Hárið „Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta...“
Hárið „Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta...“
Sýning Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu , í leikstjórn Sigurðar Líndal Þórissonar, hefur verið valin af Þjóðleikhúsinu athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019.

Sýning Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu , í leikstjórn Sigurðar Líndal Þórissonar, hefur verið valin af Þjóðleikhúsinu athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019. Sýningin þótti unnin af miklum metnaði og hvergi var slegið af kröfum við uppfærsluna. Önnur sýning sama leikflokks, Snædrottningin, kom einnig sterklega til greina við val á sýningu ársins.

Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins fór fram í tuttugasta og sjötta sinn. Að þessu sinni sóttu fimmtán leikfélög um að koma til greina við valið með sautján sýningar.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að sýningin sé unnin af miklum metnaði og hvergi slegið af kröfum, og þar segir m.a.: „Stór leikhópurinn er skipaður hæfileikafólki sem nýtur sín í botn... Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta þannig að húmor og boðskapur verksins komast vel til skila.“

Venju samkvæmt býður Þjóðleikhúsið leikhópnum að koma og setja verkið upp á Stóra sviði leikhússins og verður verkið sýnt þann 14. júní.