Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason á enn von um að gera Kiel að Þýskalandsmeisturum í handknattleik á sínu síðasta tímabili hjá félaginu. Kiel tókst að vinna toppliðið Flensburg í Kiel í gær 20:18 og opnaði þar með baráttuna um titilinn til mikilla muna.

Alfreð Gíslason á enn von um að gera Kiel að Þýskalandsmeisturum í handknattleik á sínu síðasta tímabili hjá félaginu. Kiel tókst að vinna toppliðið Flensburg í Kiel í gær 20:18 og opnaði þar með baráttuna um titilinn til mikilla muna. Liðin eru nú jöfn að stigum en Flensburg á leik til góða.

Flensburg á eftir að spila gegn Melsungen heima, Stuttgart úti, Füchse Berlín heima og Bergischer úti í lokaumferðinni. Kiel á eftir að mæta Minden heima, Lemgo úti og Hannover Burgdorf heima. Ganga má út frá því að Kiel þurfi að vinna þá leiki sem eftir eru til að eiga möguleika.

Lið Melsungen, Füchse og Bergischer eru í 5.-7. sæti og leikirnir sem Flensburg á eftir teljast því ekki auðveldir. Flensburg hafði hins vegar aðeins tapað einum leik þar til í gær og er því enn líklegt til að klára dæmið. Verði liðin jöfn mun markatalan skera úr um úrslit. Kiel er með 180 mörk í plús en Flensburg 163. Spennan er því til staðar en Kiel hefur þegar unnið bikarkeppnina og getur því unnið tvöfalt. kris@mbl.is