Fuglar Kríur á Seltjarnarnesi árið 2018. Varpinu þar hrakaði ári áður.
Fuglar Kríur á Seltjarnarnesi árið 2018. Varpinu þar hrakaði ári áður. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Vonast er til þess að kríustofninn á Íslandi verði öflugri í ár heldur en undanfarið. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir að afkoma kríunnar á sunnan- og vestanverðu landinu hafi versnað vegna ætisskorts frá árinu 2005. Krían sé nú á válista Náttúrufræðistofnunar yfir fugla í nokkurri hættu.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Vonast er til þess að kríustofninn á Íslandi verði öflugri í ár heldur en undanfarið. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir að afkoma kríunnar á sunnan- og vestanverðu landinu hafi versnað vegna ætisskorts frá árinu 2005. Krían sé nú á válista Náttúrufræðistofnunar yfir fugla í nokkurri hættu.

Ætisskortur kríunnar var í samræmi við vandamál fjölmargra annarra sjófugla sem byggja afkomu sína á sandsíli. Stofn sandsíla beið hnekki á þessum tíma og hefur ekki rétt úr sér síðan. Jóhann segir að kríustofninn hafi hins vegar rétt úr kútnum árið 2015 og kríuvarp á Seltjarnarnesi var í meðallagi það ár. Varpið var einnig gott árið 2016 en því hrakaði nokkuð árið 2017. Kríuvarpið var með svipuðu móti við Reykjavíkurtjörn en þar mistókst varpið í fyrrasumar.

Varp sjófugla hefur síðustu ár gengið betur á norðanverðu Íslandi, norðan línu sem dregin er frá Arnarfirði til Stöðvarfjarðar. Þar er meira um sandsíli og fjölbreyttari fæða fyrir sjófuglana.

Krían er langförulust allra fugla og á sér varpstaði allt í kringum norðurheimskautið. Vetrarstöðvar kríunnar eru í Suður-Atlantshafi við Suður-Afríku og í Suður-Íshafinu við Suðurskautslandið. Kríurnar nýta sér staðvinda til þess að auðvelda sér þetta langa farflug og fylgja ætisríkum hafsvæðum á leiðinni. Jóhann Óli segir að reiknað hafi verið út að gamlar kríur fljúgi um það bil þrefalda vegalengdina til tunglsins yfir ævina. Flughraði fuglanna sé um 45 til 60 km á klst. í um sex til sjö tíma á hverjum degi. Alls séu þetta um 300 km á dag.