Nýr viti Verið er að koma ljósabúnaði fyrir í vitanum við Sæbraut.
Nýr viti Verið er að koma ljósabúnaði fyrir í vitanum við Sæbraut. — Morgunblaðið/Ómar
Starfsmenn vitadeildar Vegagerðarinnar hafa unnið að því undanfarna daga að koma fyrir nýjum ljósabúnaði í nýjasta vita Íslands. Vitinn stendur við Sæbraut í Reykjavík, skammt frá Höfða.

Starfsmenn vitadeildar Vegagerðarinnar hafa unnið að því undanfarna daga að koma fyrir nýjum ljósabúnaði í nýjasta vita Íslands. Vitinn stendur við Sæbraut í Reykjavík, skammt frá Höfða.

Vitinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna og tekur við hlutverki vitans á toppi Sjómannaskólans sem leitt hafði sæfarendur rétta leið inn í Reykjavíkurhöfn. Bygging á Höfðatorgi skyggir á þann vita.

Rafvirkjar vitadeildarinnar, þeir Guðmundur Jón Björgvinsson og Ástþór Ingi Ólafsson, verða að störfum í vitanum næstu daga en vonir standa til að hann verði tekinn í notkun um og eftir miðjan mánuðinn.

Vitinn er nú þegar orðinn mikið aðdráttarafl ferðamanna sem rölta meðfram sjónum líkt og Sólfarið hefur verið. „Hér er nú þegar margt fólk að taka sjálfur með vitanum,“ er haft eftir Guðmundi á vef Vegagerðarinnar.

Töluverð vinna er fólgin í því að setja upp ljós í slíkan vita og hafa starfsmenn vitadeildarinnar mikla sérfræðiþekkingu í því. Stilla þarf ljósið nákvæmlega svo skipin geti varist hættulegum svæðum.

Þegar rafvirkjarnir hafa lokið störfum og stillt ljósið með upplýsingum frá verkfræðistofunni Hnit, mun siglingasvið Landhelgisgæslunnar taka næsta skref og taka ljósin út og staðfesta að þau lýsi rétta leið. Þá verður hægt að gefa út lögleg sjókort og vitinn tekinn í notkun. sisi@mbl.is