Hróbjartur Jónatansson
Hróbjartur Jónatansson
Eftir Hróbjart Jónatansson: "Til þess að fylgja nauðsynlegu breytingarferli eftir er æskilegt að ákveðin endurnýjun verði í stjórn sjóðsins."

Í dag fer fram ársfundur Frjálsa lífeyrissjóðsins. Gagnrýni á rekstrarfyrirkomulag sjóðsins undir pilsfaldi Arion banka og afskipti Fjármálaeftirlitsins af málefnum hans hafa knúið núverandi stjórn til að koma fram með tillögur um breytingar á regluverki lífeyrissjóðsins sem miða að því að gera hann sjálfstæðari gagnvart rekstraraðilanum. Nú hefur sjóðurinn loksins ráðið eigin framkvæmdastjóra. Þá stendur til að afnema ákvæði í samþykktum sjóðsins sem veitir bankanum einkarétt á að þjónusta sjóðinn. Það er einnig löngu tímabært. Þó leggur meirihluti stjórnar fram tillögu sem felur í sér að aukinn meirihluta atkvæða á ársfundi þurfi til að segja upp rekstraraðila sjóðsins. Eðlilegra er hins vegar að setja það í hendi stjórnar sjóðsins að ákveða hvernig rekstri sjóðsins er háttað hverju sinni. Að binda uppsögn rekstrarsamnings við slíkan meirihluta á ársfundi virðist gert til að styrkja stöðu bankans í þessum breytingum. Þá stendur til að heimila rafrænar kosningar til stjórnarsetu og sú réttarbót, sem er löngu tímabær, færir kosningaréttinn í reynd til allra sjóðfélaga. Þeir þurfa þá ekki lengur gera sér ferð í Borgartún 19 í Reykjavík til að hafa áhrif á stjórn sjóðsins. Frekari breytingum verður að koma fram ef á að nútímavæða sjóðinn að fullu og gera hann í raun sjálfstæðan. Þannig þarf að færa starfstöð sjóðsins út úr Arion banka og færa undir hann ákveðna kjarnastarfsemi sem ávallt hefur verið útvistað til bankans. Líkt og tíðkast hjá sjálfstæðum lífeyrissjóðum. Sömuleiðis þarf að aðskilja endurskoðun bankans frá endurskoðun sjóðsins en sama endurskoðunarfélag hefur um árabil þjónað báðum. Það er ekki heppilegt fyrirkomulag. Á síðasta ársfundi lýsti formaður endurskoðunarnefndar sjóðsins, sem raunar er aðeins skipuð stjórnarmönnum, því yfir að farið yrði með endurskoðun sjóðsins í útboð. Af því hefur þó ekki orðið.

Til þess að fylgja nauðsynlegu breytingarferli eftir er æskilegt að ákveðin endurnýjun verði í stjórn sjóðsins. Stjórnarmenn sem setið hafa í mörg ár, sem ýmist voru skipaðir af bankanum eða kosnir á grundvelli yfirráða bankans, gefa allir kost á sér að nýju. Það virðist því vera eftirsóknarvert að stýra lífeyrissjóði svo árum og áratugum skiptir.

Hagsmunum sjóðfélaga Frjálsa lífeyrissjóðsins er best borgið á þessum tímamótum með því að stokkað sé upp í stjórninni og valdir séu nýir stjórnarmenn sem líklegir eru til þess bera með sér ný og fersk viðhorf inn í stjórnina. Ég skora því á sjóðfélaga að fylkja sér um að kjósa nýtt fólk í stjórn sjóðsins á ársfundinum í dag.

Höfundur er lögmaður og sjóðfélagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum.

Höf.: Hróbjart Jónatansson