Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Sameiginleg fjármögnun undirbúnings fyrir útboð fyrsta hluta borgarlínu er til kynningar hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu í næstu viku, en meirihluti borgarráðs samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að veita borgarstjóra umboð til að samþykkja og undirrita tvo samninga vegna undirbúningsverkefna í tengslum við verkefnið. Annars vegar milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna.

Í verkefninu felst að sveitarfélögin leggja til samtals 800 milljónir á árunum 2019 og 2020 og leggur ríkið til jafnhátt framlag. Reykjavíkurborg leggur til rúmlega 136 milljónir króna á þessu ári og 56,5% heildarfjárins yfir árin tvö. Að því er fram kemur í greinargerð með tillögunni sem lögð var fyrir borgarráð verður kostnaðarskipting milli sveitarfélaga í samræmi við íbúafjölda, en Reykjavíkurborg greiðir þó hlutfallslega meira en önnur sveitarfélög á árinu 2019. Önnur sveitarfélög greiða hlutfallslega meira árið 2020.

Samstaða hjá sveitarfélögum

Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), kveðst vonast til þess að hin sveitarfélögin samþykki að koma að fjármögnuninni, en Reykjavík er enn sem komið er eina sveitarfélagið sem hefur afgreitt málið. Hann segir að samstaða sé meðal sveitarstjórnarfólks um að koma verkefninu á legg til að umferð gangi greiðlega, búnir verði til valkostir fyrir íbúa sveitarfélaganna í samgöngum.