Her Franskur hermaður við landamæri Malí og Búrkína Fasó í mars.
Her Franskur hermaður við landamæri Malí og Búrkína Fasó í mars.
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Vígamenn réðust inn í kaþólska kirkju í bænum Dablo í norðurhluta Afríkuríkisins Búrkína Fasó klukkan níu í gærmorgun og skutu sex manns innandyra til bana í miðri messu, þar á meðal prestinn.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Vígamenn réðust inn í kaþólska kirkju í bænum Dablo í norðurhluta Afríkuríkisins Búrkína Fasó klukkan níu í gærmorgun og skutu sex manns innandyra til bana í miðri messu, þar á meðal prestinn. Vígamennirnir, sem voru um 20 til 30 talsins, lögðu síðan eld að kirkjunni og komust undan. Eldurinn barst til fleiri bygginga í bænum og vígamennirnir létu greipar sópa um heilbrigðismiðstöð þar í nágrenninu í óðagotinu.

Ousmane Zongo, bæjarstjóri Dablo, sagði í viðtali við AFP að skelfingarástand ríkti í bænum.

„Fólk hefur lokað sig af inni á heimilum sínum, öll starfsemi hefur verið lögð niður. Búðir og verslanir eru lokaðar. Þetta er nánast draugabær,“ sagði hann.

Árásir jihadista hafa færst í aukana í Búrkína Fasó frá árinu 2015. Fyrir tveimur vikum réðust hryðjuverkamenn á mótorhjólum á mótmælendakirkju í Silgadji og myrtu prestinn og fimm sóknarbörn.

Aðeins tveimur dögum áður en árásin í Dablo var gerð höfðu franskir hermenn bjargað fjórum gíslum úr haldi hryðjuverkamanna í norðurhluta landsins. Tveir hermenn létu lífið í björgunaraðgerðinni. Um 4.500 franskir hermenn eru í Búrkína Fasó, Malí, Níger og Tjad til þess að hjálpa stjórnvöldum að vinna bug á hryðjuverkaógninni sem stafar af öfgasamtökum á svæðinu. Samkvæmt talningu Sameinuðu þjóðanna hafa um 100.000 manns hrakist að heiman vegna árása á þessu ári.