Guðjón Jósepsson fæddist 9. september 1932. Hann lést 30. apríl 2019.

Guðjón var jarðsunginn 10. maí 2019.

Við fráfall vinar míns Guðjóns Jósepssonar, sem andaðist á Hrafnistu 30. apríl sl., er mér bæði ljúft og skylt að minnast hans með fáeinum orðum. Kynni okkar hófust fyrir nokkrum áratugum þegar ég falaðist eftir að fá afnot af fjárhúsum fyrir kindur mínar hjá honum ásamt jarðnæði o.fl. Guðjón tók beiðninni vel og hófst þá hjá okkur góð samvinna. Vorum við þarna saman með kindur okkar og hafði Guðjón forystu um alla hirðingu og gjöf. Fór honum það vel úr hendi enda alinn upp innan um skepnur frá barnæsku.

Guðjón var glæsimenni og stundaði líkamsrækt frá unglingsaldri, t.d. fjallgöngur, lyftingar og sjóböð, einnig var hann mikill sóldýrkandi. Við heyskap sat hann gjarnan á sundskýlunni á dráttarvélunum ef sólar naut við. Það voru mikil forréttindi fyrir mig að taka þátt í bústörfunum með Guðjóni ásamt vélaviðhaldi og ýmsu sem til féll á heimilinu. Hann var hagur á tré og járn og margt handverk eftir hann vekur aðdáun. Ég held að hann hafi sjaldan þurft utanaðkomandi vinnuafl varðandi smíðar og viðhald vélanna. Guðjón var ekki fyrstur manna að tileinka sér nýjustu tækni heldur nýtti sér efni og verkfæri þó að gamalt væri.

Fyrir nokkrum árum fór heilsu Guðjóns að hraka nokkuð og að því kom að hann hafði ekki mátt til útiverka. Það var honum þung raun að geta ekki farið í fjárhúsin eða á verkstæðið sitt en við tók innivera. Hann bað ævinlega um fréttir úr fjárhúsinu þegar ég kom frá því að gefa kindunum, hvort þær hefðu étið vel og hvaða glugga ég hefði skilið eftir opinn, t.d. ef illviðri var í aðsigi.

Fyrir ári varð Guðjón að leggjast á sjúkrahús og átti ekki þaðan afturkvæmt.

Guðjóni var annt um köttinn sinn, sem heitir Svartur, og fékk ég það ábyrgðarmikla hlutverk að hugsa um hann og vildi hann fá fréttir af honum í hverri í heimsókn minni á spítalann, hvar hann hefði sofið í nótt og hvað hann hefði étið, sem ber vott um hversu góðan mann hann hafði að geyma en Guðjón var umfram allt skemmtilegur og hafði góða nærveru.

Ég þakka Guðjóni fyrir allt sem hann gerði fyrir mig og mína fjölskyldu og ekki síst kindurnar.

Megi Guðjón hvíla í friði.

Guðmundur Ólafsson.