þinn. Litla stúlkan þín hefur alltaf verið númer eitt hjá þér. Það sannast oft að þeir deyja ungir sem guð elskar. Takk, elsku Röggi, fyrir allar yndislegu samverustundirnar sem við höfum átt saman.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Elsku Sigurbjörg mín, Halla, Guðmundur, systkini og fjölskyldur.

Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Megi algóður Guð styrkja ykkur öll. Minning um góðan dreng lifi.

Hvíldu í friði, elsku vinur.

Þínir fyrrverandi tengdaforeldrar

Sigurbjörg Pálsdóttir og Helgi Auðunsson.