Páll Björgvin Guðmundsson
Páll Björgvin Guðmundsson
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), segir að áformað sé að framkvæmdir hefjist við borgarlínu í mars árið 2021 að undangengnu útboði, en nú unnið er að fjármögnun undirbúningsvinnu fyrir útboðið. Reykjavíkurborg samþykkti í þessu skyni fjárútlát á fundi borgarráðs í síðsutu viku.

„Þetta er margþætt verkefni en nú er að störfum stýrihópur og verkefnahópur sem vinnur að því með ríkinu hvernig náð verði utan um fjármögnun borgarlínu. Kostnaður við hana er áætlaður um 102 milljarðar,“ segir Páll Björgvin.

„Samhliða því er unnið að undirbúningsvinnu,“ segir hann, en í henni felst meðal annars umferðargreining, forhönnun, skipulagsvinna, umhverfismat og vinna við gerð leiðakerfis. „Með þessu er verið að leggja línurnar að þessu verkefni. [...] Þessar forsendur þurfa að liggja fyrir áður en boðið verður út og verkið hafið,“ segir Páll Björgvin, en áformað er að framkvæmdir við fyrsta áfanga borgarlínu hefjist í mars árið 2021. Allt að fimmtán ár gæti þó tekið að ljúka verkinu öllu.

Reykjavík er enn sem komið er eina sveitarfélagið sem hefur samþykkt fjárútlát vegna undirbúningsvinnu í tengslum við borgarlínu. „Nú eru hin sveitarfélögin að taka þetta fyrir og við munum kynna þetta fyrir þeim í næstu viku. Vonandi verður þetta samþykkt þar líka,“ segir hann.

Samstaða um samgöngubætur

Spurður hvernig verkefnið hafi mælst fyrir kveðst hann halda að samstaða sé um að koma verkefninu á dagskrá. „Þetta snertir í rauninni þrennt. Þetta snýst um loftslagsmál, að umferð gangi greiðlega fyrir sig og að búa til valkosti fyrir fólk þannig það geti nýtt hágæða almenningssamgöngur, bíla, að það geti hjólað og gengið. Ég held að sveitarfélögin séu sammála um að ganga í þetta verk,“ segir hann. „Það er komið fjármagn frá ríkinu og sveitarfélögin þurfa nú að ræða hvernig þau mæta því þannig það verði farið af stað í þetta verkefni af einhverjum þunga,“ segir Páll Björgvin.