Hjalti Ragnar Ásmundsson fæddist 26. apríl 1939. Útför hans fór fram 10. maí 2019.

Uppáhalds frændi minn er látinn. Þrátt fyrir að hafa nýlega fagnað 80 ára afmælinu sínu varð Hjalti móðurbróðir minn aldrei gamall. Alltaf teinréttur, hjólaði um allan bæ og synti oft í viku.

Hjalti var ræktandi. Hann hafði gaman af því að rækta garðinn sinn, setti niður grænmeti og jarðarberin hans voru einstök, mikil uppskera og ákaflega bragðgóð. Hann ræktaði líka fólkið sitt, var duglegur að kíkja í kaffi til systkina sinna og aðstoða þau þegar þurfti. Hlynur sonur hans og Anna Kristín nutu einnig dyggrar aðstoðar hans við endurbætur á Stekkum.

Hjalti hafði gaman af veiði enda alinn upp á bökkum Stóru-Laxár. Síðustu árin hafði hann endurbyggt gamla veiðikofann á eyrunum við Hólakot til að nota sem sumarhús og síðustu vinnustundirnar voru við að klára pallinn við bústaðinn.

Ég naut þess sem barn að vera í miklum samskiptum við Hjalta þegar ég dvaldi í Hólakoti, bæði hjá ömmu og afa og síðar sem barnapía hjá honum og Jónínu. Það eru margar góðar minningar frá þessum árum bæði úr daglegum störfum þar sem oft var slegið á létta strengi. Einnig eru minnisstæðar ferðir á Álfaskeið og í sundlaugina í Þjórsárdal. Hjalti hafði gaman af djassi og mér er minnisstætt stóra segulbandið hans sem hann spilaði oft djass af á kvöldin.

Takk fyrir samfylgdina, kæri frændi. Innilegar samúðarkveðjur kæra Jónína, Gísli, Ásmundur Páll, Hlynur, tengdadætur og barnabörn.

Þín frænka,

Brynja Hjálmtýsdóttir.